Velkomin

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri

Fréttir og greinar


Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 2. desember 2025
Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna á Akureyri samþykkti á fundi sínum í kvöld tillögu stjórnar um að röðun fari fram við val á fjórum efstu sætum framboðslista við sveitarstjórnarkosningar vorið 2026. Að lokinni röðun mun kjörnefnd leggja fram tillögu að fullskipuðum framboðslista. Tillagan var samþykkt með auknum meirihluta, tveimur þriðju atkvæða, í samræmi við reglur Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúaráðið samþykkti að auki tillögu um að tvöfalt fulltrúaráð, aðal- og varamenn, komi saman við valið og það fari fram eigi síðar en laugardaginn 7. febrúar nk. Kjörnefnd tekur ákvörðun um dagsetningu röðunar innan þess tímaramma. Á fundinum var kjörnefnd til að sjá um ferlið fram að afgreiðslu framboðslista kjörin. Í henni eiga sæti níu fulltrúar - fjórir frá fulltrúaráði og einn frá hverju sjálfstæðisfélagi. Fulltrúaráð Aðalmenn: Heiðrún Ósk Ólafsdóttir, Jósavin Arason, Karl Guðmundsson, María H. Marinósdóttir Varamenn: Atli Þór Ragnarsson, Jóhann Gunnar Kristjánsson Málfundafélagið Sleipnir Aðalmaður: Stefán Friðrik Stefánsson – Varamaður: Harpa Halldórsdóttir Sjálfstæðisfélag Akureyrar Aðalmaður: Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson – Varamaður: Daníel Sigurður Eðvaldsson Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri Aðalmaður: Hafþór Hermannsson – Varamaður: Gunnlaugur Geir Gestsson Vörn, félag sjálfstæðiskvenna á Akureyri Aðalmaður: Gerður Ringsted – Varamaður: Aðalheiður Steina Guðmundsdóttir Sjálfstæðisfélag Hríseyjar Aðalmaður: Valdemar Karl Kristinsson – Varamaður: Kristinn Frímann Árnason
29. nóvember 2025
Bæjarmálafundur Sjálfstæðisflokksins á Akureyri verður haldinn í Geislagötu 5 mánudaginn 1. desember kl. 17:30. Farið yfir breytingar á fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2026-2029 (seinni umræða fer nú fram í bæjarstjórn) og áherslur í fræðslu- og lýðheilsuráði á kjörtímabilinu. Fundarstjóri: Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri Allir velkomnir - heitt á könnunni.
26. nóvember 2025
Öflugt millilandaflug til Akureyrar er ekki gæluverkefni heldur drifkraftur sem skapar tækifæri og beinan efnahagslegan, samfélagslegan og umhverfislegan ávinning fyrir landið allt. Flug sem skapar verðmæti Ef Ísland ætlar að byggja upp fjölbreyttara, sjálfbærara og sterkara efnahagslíf, þarf landið að nýta alla sína styrkleika. Norðurland sem atvinnusvæði hefur verið í sókn. Millilandaflug um Akureyri er eitt þeirra verkefna sem getur stutt við hana, umbreytt ferðamennsku, atvinnulífi og byggð í senn – og styrkt stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Það er hlutverk sem þjónar ekki aðeins Norðurlandi – heldur Íslandi öllu. Nýleg skýrsla Rannsóknamiðstöðvar ferðamála sýnir að beint millilandaflug til Akureyrar stuðlar nú þegar að betri dreifingu ferðamanna um landið og styrkir ferðaþjónustu utan suðvesturhornsins. Þetta staðfestir reynslan af vetrarflugi easyJet 2023–2024, en ferðafólk sem nýtti sér þá flugið eyddi um 1,2 milljörðum króna á svæðinu – á rólegasta tíma ársins. Áhrifin ná líka langt út fyrir ferðaþjónustuna. Flugið skapaði tugi milljóna í skatttekjur til sveitarfélaga og ríkissjóðs og stuðlaði að auknum stöðugleika í atvinnulífi á Norðurlandi. Akureyri tengir Ísland betur við umheiminn Góðar tengingar við umheiminn eru auk þess forsenda að svæði séu samkeppnishæf um uppbyggingu og mannauð. Beinar flugtengingar laða að erlenda fjárfestingu, ný störf og hátækniverkefni – ekki síst þar sem þörf er á erlendum sérfræðingum og greiðu aðgengi að alþjóðamörkuðum. Millilandaflugið er því ekki aðeins mikilvægt fyrir ferðaþjónustu á öllu norðanverðu landinu, heldur sömuleiðis fyrir orkuiðnað, sjávarútveg, nýsköpun og menntun svo nokkuð sé nefnt. Með öflugum tengingum eykst bæði byggðafesta og möguleikar atvinnulífsins að norðan – og um leið