Grillveisla á Vitanum
Velkomin
Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri
Fréttir og greinar

Sjálfstæðisflokkurinn stendur staðfastur í veiðigjaldamálinu vegna einskis annars en okkar sannfæringar. Ég er ekki í pólitík til að segja fólki bara það sem það vill heyra. Ég er ekki í pólitík til að bogna undan árásum andstæðinga okkar. Ég er í pólitík til að standa vörð um grundvallaratriði. Ég er hér til að standa með því sem er rétt. Með fólkinu sem byggir þetta land upp með vinnu sinni. Það er stundum látið í veðri vaka að við séum að verja fámennan hóp. En það er einfaldlega rangt. Við stöndum með fólkinu sem mætir til vinnu á hverjum degi. Með þeim sem halda atvinnulífinu gangandi. Með byggðunum um allt land þar sem fólk hefur byggt sér líf og framtíð. Við höfum boðið málamiðlanir. Vegna þess að við trúum á samtal og lausnir sem byggja á fagmennsku og traustum forsendum. Ríkisstjórnin hefur kosið að hlusta ekki á varnaðarorð þeirra sem þekkja málið best. Ábyrgðin á stöðunni sem nú er uppi liggur ekki hjá okkur. Hún liggur hjá þeim sem kjósa að loka eyrunum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei elt vinsældir. Við látum ekki stjórnast af popúlískum vindum. Við höfum þá bjargföstu trú að öflugt atvinnulíf sé grunnstoð þeirrar velferðar sem við höfum byggt upp á Íslandi. Og það er skylda okkar að standa vörð um það. Sagan mun sýna hverjir raunverulega stóðu með almenningi í þessu landi. Hverjir það voru sem stóðu vörð um störf, fjölbreytt atvinnulíf, nýsköpun og verðmætasköpun. Þar mun Sjálfstæðisflokkurinn standa réttu megin við línuna. Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins

Alþingi hefur nú til meðferðar frumvarp um hækkun veiðigjalda. Fyrir liggur að áhrif frumvarpsins munu leggjast mjög misþungt á ólíka landshluta. Sé litið til Norðausturkjördæmis aukast byrðarnar hvergi meira. Fram kemur í samantekt KPMG, sem unnin var fyrir Samtök sjávarútvegssveitarfélaga, að álögð veiðigjöld í Norðausturkjördæmi hækki um 3,2 milljarða króna að teknu tilliti til staðsetningar starfseminnar. Athygli vekur að hækkunin leggst að langmestu á tvö kjördæmi, Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi, eða um 75% af hækkuninni. 41 prósent í Norðausturkjördæmi Verði hið nýja frumvarp um hækkun veiðigjalda samþykkt mun sjávarútvegur í Norðausturkjördæmi þurfa að standa undir tæplega helmingi allrar gjaldtöku ríkisins. Um leið og ríkisstjórnin boðar skattheimtuna kveður hún upp úr með að „þjóðin styðji hærri veiðigjöld“. Það er engin furða þegar stærstur hluti þjóðarinnar býr innan verndarveggja höfuðborgarsvæðisins, þar sem skattbyrðin er sárasmá og niðurstaðan því fyrirfram augljós. Til samanburðar mun aukning á skattheimtu á höfuðborgarsvæðinu og Suðvesturlandi nema einungis um 0,5 milljörðum. Erfitt er að neita því að hér sé um landsbyggðarskatt að ræða. Ef krafan er aukin skattheimta – hvar er jafnræðið? Við getum deilt um hvort ríkið eigi að hækka auðlindagjöld, en ef stefnan er fólgin í aukinni skattheimtu hlýtur sama regla að gilda um allar atvinnugreinar sem nýta sameiginlegar auðlindir. Ef markmiðið er að samfélagið njóti arðs af sameiginlegum auðlindum, verður skattkerfið að gæta að jafnræði milli auðlinda, milli landshluta og milli atvinnugreina. Metfjárfestingar í sjávarútvegi – og margföld veiðigjöld Á árunum 2020-2023 fjárfestu sjávarútvegsfyrirtæki í Norðausturkjördæmi fyrir um 75 milljarða króna, nær 90 prósent af uppsöfnuðum hagnaði sama tímabils. Arðgreiðsluhlutfallið lá á bilinu 10-25 prósent, en greidd veiðigjöld voru margföld á við arðinn. Ef frumvarpið nær fram