Grillveisla á Vitanum
Velkomin
Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri
Fréttir og greinar

Helgi Vilberg, fyrsti ritstjóri Íslendings - vefrits sjálfstæðisfélaganna á Akureyri, lést sunnudaginn 10. ágúst sl. 73 ára að aldri. Helgi var um áratugaskeið skólastjóri Myndlistaskólans á Akureyri og var virkur í félagsstarfi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri um langt skeið, sat í nefndum og ráðum fyrir flokkinn og var formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar í aldarbyrjun. Helgi Vilberg fæddist á Akureyri 7. nóvember 1951. Hann var sonur Helgu Hrannar Unnsteinsdóttur, verslunarmanns, og Hermanns Hólm Ingimarssonar, skipasmiðs. Helgi átti tvö systkini, Unnstein Hólm sem lést árið 1954, aðeins eins árs að aldri, og Hugrúnu Sif. Eiginkona Helga er Soffía Sævarsdóttir. Börn þeirra eru Rannveig (gift Stefáni Boulter), Ýr (gift Jóhanni G. Heiðarssyni) og Helgi Vilberg (kvæntur Katrínu Ernu Gunnarsdóttur). Öll hafa þau helgað sig listrænni sköpun, enda alin upp við skapandi og listrænt umhverfi í starfi foreldra sinna. Helgi ólst upp á Akureyri. Ungur heillaðist hann að listagyðjunni sem var honum heilladrjúg, enda var Helgi afar hæfileikaríkur, listrænn og frjór í hugsun og næmur í listsköpun sinni. Ungur að árum lék Helgi á gítar og var einn fjögurra stofnenda bítlaskotnu hljómsveitarinnar Bravó árið 1964, þá aðeins 13 ára og var elstur hljómsveitarmeðlima. Auk Helga voru Sævar Benediktsson, Kristján Guðmundsson og Þorleifur Jóhannsson, sem lést árið 2020, í Bravó. Ungherrarnir í Bravó áttu magnað skeið saman í tónlistinni þó stutt yrði. Hápunkti náði frægð Bravó-sveina þegar þeir hituðu upp fyrir bresku rokkhljómsveitina Kinks á átta tónleikum fjögur kvöld í röð í septembermánuði 1965 þegar sveitin kom fram í Austurbæjarbíói í Reykjavík. Þetta var fermingarár Helga, stuttu fyrir fjórtán ára afmælið hans. Tónleikarnir voru eftirminnileg lífsreynsla og mótandi skref á listrænni braut fyrir unga og efnilega drengi. Bravó kom aftur saman á nýrri öld en þá án Helga sem hafði valið sér annað listform en tónlistina sem sína ástríðu í lífinu. Myndlistin varð fyrir valinu og varð hún meginvettvangur í lífi og starfi Helga. Hann stundaði listnám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk þaðan kennaraprófi árið 1973. Við heimkomuna til Akureyrar varð Helgi kennari við Oddeyrar- og Glerárskóla 1973-1977. Á þeim tíma sat hann einnig í skólastjórn Myndsmiðjunnar. Árið 1974 stofnaði Helgi Myndlistaskólann á Akureyri í félagi við Úllu Árdal og Aðalstein Vestmann. 1977 söðlaði Helgi um og hætti kennslu í barnaskólunum og helgaði sig alfarið Myndlistaskólanum þegar hann tók þar við skólastjórn sem hann sinnti í 45 ár, uns hann lét af störfum vegna veikinda vorið 2022. Lengi framan af var Myndlistaskólinn til húsa í Glerárgötu en í lok níunda áratugarins verða mikil umskipti í lífi og starfi Helga þegar Listagilið kom til sögunnar - Kaupfélag Eyfirðinga færði atvinnurekstur sinn um set og ákveðið að listagyðjan yrði í forgrunni við enduruppbyggingu hinna fjölmörgu húsa í Gilinu þar sem KEA hafði starfsemi sína í. Helgi var framarlega í flokki þeirra sem leiddu þá uppbyggingu. Myndlistaskólinn fluttist í Kaupvangsstræti 16 en Helgi og Soffía eiginkona hans eignuðust og gerðu upp bakhúsið Kaupvangsstræti 14 sem heimili