Velkomin

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri

Fréttir og greinar


20. janúar 2026
Framundan er val okkar Sjálfstæðismanna á Akureyri um fulltrúa í bæjarstjórnarkosningum í vor. Ákveðið var á fundi fulltrúaráðs að hafa röðun í efstu fjögur sætin í samræmi við atkvæði á kjörfundi, og síðan leggur kjörnefnd fram tillögu að fullskipuðum framboðslista fyrir fulltrúaráð samkvæmt skipulagsreglum flokksins. Þegar ákvörðun um fyrirkomulag var tekin í fulltrúaráði, var komið fram eitt framboð sitjandi oddvita. Síðan héldum við glæsilegt Bæjarþing þar sem almennir flokksmenn gátu látið í sér heyra og skerpt á sínum áherslum. Í kjölfar þess hefur bæst við eitt framboð til oddvita og er nú komin lýðræðisleg samkeppni um oddvitasætið. Vonandi munu fleiri gefa kost á sér í þau sæti sem kosið verður um og þátttaka verði mikil frá fólki sem lætur sér annt um bæinn okkar. Röðun verður haldin laugardaginn 7. febrúar. Framboðsfrestur er til 6. febrúar kl. 12:00. Fyrir ríflega ári síðan hóf ég þátttöku á ný í starfi Sjálfstæðisflokksins eftir áratuga hlé. Til þess að hafa áhrif á sitt samfélag þýðir ekki að sitja heima og tuða yfir því sem aðrir eru að gera, heldur er lykillinn að vera þátttakandi í stefnumótun og samtali sem varðar samfélagið. Aðeins með uppbyggilegum skoðanaskiptum, fræðslu og félagsstarfi getum við lyft hverju öðru upp, stækkað og eflst, og myndað sterkari grunn til sóknar. Eins og margir tek ég þátt í þessu starfi af einlægum áhuga, en ekki endilega með það í huga að gefa kost á mér í kosningum, heldur að taka þátt í samfélaginu með fólki á svipaðri bylgjulengd. Félagsstarf sem við sinnum í frítíma okkar á að vera skemmtilegt, nærandi og uppbyggilegt, þrífast í ljósinu en ekki týnast í þoku eldri átaka sem hafa litla þýðingu fyrir málefni og viðfangsefni líðandi stundar. Kjörnefnd hefur ákveðið að halda kosningaupphitun miðvikudagskvöldið 4. febrúar á Hótel Akureyri kl 20:00 (þar sem hittingur fyrir bæjarþingið var). Þar munu frambjóðendur geta kynnt sig betur og gert grein fyrir helstu áherslumálum. Hér er frábært tækifæri til að gefa kost á sér eða spyrja frambjóðendur spjörunum úr í aðdraganda kosninga þann 7. febrúar. Það er von mín sem formanns kjörnefndar, að við höldum prúðmennsku í fyrirrúmi og að sem flestir gefi kost á sér til setu á lista. Eftir að búið er að sammælast um lista þann 7. febrúar verður gaman að ganga samstíga til móts við kosningar í vor. Við höfum góða sögu að segja, bærinn er í blóma og við höfum haft afar jákvæð áhrif á yfirstandandi kjörtímabili. Þessu þarf að koma skilmerkilega á framfæri og kynna síðan vel þá framtíðarsýn sem við hyggjumst berjast fyrir. Áfram og upp! Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson formaður kjörnefndar Sjálfstæðisflokksins á Akureyri
Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 19. janúar 2026
Bæjarmálafundur Sjálfstæðisflokksins á Akureyri verður haldinn í Geislagötu 5 mánudaginn 19. janúar kl. 18:00. Farið yfir stöðuna í bæjarmálunum, 11 mánaða yfirlit á ársreikningi Akureyrarbæjar, Blöndulínu 3 og skipulagsmál. Fundarstjóri: Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Allir velkomnir - heitt á könnunni.
15. janúar 2026
Berglind Ósk Guðmundsdóttir, fyrrum alþingismaður, gefur kost á sér í oddvitasætið í röðun sem fram fer 7. febrúar við val á framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri við sveitarstjórnarkosningar í vor. Áður hafði Heimir Örn Árnason, núverandi oddviti flokksins á Akureyri, tilkynnt í nóvember að hann gæfi kost á sér áfram. Berglind Ósk er 32 ára lögfræðingur og var alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi 2021-2024. Hún tilkynnti framboð sitt í eftirfarandi tilkynningu á facebook-síðu sinni í morgun: "Akureyri er heimabærinn minn. Hér á ég rætur, hér vil ég ala upp börnin mín þrjú og hér vil ég vinna að sterku og traustu samfélagi til framtíðar. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Ég tek það hlutverk alvarlega og ég geri það af heilum hug. Málefni fjölskyldunnar eru mér ofarlega í huga. Sveitarfélagið þarf að styðja við fjölskyldur á öllum æviskeiðum - börn, fjölskyldur og eldri borgara, með öflugri þjónustu, góðum skólum og umhverfi sem styður bæði virkt atvinnulíf og góð lífsskilyrði alla ævi. Sterkt atvinnulíf er forsenda velferðar. Akureyri á að vera sveitarfélag þar sem fólk hefur tækifæri til að vinna, skapa og byggja upp. Ég vil leggja áherslu á sterkt og fjölbreytt atvinnulíf, góð skilyrði fyrir fyrirtæki og frumkvöðla og samvinnu við atvinnulífið um áframhaldandi uppbyggingu. Fjármál sveitarfélagsins tengja þetta allt saman. Rekstur Akureyrarbæjar hefur verið á góðri leið undanfarin ár, en það má alltaf gera betur. Ég tel mikilvægt að halda áfram á ábyrgri braut, nýta fjármuni skynsamlega og forgangsraða þannig að fjárfestingar í fjölskyldum og atvinnu skili raunverulegum árangri til framtíðar. Sem lögfræðingur og fyrrum þingmaður hef ég reynslu af ákvarðanatöku, lagasetningu og ábyrgri stjórnsýslu. Ég veit að góð forysta byggir á trausti, fagmennsku og skýrri sýn en líka á hlýju, samvinnu og því að hafa gaman af því að vinna saman að sameiginlegum markmiðum. Ég vil leiða öflugan lista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og vinna með góðu fólki að sterku, framsýnu og fjölskylduvænu bæjarfélagi."
Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 11. janúar 2026
Takk fyrir komuna á Bæjarþingið! Bæjarþing Sjálfstæðisflokksins á Akureyri var haldið á Múlaberg á Hótel KEA í gær. Sjálfstæðismenn fjölmenntu til að ræða málefni bæjarins og var unnin þar vinna sem verður flokknum mikilvæg á komandi árum og í aðdraganda bæjarstjórnarkosninga 16. maí næstkomandi. Á þinginu voru málefnum skipt í 5 flokka, fjármál og atvinnumál, menntamál, skipulags og umhverfismál, velferðarmál og önnur mál. Í hverjum flokki fyrir sig gafst fólki tækifæri til að tjá sínar skoðanir á málaflokknum og koma með hugmyndir. Allt var þetta svo gert upp á fundinum og fer í frekari vinnu hjá stjórnum félaganna. Fundarstjóri var Ármann Kr. Ólafsson, fyrrum bæjarstjóri í Kópavogi. Í upphafi fundar las Ármann upp minningarorð um Halldór Blöndal, fyrrum ráðherra og forseta Alþingis, sem birtust á Íslendingi þegar hann lést í desember sl. og kryddaði frásögnina með sögum frá samstarfi þeirra úr kosningabaráttunni 1995 og þegar hann var aðstoðarmaður Halldórs. Fundarmenn risu úr sætum Halldóri til heiðurs. Á föstudagskvöldið var haldinn vel heppnaður hittingur með Jens Garðari Helgasyni, varaformanni Sjálfstæðisflokksins og oddvita flokksins í kjördæminu, í nýjum og glæsilegum sal á Hótel Akureyri, Lóni. Hótelið var valin glæsilegasta nýbygging liðins árs og skal engan undra, sérlega vel heppnuð uppbygging. Næsta skref í aðdraganda kosninga er val á lista flokksins og hefur fulltrúaráð flokksins ákveðið að fari fram röðun í efstu fjögur sætin. Röðun fer fram laugardaginn 7. febrúar og eru sem flestir hvattir til að bjóða sig fram. Umfjöllun um Bæjarþingið og fleiri myndir frá deginum
Sýna meira
Fleiri fréttir
Í tilefni Bæjarþingsins ætlar Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri að bjóða uppá hitting með varaformanni Sjálfstæðisflokksins Jens Garðari Helgasyni.
Bæjarþing - Hvert er næsta mál? Málefnaþing Sjálfstæðisflokksins á Akureyri.
Ákveðið hefur verið að röðun um val frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins á Akureyri við næstu sveitarstjórnarkosningar fari fram á fundi aðal- og varamanna í fulltrúaráði laugardaginn 7. febrúar nk. Kosið verður um fjögur efstu sæti framboðslistans á fundinum.
Sjá alla viðburði