að ganga hækkar þessi gjaldbyrði enn og dregur fjármagn frá verðmætasköpun sem byggðarlögin treysta á. … en önnur auðlindanýting sleppur Á sama fjögurra ára tímabili hagnaðist Orkuveita Reykjavíkur um 32,5 milljarða króna og greiddi eigendum sínum 16,5 milljarða í arð – rúman helming hagnaðarins. Engin auðlindagjöld féllu þó á fyrirtækið. Okkur er ekki í mun að kasta rýrð á Orkuveituna, heldur benda á ósamræmið: Ef fyrirtæki í sjávarútvegi eiga að greiða hærri gjöld fyrir nýtingu auðlinda, hvers vegna gildir þá ekki sama hugsun um önnur fyrirtæki sem njóta góðs af sameiginlegum náttúruauðlindum þjóðarinnar? Landsbyggðarskattur á sterum Sjávarútvegur er víða burðarás atvinnulífs landsbyggðanna. Þegar ríkið leggur megnið af nýjum gjöldum á þessa einu atvinnugrein – á meðan aðrir auðlindanýtendur eru undanskildir – hlýtur niðurstaðan að vera skýlaus mismunun gegn landsbyggðinni. Þessi skattbyrði bitnar á fjárfestingu, atvinnutækifærum og lífskjörum fólks sem býr, starfar og leggur sitt af mörkum utan höfuðborgarsvæðisins. Kall til Alþingis Við hvetjum Alþingi til að staldra við. Ef vilji er til aukinnar skattheimtu, sem við vörum við, þarf byrðin að dreifast sanngjarnara. Jafnræði milli atvinnugreina og landshluta er forsenda þess að auðlindagjöld verði bæði réttlát og sjálfbær. Landsbyggðin getur ekki verið tekjulindin ein og sér. Heimir Örn Árnason formaður bæjarráðs Akureyrarbæjar Ragnar Sigurðsson formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar og formaður sveitarstjórnarráðs Sjálfstæðisflokksins

Þann 18. júní hélt Eydís Ásbjörnsdóttur, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, því fram á Alþingi að stjórnarliðar hefðu fengið „jákvæð viðbrögð“ sveitarstjórnarfólks um land allt við tvöföldun veiðigjalda og hvatti stjórnarandstöðuna til að „tala við sitt fólk“. Við – kjörnir fulltrúar í stærstu sjávarútvegssveitarfélögum kjördæmisins hennar – erum einmitt „fólkið“ sem þingmaðurinn á að hafa talað við. Umsagnir okkar og kollega um þetta sama frumvarp segjast hins vegar annað: Hvað sögðu sveitarfélögin í raun? Akureyrarbær: Hækkunin „grefur undan fjárfestingu og stöðugleika í atvinnulífi bæjarins.“ Norðurþing: Varar við verulegri tekjuáhættu og „óþolandi misræmi“ þar sem stærstur hluti hækkunarinnar lendir á kjördæminu. Langanesbyggð: Bendir á að gjöldin „geta grafið undan byggðafestu“ þar sem sjávarútvegur standi undir grunni sveitarfélagsins. Vopnafjarðarhreppur: Telur frumvarpið setja „hagsmuni samfélagsins í uppnám“ með skertum fjárfestingartækifærum og færri störfum. Fjarðabyggð: Bæjarráð „mótmælir harðlega“ að hækkunin bitni einkum „á landsbyggðinni“. Vestmannaeyjabær; „Óásættanlegt að leggja fram tvöföldun veiðigjalda án mats á áhrifum á sveitarfélög; getur orðið gífurlegt högg.“ Vesturbyggð: Varar við að gjaldið verði „of íþyngjandi fyrir smærri útgerðir“ og krefst skýrra svara um hvernig innheimtan nýtist byggðunum. Ísafjarðarbær: Hækkunin sé „bein ógn við byggðafestu“ á Vestfjörðum. Bolungarvíkurkaupstaður: Hefur „áhyggjur af aukinni gjaldtöku og mögulegri samþjöppun“ sem leiði til fækkunar starfa og minni samfélagsþátttöku. Snæfellsbær: Telur gjaldið „kæfa nýsköpun og áform um fjölgun starfa.“ Suðurnesjabær: Varar við „skaðlegum áhrifum á lítil og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki.“ Akraneskaupstaður: Kallar eftir áhrifamati; „Óvissa skapar fyrirtækjum erfiðleika… stöðugleiki í starfsumhverfi sjávarútvegs skiptir verulega miklu máli.