sitt og persónulega vinnustöð í næsta nágrenni við skólann í félagi við Guðmund Ármann, samstarfsmann og félaga þeirra í listinni. Helgi og Soffía efldu og styrktu skólastarf og listrænan metnað Myndlistaskólans með alúð og hugsjón að leiðarljósi - þau löðuðu öfluga listamenn jafnt til starfa í skólanum og unga listamenn til náms sem reyndist þeim mikilvægur skóli á listrænni lífsins leið. Skólinn var rómaður fyrir efnistök sín og vandaða kennslu í listnámsbrautum í fagurlistum og listhönnun. Það var mikið áfall fyrir Helga og Soffíu þegar eldur kom upp í húsinu í júlíbyrjun 2008 en þar var endurbyggt fumlaust og ákveðið og kennsla hófst með miklum sóma að nýju. Skólinn starfaði í Kaupvangsstræti 16 um þriggja áratuga skeið. Það var annað áfall þegar skólinn missti húsnæðið 2019 en áfram héldu þau hjón skólastarfinu af miklum myndarbrag í eigin húsnæði í Kaupvangsstræti 14 á síðustu starfsárum Helga. Myndlistamaðurinn Helgi Vilberg var alltaf öflugur í sinni listsköpun samhliða krefjandi störfum við rekstur og kennslu í Myndlistaskólanum á Akureyri. Fyrsta einkasýning Helga var í Hlíðarbæ 1975 og urðu í heildina alls sex - í Gallerí Háhól 1978, Slúnkaríki 1985, Gallerí Glugga 1987, Listasafninu á Akureyri 1994 og í Samlaginu - Listhúsi 2006. Að auki tók hann þátt í fjölmörgum samsýningum heima og erlendis á persónulegum listrænum ferli sínum. Helgi Vilberg var mikilvirkur í félagsstarfi samhliða listsköpun og skólarekstrinum. Hann sat í ýmsum stjórnum og nefndum á hálfrar aldar ferli sínum að loknu námi. Hann var gjaldkeri Gilfélagsins eftir uppbygginguna miklu 1991-1993, formaður byggingarnefndar Gilfélagsins á sama tíma, ráðgjafi nefndar Akureyrarbæjar um Listasmiðstöðina í Grófargili 1992-1994 og stýrði Menningarvef Akureyrar um nokkuð skeið á árunum í aldarlok þegar internetið varð meginafl í nýrri samfélagsmótun um allan heim. Helgi var stofnfélagi í Rótarýklúbbi Eyjafjarðar í febrúar 1991 - félagi í klúbbnum í rúma tvo áratugi og forseti klúbbsins tvívegis, ár í senn eins og venjan er hjá Rótarý. Helgi Vilberg var öflugur í félagsstarfi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri um langt skeið og sat í nefndum og ráðum fyrir hans hönd. Helgi var fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í menningarmálanefnd Akureyrar í tæpan áratug og sat á þeim tíma einnig í stjórnum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Minjasafnsins á Akureyri. Helgi var öflugur í listrænni vinnu og undirbúningi fyrir flokkinn í kosningasigri hans í bæjarstjórnarkosningunum 1998 og varð í kjölfarið fyrst ritari og síðar varaformaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar. Helgi var formaður Sjálfstæðisfélagsins á árunum 2000-2003 og ritari fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri 2001-2005. Helgi hafði mikinn áhuga á því að efla útbreiðslu og virkni í félagsstarfi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri meðan hann var formaður Sjálfstæðisfélagsins. Stjórnin ákvað að opna vefrit í aldarbyrjun og ákveðið að það yrði nefnt Íslendingur til heiðurs blaðinu sem stofnað hafði verið 1915 og gefið hafði verið út síðar meir sem málgagn Íhaldsflokksins og Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Vefritið var opnað af Halldóri Blöndal, forseta Alþingis og oddvita Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, við