Bæjarmálafundur Sjálfstæðisflokksins á Akureyri verður haldinn í Geislagötu 5 mánudaginn 15. september kl. 17:30.
Velkomin
Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri
Fréttir og greinar

Bæjarmálafundur Sjálfstæðisflokksins á Akureyri verður haldinn í Geislagötu 5 mánudaginn 6. október kl. 17:30. Bæjarfulltrúar fara yfir helstu framkvæmdamál sem eru í gangi og eru í bígerð hjá Akureyrarbæ. Fundarstjóri: Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri Allir velkomnir - heitt á könnunni.

Í gær 20. september voru liðnir sjö mánuðir frá því að ósk níu þingmanna um að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ynni skýrslu vegna lokunar austur- vestur flugbrautar Reykjavíkurflugvallar var samþykkt á Alþingi. Vegna þessara miklu tafa sem hafa orðið á afhendingu skýrslunnar og nú þegar nýtt þing er hafið þarf á nýjan leik að leggja fram beiðni um að þessi skýrsla sé unnin. Saga máls Í byrjun febrúar á þessu ári kom upp sú sérkennilega staða þegar austur-vestur flugbraut Reykjavíkurflugvallar var lokað. Reykjavíkurborg hafði ekki staðið við skuldbindingar sínar um að fella tré í Öskjuhlíðinni sem vaxið höfðu upp í hindrunarfleti Reykjavíkurflugvallar og ekki hægt að tryggja hindrunarlaust aðflug og brottflug frá austur-vestur brautinni (flugbraut 13/31). Í skýrslubeiðninni er óskað eftir tímalínu á samskiptum þeirra aðila sem koma að málinu frá því í apríl 2013. Tilskipun Samgöngustofu Samgöngustofa gaf út tilskipun vegna málsins þar sem sagði m.a: „Hvorki Isavia innanlandsflugvöllum né Samgöngustofu hefur tekist að fá hindranir fjarlægðar þrátt fyrir skýr ákvæði Skipulagsreglna Reykjavíkurflugvallar og hefur Reykjavíkurborg verið veittur frestur til 17. febrúar nk. til að upplýsa Samgöngustofu um hvernig staðið verður að uppfyllingu þeirra krafna. Samgöngustofa beinir þeim fyrirmælum hér með til Isavia innanlandsflugvalla að takmarka notkun flugbrautar 13/31 þannig að flugbrautin sé ekki notuð til flugtaks og lendinga sem reynir á þá hindranafleti sem ekki eru hindranafríir. Þetta felur í sér að loka skal fyrir lendingar á flugbraut 13 og flugbraut 31, og að loka skal fyrir flugtök á flugbraut 13. Með vísan í fyrri samskipti þá ítrekar Samgöngustofa að bannið nær einnig til sjúkraflugs. Nota má flugbraut 31 til flugtaks og til aksturs loftfara og ökutækja.“ Um hvað er beðið í skýrslubeiðninni: Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra flytji Alþingi skýrslu um framkvæmd Samgöngustofu við lokun austur/vesturbrautar Reykjavíkurflugvallar og viðbrögð Reykjavíkurborgar við erindum stofnunarinnar, m.a. með tilliti til meginreglna stjórnsýsluréttar. Í skýrslunni verði fjallað um eftirfarandi atriði: 1. Samskipti Reykjavíkurborgar, Samgöngustofu, Isavia og eftir atvikum annarra aðila í aðdraganda lokunar flugbrautarinnar og tímalínu málsins frá undirritun samkomulags ríkisins og Reykjavíkurborgar um endurbætur á aðstöðu fyrir farþega og þjónustuaðila á Reykjavíkurflugvelli frá 19. apríl 2013. 2. Verklag og verklagsreglur Samgöngustofu og Isavia við lokun flugbrauta. 3. Hvort verklag Reykjavíkurborgar, Samgöngustofu og Isavia í aðdraganda lokunarinnar hafi verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. 4. Hvort Reykjavíkurborg hafi fylgt skipulagsreglum um Reykjavíkurflugvöll frá árinu 2009. 5. Hvort framkvæmd lokunar flugbrautarinnar og háttsemi Reykjavíkurborgar, Samgöngustofu og Isavia hafi verið í samræmi við ákvæði laga um loftferðir, nr. 80/2022, m.a. með tilliti til flugöryggis og almannaöryggis. 