“ Dalvíkurbyggð: Segir með ólíkindum að hækkunin sé talin áhrifalítil; vísar til þess að sjávarútvegur standi undir 34 % launa í sveitarfélaginu. Grindavíkurbær: Minnir á náttúruhamfarir og varar við að hækkunin bæti 400 m.kr. á útgerðir sem þegar glími við fordæmalausar áskoranir. Þetta minnir lítið á „jákvæð“ viðbrögð – nema orðið hafi skipt um merkingu. Hún hafði þetta rétt… árið 2018 Þann 2. nóvember 2018, sem formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, undirritaði Eydís bókun sem taldi 10 % aukaálag á uppsjávarútgerðir „ósanngjarnan landsbyggðarskatt“ sem gengi beint á sveitarfélög með öflugan sjávarútveg. Sömu rök heyrist nú – en nú kallar hún viðbrögðin „jákvæð“. Allt einn misskilningur Að lýsa ofangreindum umsögnum sem „jákvæðum viðbrögðum“ eru einfaldlega alger öfugmæli. Sami þingmaður hefur líka lýst ánægju með breytingar á strandveiðikerfinu sem færa kvóta frá Norðaustur til Norðvesturkjördæmis. Allt grefur þetta undan núverandi kerfi sem skapar atvinnu og verðmæti í kjördæminu og sjávarútvegi um allt land. Kerfi sem skapar byggðafestu og veitir heilsársstörf. Ég hvet Alþingi til að hlusta á málefnalegar athugasemdir sveitarfélaganna áður en lokaniðurstaða er fest á blað. Heimir Örn Árnason oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, formaður bæjarráðs á Akureyri og stjórnarmaður í Samtökum sjávarútvegsfélaga.

Alþingi fjallar nú um stórhækkun veiðigjalda. Samkvæmt greiningu KPMG fyrir Samtök sjávarútvegssveitarfélaga myndu fyrirtæki í Norðausturkjördæmi greiða um 6,2 milljarða króna í veiðigjöld – 3,5 milljörðum meira en í dag. Það jafngildir um 45% allra veiðigjalda landsins. Ef krafan er aukin skattheimta, þarf hún að dreifast Ef stjórnvöld telja nauðsynlegt að auka tekjur ríkissjóðs með auðlindagjöldum, hljóta þau að telja það eðlilega kröfu að slíkar álögur dreifist yfir fleiri atvinnugreinar og að jafnræðis sé gætt milli höfuðborgar og landsbyggðar. Sjávarútvegur er burðarás landsbyggðanna og sérstaklega í Norðaustur- og Suðurkjördæmi. Það er erfitt að sjá sanngirni í því að ein auðlindagrein beri meginbyrðina, á meðan aðrar greinar sem einnig treysta á sameiginlegar auðlindir, njóta ákveðinnar sérstöðu. Á árunum 2020-2023 fjárfestu sjávarútvegsfyrirtæki á svæðinu fyrir um 75 milljarða króna – nær 90% af uppsöfnuðum hagnaði sínum. Hækkunin sem nú er lögð til myndi taka verulegt fjármagn úr þeirri verðmætasköpun. Þessi þróun vekur áhyggjur okkar, sveitarstjórnarfólks í Norðausturkjördæmi, þar sem horfur um áframhaldandi fjárfestingar og störf í kjördæminu myndu versna. Jafnræði – lykilatriði Sé stefnan sú að auka skattlagningu á nýtingu sameiginlegra auðlinda, er þá ekki eðlilegast að tryggja að: Byrðar dreifist – Skattar leggist ekki á eina atvinnugrein eða einn landshluta umfram aðra. Jafnræði gildi – Reglur gildi með sama hætti um allar greinar sem nýta auðlindir; landsbyggðin má ekki verða tekjulindin ein. Verðmætasköpun lifi – Skattheimtan kæfi hvorki fjárfestingar né störf sem byggðarlögin treysta á. Hvatning til endurmats Við hvetjum Alþingi til að staldra við, endurskoða forsendur og tryggja að auðlindagjöld framtíðarinnar byggist á sanngirni, jafnræði og heildstæðum hagrænum rökum – ekki á landfræðilegri mismunun. Heimir Örn Árnason oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri Ragnar Sigurðsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð Sigríður Guðrún Hauksdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í Fjallabyggð Freyr Antonsson oddviti Sjálfstæðisflokksins á Dalvík Berglind Harpa Svavarsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi Hafrún Olgeirsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins á Húsavík Gísli Gunnar Oddgeirsson oddviti í Grýtubakkahreppi