hátíðlega athöfn á afmæli gamla Íslendings 9. apríl 2001. Helgi ritstýrði Íslendingi fyrstu sex árin, allt til ársins 2007, setti upp vefinn sjálfur og hannaði útlit hans af miklum myndarskap. Um leið setti hann upp og hannaði blaðaútgáfu flokksins til fjáröflunar og í kosningastarfi á þeim árum. Mikill metnaður og mikil framsýni einkenndi þá ákvörðun að opna vefinn vorið 2001. Íslendingur.is var fyrsti flokksvefurinn á netinu hér á Akureyri og var vel uppfærður og sinnt af mikilli elju, meðan aðrir slíkir vefir hér í bænum voru aðeins vakandi í miðri kosningabaráttu. Íslendingur undir forystu Helga varð strax frá upphafi ein öflugasta vefsíða sjálfstæðismanna á landinu - þar voru í senn nýjustu fréttirnar úr flokksstarfinu, pistlar og greinar flokksmanna og allt sem máli skipti fyrir okkur sem styðjum flokkinn. Mikil gæfa var fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri að fá Helga Vilberg til að stýra vefnum í upphafi. Hann var faðir vefritsins, hafði mikinn áhuga og metnað fyrir tæknihlið vefsins og þeirri umgjörð að hafa hann líflegan, ferskan og ábyrgan miðil upplýsinga og skoðana. Stjórn Sjálfstæðisfélags Akureyrar, með Helga sem formann, ýtti þessu verkefni úr vör af miklum krafti og framsýni, eins og fyrr segir. Það ber að þakka þeim sem þá skipuðu stjórn félagsins fyrir að opna vefinn af svo miklum metnað á þeim tímapunkti. Helgi hætti að mestu virku félagsstarfi fyrir flokkinn eftir að hann hætti ritstjórn Íslendings og stofnaði í félagi við áhugamenn um stjórnmál bæjarmálahópinn Pollinn þar sem fólk úr öllum flokkum kom saman til funda í Myndlistaskólanum til að ræða þjóðmál á breiðum grunni, jafnt innanlands sem utan. Í aðdraganda kosninganna 2010 varð vík milli vina þegar Helgi fór úr flokknum og fylkti liði með Sigurði Guðmundssyni og stuðningsmönnum hans við stofnun Bæjarlistans. Sigurður náði kjöri í bæjarstjórn Akureyrar. Helgi var framarlega í flokki við mótun framboðsins, hannaði kynningarefni og lagði drjúga hönd á plóg í stefnumótun þess. Helgi sat í stjórn Akureyrarstofu kjörtímabilið 2010-2014 og í menningartengdum ráðum samhliða því. Þegar Bæjarlistinn vék af velli vorið 2014 hætti Helgi að mestu pólitísku starfi sínu og helgaði sig alfarið starfi Myndlistaskólans þau ár sem eftir voru uns hann hætti skólastjórn vegna veikinda vorið 2022. Helgi hlaut heiðursviðurkenningu Akureyrarbæjar fyrir listrænt ævistarf sitt á Vorkomu á sumardeginum fyrsta 2021, verðskuldaður heiður fyrir öflugt starf sitt á breiðum grunni í bæjarlífinu. Helgi unni Akureyri mjög og bar hag bæjarins ávallt fyrir brjósti í öllum sínum störfum og hafði mikinn metnað fyrir því að hróður hans væri sem mestur - hann brann fyrir uppbyggingu myndlistar á Akureyri. Soffía, eiginkona Helga, tók við skólastjórn Myndlistaskólans 2022 og stýrir honum í félagi við börn sín og samstarfsfólk. Minning Helga mun lifa. ---- Sjálfstæðismenn á Akureyri minnast Helga með hlýhug og virðingu fyrir ævistarf hans í listum og almennt í bæjarlífinu, en umfram allt það sem hann lagði að mörkum í flokksstarfi okkar um langt árabil með verkum sínum, einkum við að stofna vefritið Íslending sem hefur verið eitt af hryggjarstykkjum Sjálfstæðisflokksins á Akureyri á þeim aldarfjórðungi sem liðið hefur síðan stjórn Sjálfstæðisfélagsins undir forystu Helga