styrkist íslenskt efnahagslíf í heild. Ég ætla því að leyfa mér að fullyrða að með eflingu millilandaflugs um Akureyrarflugvöll eykst samkeppnishæfni Íslands í heild. Tími til að hugsa stórt Haustþing Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), sem haldið var í október síðastliðnum, hvatti í ályktun sinni stjórnvöld til að efla flugþróunarsjóð, styrkja innviði Akureyrarflugvallar og setja á fót sérstaka stjórn fyrir flugvöllinn. Slík stjórn gæti mótað framtíðarstefnu, tryggt samkeppnishæfni, samhæft uppbyggingu og haft leiðandi hlutverk í markaðssetningu flugsins í samstarfi við Markaðsstofu Norðurlands og Íslandsstofu. Tryggt millilandaflug er ekki kostnaður heldur fjárfesting í uppbyggingu, samkeppnishæfni og fleiri tækifærum. Til þess þarf fyrirsjáanleika og sameiginlegan vilja. Það er kominn tími til að líta á Akureyri sem það sem hún í raun er – aðra gátt inn í landið. Lára Halldóra Eiríksdóttir formaður stjórnar SSNE og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri
Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 25. nóvember 2025
Björg Ásta Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að láta af störfum en hún hyggur á framboð í komandi sveitarstjórnarkosningum í heimabæ sínum, Sveitarfélaginu Vogum. „Undanfarnar vikur hef ég fengið mikla hvatningu til að bjóða mig fram í heimabæ mínum, Vogum, bæ sem ég brenn fyrir. Ég sé þar fjölmörg tækifæri til að efla þjónustu, treysta innviði og halda áfram að byggja upp sterkt og fjölskylduvænt samfélag,“ segir Björg Ásta og heldur áfram: Björg Ásta Þórðardóttir fráfarandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. „Til að geta undirbúið þá vegferð í góðu samtali við mitt fólk og mína sveitunga, tel ég ástæðu til að stíga til hliðar sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins” Hún þakkar flokksmönnum öllum fyrir ánægjulegt samstarf og segist hlakka til að bjóða fram krafta sína fyrir flokkinn á vettvangi sveitarstjórnarstigsins. „Það hefur verið mér mikill heiður að starfa sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins með öflugum hópi sjálfstæðismanna um allt land Ég hef fulla trú á forystunni og því mikilvæga starfi sem framundan er. Þá vil ég óska nýjum framkvæmdastjóra flokksins alls hins besta og velfarnaðar í störfum.” Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir Björgu Ástu hafa lagt sterkt og sýnilegt mark á starf flokksins. „Björg Ásta hefur unnið afar mikilvægt starf fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún hefur lagt mikið af mörkum við að efla innra starf flokksins, stutt við kjörna fulltrúa, lagt grunn að kosningabaráttunni framundan og tekið á málum af yfirvegun. Ég er þakklát fyrir hennar framlag og gleðst yfir því að hún ætli nú að beita reynslunni heima í Vogum. Sjálfstæðisflokkurinn stendur og fellur með sterku fólki í sveitastjórnum um allt land. Ég veit að hún mun láta mikið til sín taka á þeim vettvangi og óska henni velfarnaðar í nýjum verkefnum,” segir Guðrún Hafsteinsdóttir. Í hennar stað mun Tryggvi Másson taka við starfi framkvæmdastjóra. Tryggvi, sem er viðskiptafræðingur og atferlishagfræðingur að mennt, er flestum hnútum kunnugur innan Sjálfstæðisflokksins og hefur tekið virkan þátt í starfi flokksins um langt árabil. Tryggvi gegndi stöðu framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokksins árin 2022-2024. Hann hefur undanfarið starfað við ráðgjöf í fiskeldi en þar áður starfaði hann við viðskiptaþróun hjá Klíníkinni. „Ég er fullur tilhlökkunar að taka við starfi framkvæmdastjóra flokksins og þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt. Í gegnum fyrra starf sem framkvæmdastjóri þingflokks þekki ég vel til flokksstarfsins og þess frábæra fólks sem starfar innan flokksins. Framundan eru sveitarstjórnarkosningar og ég er spenntur að leggja mitt af mörkum í samstarfi við grasrótina um land allt við undirbúning þeirra,“ segir Tryggvi Másson, nýr framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.
Sýna meira
Fleiri fréttir