6. Hvort samningsaðilar hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samkomulagi ríkis og Reykjavíkurborgar um fellingu trjáa í Öskjuhlíð. 7. Hvernig staðið var að skipun starfshóps vegna setningar skipulagsreglna fyrir Reykjavíkurflugvöll, sbr. 1. mgr. 147. gr. laga um loftferðir, nr. 80/2022, og hvernig vinnu starfshópsins hefur miðað. Almannaöryggi Lokun flugbrautarinnar setti sjúkraflugið í landinu í alvarlega stöðu. Lokunin á sínum tíma kom til þess að ekki var vilji hjá Reykjavíkurborg til að standa við skyldur sínar. Borgaryfirvöld höfðu vitað af þessu vandamáli í að minnsta kosti áratug. Reykjavíkurflugvöllur er eitt af helstu öryggismannvirkjum landsins. Því er um grundvallarhagsmuni að ræða sem varðar öryggi landsmanna. Í 150. grein laga um loftferðir eru til staðar skýrar heimildir Samgöngustofu um það hvernig megi koma í veg fyrir að þessa ótrúlega staða hafi komið upp 8.febrúar síðastliðinn. Þeir þingmenn sem óska eftir að þessi skýrsla verði unnin telja eðlilegt að tekin verði saman gögn um það hvernig lokunin atvikaðist og hvort almannaöryggis hafi verið gætt í því ferli, í samskiptum Samgöngustofu, Reykjavíkurborgar og Isavia Innanlands Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

Hvers vegna þreytist ég ekki á því að benda á að árið 1995 opnuðu Nýsjálendingar aðra gátt inní landið sitt og bera það saman við þá uppbyggingu sem við eigum að standa að á Akureyrarflugvelli og Akureyri? Jú, Queenstown er umlukin fjöllum líkt og Akureyri og gerir því aðflugið sambærilegt. En þetta þarf nefnilega að vera pólitísk ákvörðun og landsbyggðarstefna en ég fullyrði að þetta er ein hagkvæmasta efnahagsaðgerð sem hægt er að fara í á Íslandi í dag. Allt tal um að Ísland sé uppselt og að við getum ekki tekið við fleiri ferðamönnum á ekki við hér á Norðausturlandi. Hér er töluvert rými til að bæta í allt árið og hagsmunaaðilar annarsstaðar á landinu eiga ekki að geta komið í veg fyrir að hér byggist upp alvöru alþjóðaflugvöllur og þar með önnur alvöru gátt inn í landið. Uppbyggingin Queenstown í Nýja-Sjálandi umbreyttist úr litlum fjalla- og skíðabæ eins og Akureyri er yfir í alþjóðlega ferðamannamiðstöð eftir að reglulegt millilandaflug hófst árið 1995. Ferðaþjónustan óx hratt og gerði svæðið að einum þekktasta „all-season“ áfangastað Nýja-Sjálands. Íbúafjöldinn á svæðinu hefur meira en þrefaldast frá 1996 til 2023 einfaldlega með því að ákveða að opna aðra gátt inní landið og vinna stöðugt að bættu aðflugi og uppbyggingu flugvallarins. Þróunin Uppbygging ferðamannastaðarins hófst árið 1995 þegar fyrsta reglubundna alþjóðlega flugleiðin (Sydney – Queenstown) var opnuð. Þetta gjörbreytti aðgengi að svæðinu og setti af stað mikla uppbyggingu í gistingu og afþreyingu. Mikil áhersla var á vetraríþróttir og skíðasvæði voru þróuð áfram, þannig varð Queenstown „vetrarhöfuðborg“ Nýja-Sjálands. Á árunum 1995 til 2000 fjölgaði svo flugleiðunum, aðallega frá Ástralíu. Á árunum 2000 til 2010 var áfangastaðurinn þróaður yfir allt árið, ekki lengur bara vetrartengt aðdráttarafl. Áhersla var á uppbyggingu hótela, veitingastaða og ævintýra afþreyingar. Á árunum 2010 til 2019 fjölgaði gestum verulega sem fóru um flugvöllinn ár hvert og var komið í 2,3 milljónir farþega 2019. Stórir alþjóðlegir fjárfestar komu inn í hótelgeirann, Queenstown flugvöllur var stækkaður og ferðaþjónusta varð langstærsti atvinnuvegur svæðisins. 2020–2021 COVID-19 leiddi til algörs hruns í komu ferðamanna líkt og annarsstaðar í heiminum. Fjöldi íbúa á svæðinu jókst þó áfram. Undanfarin ár eða 2022 til 2025 hefur orðið mjög hröð endurreisn ferðaþjónustu eftir covid og hefur gestafjöldi nálgast aftur fyrra hámark eða yfir 2,5 milljónir ferðamanna sem fara um flugvöllinn á ári. Íbúaþróun (Queenstown - Lakes District): - 1996 ~15.000 íbúar - 2006 ~22.000 íbúar - 2013 ~29.000 íbúar - 2018 ~39.000 íbúar - 2023 ~52.000 íbúar Akureyri hefur alla burði til að þróast næstu 30 árin líkt og Qeenstown gerði í það að verða 50 þúsund manna borg með daglegu millilandaflugi og stóraukinni ferðaþjónustu og afþreyingu allt árið. Við þurfum einfaldlega að ákveða að það sé það sem við viljum gera til að auka atvinnutækifæri og hagsæld í okkar landshluta en tækifærið er svo sannarlega til staðar. Þórhallur Jónsson varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri

Þann 12. júní s.l. lagði undirritaður fram þingsályktunartillögu um Samgöngufélagið Þjóðbraut. Eru nítján aðrir þingmenn úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Framsóknarflokksins meðflutningsmenn mínir á tillögunni. Í ályktuninni er innviðaráðherra falið að láta framkvæma heilstæða úttekt á þeim möguleika að stofna samgöngufélag, er verði hlutafélag, með það að markmiði að fjármagna, byggja, eiga og reka helstu samgöngumannvirki landsins, svo sem stofnbrautir, jarðgöng og stórar brýr. Félagið skuli bera nafnið Þjóðbraut hf. Er fyrirmynd af félaginu Spölur ehf, sem var stofnaður um rekstur Hvalfjarðaganga, og Tunnil p/f í Færeyjum. Í þingsályktunartillögunni er ráðherra einnig falið kanna leiðir til að gjaldtaka taki mið af tekjulíkani Spalar ehf. þannig að áskrifendur greiði lægra gjald en þeir sem borga fyrir staka ferð. Ráðherra er einnig falið að athuga hvað skatta og gjöld á umferð, t.d. vörugjöld á ökutæki, mætti lækka eða fella niður á móti. Telur undirritaður að þetta sé farsælli lausn á fjármögnun en með boðuðu kílómetragjaldi ríkisstjórnarinnar. Ef okkur lánast að stofna Samgöngufélagið Þjóðbraut hf. þá erum við að höggva á þann hnút sem skapast hefur í að koma stærri samgöngumannvirkjum í framkvæmd. Félag, sem hefur tekjustraum af innheimtu gjalda af helstu stofnvegum og stærri samgöngumannvirkjum, getur sótt fjármögnun erlendis, líkt og Færeyingar gera, sem og innanlands hjá lífeyrissjóðum eða öðrum lánastofnunum. Með þessu erum við að taka brýna innviðauppbyggingu úr karpi stjórnmálanna og setja í hendur hlutafélags sem hefur það eitt að markmiði að flýta fyrir innviðauppbyggingu samgöngumannvirkja á Íslandi. Er hægt að nefna tvöföldun Vesturlandsvegar, Reykjanesbrautar, Suðurlandsvegar, tvöföldun Hvalfjarðarganga og Sundabraut. Á landsbyggðinni eru jarðgöng á Austfjörðum, Norðurlandi og Vestfjörðum brýn ásamt endurnýjun stærri brúa, sérstaklega í Norðausturkjördæmi. Í þingsályktunartillögunni er farið yfir þau tækifæri sem eru við stofnun Þjóðbrautar. Þau eru m.a. hraðari uppbygging innviða, sérhæfð stjórn og rekstur, fjárhagslegur stöðugleiki og erlendar fyrirmyndir gefa tilefni til bjartsýni. Er það von mín og þeirra þingmanna sem að þessari þingsályktunartillögu standa, að ríkisstjórnin taki undir með flutningsmönnum og undirbúi stofnun Þjóðbrautar hf. Jens Garðar Helgason varaformaður Sjálfstæðisflokksins og oddviti í Norðausturkjördæmi