hóf útgáfu vefritsins. Hann var öflugur á mörgum sviðum í nútímavæðingu flokksins þar sem Netið var nýtt til að efla flokkinn inn á við og út á við. Fyrir það þökkum við á kveðjustundu. Fyrir mig persónulega hef ég Helga mikið að þakka. Ég hef komið að starfi vefritsins nær frá upphafi, skrifað þar greinar og tók síðar meir við keflinu sem ritstjóri árið 2010 á krefjandi tímum fyrir flokkinn. Það var mikill skóli að læra af Helga og vera honum til halds og trausts þegar á þurfti að halda í starfi vefritsins í ritstjóratíð hans. Það var mikill heiður að vera við hlið hans á þeim tíma. Ég þakka honum vináttu og hlýhug alla tíð. Við færum Soffíu, eiginkonu Helga og fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Helga. Stefán Friðrik Stefánsson ritstjóri Íslendings, vefrits sjálfstæðisfélaganna á Akureyri

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, heldur fótboltamót á Þórsvellinum og verður í kjölfarið með partýbingó á Vamos föstudaginn 8. ágúst nk. Fótboltamótið hefst kl. 18:00. Fríar pylsur og drykkir á meðan birgðir endast. Vinningar í boði! Nauðsynlegt er að skrá sig í skráningarskjali ásamt því að greiða þátttökugjaldið, 3.500 kr. á mann. Nánari upplýsingar eru í skráningarskjalinu. Fótboltamótið á facebook Partýbingó Varðar verður svo haldið á Vamos á föstudagskvöldið kl. 22:00. Partýstjórar verða Tony og Svens en þeir hafa skapað sér gott nafn fyrir austan með partýbingóunum sínum en þeir sáu t.d. um partýbingó fyrir SUS á síðasta landsfundi. Verð: 1 spjald á 1.500 kr. 2 spjöld á 2.500 kr. Partýbingóið á facebook Hlökkum til að sjá ykkur! Stjórn Varðar, f.u.s. á Akureyri

Árið 1944 voru Evrópa og Asía rústir einar eftir heimsstyrjöld sem þó var ekki lokið. Á þeim tímapunkti ákvað 145 þúsund manna fátæk þjóð að lýsa yfir sjálfstæði frá Dönum. Ári seinna var kjarnorkusprengjum varpað á tvær borgir í Japan. Áratugina á eftir, undir forystu stjórnmálamanna sem höfðu framtíðarsýn fyrir hagsmunum Íslands, tókum við slaginn við eina af stórþjóðum Evrópu um stækkun landhelginnar, sem lauk með fullnaðarsigri Íslands fyrir um hálfri öld. Við getum verið þakklát fyrir að hafa átt stjórnmálamenn sem settu hagsmuni Íslands í fyrsta sæti. Við erum stofnaðilar að NATO og í 74 ár höfum við verið með varnarsamning við stærsta og öflugasta herveldi mannkynssögunnar. Engin önnur varnarbandalög eða samningar geta komið í staðinn fyrir það samkomulag. Í rúma þrjá áratugi höfum við tryggt viðskiptalega hagsmuni Íslendinga með EES-samningnum, án þess þó að gefa eftir fullveldi eða sjálfstæði þjóðarinnar. Staða Íslands gagnvart alþjóðasamfélaginu er góð. Því er það hálf ankannalegt, þegar litið er á söguna, að hlusta á forystufólk ríkisstjórnarinnar tala um að nú séu uppi fordæmalausir tímar og á þeim forsendum eigi að fara í frekara varnarsamstarf við Evrópusambandið með það endamarkmið að ganga í sambandið. Evrópa glímir við risavaxin vandamál heima fyrir. Aflvél álfunnar, Þýskaland, er í efnahagslegri niðursveiflu sem sér ekki fyrir endann á. Frakkland er skuldum vafið og Ítalía er búin að vera í efnahagskrísu í langan tíma. Atvinnuleysi ungs fólks er viðvarandi vandamál í Evrópusambandinu og er í kringum 15% að meðaltali, en er í sumum löndum sambandsins 25-30%. Draghi-skýrslan sem kom út síðastliðið ár dregur upp dökka mynd af stöðu Evrópusambandsins. Yfirhlaðið regluverk og skriffinnska hafa orðið til þess að atvinnulífið og nýsköpun í sambandinu hafa orðið undir í alþjóðlegri samkeppni. Frumkvöðlar og nýsköpunarfyrirtæki leita út fyrir Evrópu til að byggja upp ný fyrirtæki á sviði gervigreindar og í öðrum hugverkaiðnaði vegna þunglamalegs regluverks og skattaumhverfis. Þetta eru bara nokkrar af þeim áskorunum sem blasa við Evrópusambandinu og á þá eftir að nefna stöðu innflytjenda og stríðsrekstur. Á þessum forsendum þarf að ræða hvort Íslendingar vilji halda áfram aðlögunarviðræðum við Evrópusambandið, því það er ekkert sem heitir að „kíkja í pakkann“. Þetta er áframhald að aðlögun, ekki aðildarviðræður. Það er ábyrgðarhluti að stjórnmálamenn hræði ekki þjóð sína til að afsala sér fullveldi þjóðarinnar, sem við sóttum með áræði og framtíðarsýn, vegna þess að það eru „fordæmalausir tímar“. Við sem trúum, að hagsmunum þjóðarinnar sé betur borgið utan sambandsins hræðumst ekki umræðuna um hvað sé best fyrir Ísland. Jens Garðar Helgason varaformaður Sjálfstæðisflokksins og oddviti í Norðausturkjördæmi

Evrópusambandið stendur nú frammi fyrir ákvörðun sem gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt atvinnulíf. Ákvörðun sem er í beinni andstöðu við skuldbindingar samkvæmt EES samningnum. Slík framganga sýnir svart á hvítu að aðildarviðræður við Evrópusambandið eru hvorki tímabærar né skynsamlegar við núverandi aðstæður. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefur gagnrýnt þessi áform. Hún hefur sagt skýrt að fyrirhugaðir tollar Evrópusambandsins brjóti gegn EES samningnum. Það er mikilvægt og rétt viðbragð. En það eitt og sér dugir ekki. Forsætisráðherra hefur enn ekki tjáð sig um fyrirhugaðar verndaraðgerðir Evrópusambandsins sem beinast gegn löndum utan tollabandalagsins, þar á meðal Íslandi og Noregi. Það vekur óneitanlega spurningar af hverju ríkisstjórnin lætur þetta mál viðgangast án þess að forsætisráðherra, æðsti trúnaðarmaður þjóðarinnar, tali skýrt fyrir Íslands hönd. Ég skora því á Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra að leggjast á árarnar með þjóðinni. Við þurfum að tala skýrt og benda á með óumdeildum hætti að svona koma vinaþjóðir einfaldlega ekki fram hver við aðra. Ég hef oft bent á, og ítreka það hér, að samkeppnishæft atvinnulíf er forsenda velferðar á Íslandi. Það eru hagsmunir almennings. Þess vegna ber okkur að standa vörð um þau störf og þau fyrirtæki sem tryggja verðmætasköpun og stöðugleika í samfélaginu. Í því samhengi skiptir engu hvort þrýstingurinn birtist í formi innlendra skattahækkana eða erlendra tollaálagna. Niðurstaðan er sú sama: veikara atvinnulíf og verri kjör fyrir fólkið í landinu. Sama hvaða afstöðu fólk hefur til aðildar að Evrópusambandinu, þá ættum við öll að geta verið sammála um það grundvallaratriði að hagsmunir Íslands eigi alltaf að vera í forgangi, sérstaklega í málum sem snerta sjálfstæði okkar og lífskjör. Ég tel tímabært að stjórnarandstaða og stjórnarmeirihluti sameinist um að verja þessa mikilvægu hagsmuni Íslands. Við verðum að tala með einni röddu, óháð flokkslínum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt lagt áherslu á sjálfstæða hagsmunagæslu Íslands og það hlutverk er brýnt nú sem aldrei fyrr. Það er sameiginleg skylda okkar allra. Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins