Grillveisla á Vitanum
Velkomin
Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri
Fréttir og greinar

Það er dimmt yfir Alþingi á römmu pólitísku hásumri. Beitt er kjarnorkuákvæði til að ljúka þinglegri umræðu um skattahækkunarfrumvarp á byggðir landsins, stoðir samfélagsins, með augljósum vondum afleiðingum. Leikritið í þinginu í gær var augljós fyrirboði þess að samningaleiðin um þinglok var ekki lengur fyrir hendi, leitað leiða til að réttlæta yfirvofandi gjörning. Stóra málið er nefnilega að Kristrún Frostadóttir er fyrsti forsætisráðherrann í tæpa sjö áratugi sem springur á limminu í einhverju dramakasti - mistekst að ná sáttum við þinglok á Alþingi. Undir fögru yfirbragði blundar nefnilega dramb og algjör skortur á leiðtogahæfileikum. Skömm Kristrúnar er mikil, hún vinnur ekki á við frekari völd og hefur ekki lyndiseinkenni til að vera farsæll leiðtogi. Katrín Jakobsdóttir var vakin og sofin yfir farsæld þingsins og lagði oft mikið af mörkum til að ná samningum við stjórnarandstöðuna og tryggja góðan þingbrag með forystu sinni. Hún stóð í stormi mikilla átaka og erfiðra mála, en náði engu að síður að vera farsæll samningamaður við ríkisstjórnarborðið þegar stór mál voru í miklum þingstormi. Kristrún hefði getað tekið Katrínu sér til fyrirmyndar í vinnubrögðum en fer í hina áttina, ræður ekki við hlutverk sitt og fer í fýlukast eins og smástelpan í afmælinu sem fékk ekki nógu stóra tertusneið. Þarna er skapað vont fordæmi sem á eftir að koma í hausinn á valkyrjunum þremur sem leiða þessu aumu ríkisstjórn. Þarna er inngrip í þingræðið sem mun ekki líta vel út í sögubókum framtíðar. Geislavirkt fordæmi og vondur fyrirboði um samstarfið í þinginu á þessu kjörtímabili. Stefán Friðrik Stefánsson ritstjóri Íslendings og varaformaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins

Í dag braut ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur blað í lýðveldissögunni, og því miður ekki til góðs. Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur kollvarpa rótgrónum siðum og hefðum Alþingis, ekki vegna neyðar eða þjóðaröryggis, heldur vegna skattahækkana. Kjarnorkuákvæðið, eins og það er kallað, er ekki nefnt svo að ástæðulausu. Það er neyðarúrræði og hefur einungis tvisvar verið beitt í lýðveldissögunni: Árið 1949 við inngöngu Íslands í NATO og árið 1959 til að afstýra því að öll starfsemi hins opinbera stöðvaðist. Aldrei síðan. Ekki í einu einasta máli sem hefur komið til kasta Alþingis. Ekki í Icesave. Ekki í Orkupakka þrjú. Ekki í EES-samningnum. Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur ákvað í dag að beita þessu ákvæði til að troða á þingræðishefð Íslendinga og þvinga í gegn umdeildu frumvarpi um hækkun veiðigjalda. Þannig hefur Kristrún Frostadóttir markað sín spor í þingsöguna og sett fordæmi fyrir ríkisstjórnir framtíðarinnar um að taka lýðræðið úr sambandi með beitingu kjarnorkuákvæðisins. Ekki vegna þjóðarvár. Ekki vegna neyðarástands. Heldur vegna skattahækkunar. Það er okkur sjálfstæðismönnum þvert um geð. Sögulegur smánarblettur á ríkisstjórninni - hvað næst? Kristrún áttar sig kannski ekki á því í dag, en þessi dagur verður skrifaður í sögubækurnar sem smánarblettur ríkisstjórnar hennar. Hún er fyrsti forsætisráðherrann í 66 ár sem mistekst að miðla málum á Alþingi. Það er og verður hennar arfleifð, á sínu fyrsta þingi sem forsætisráðherra. Henni kann að þykja þægilegt að þagga niður í andstæðingum sínum í dag. En þeir sem ryðja burt leikreglunum þurfa að vera tilbúnir að spila leikinn án þeirra sjálfir. Með fordæminu sem Kristrún setti í dag fær hún ef til vill að bragða á eigin meðali fyrr en síðar. Forsætisráðherra mun koma til með að sjá eftir þessum degi. Ef ríkisstjórn Kristrúnar er tilbúin að beita þessu ákvæði til þess að hækka skatta, hvernig mun hún þá beita ákvæðinu næst? Sjálfstæðisflokkurinn leggst gegn öllum skattahækkunum Við sjálfstæðismenn höfum séð á fyrstu mánuðum þessarar ríkisstjórnar að hún megi ekki heyra á skatta minnst án þess að vilja hækka þá. Á næstu misserum ætlar ríkisstjórnin að hækka skatta á 80 þúsund Íslendinga með því að þvinga sveitarfélög til þess að hafa útsvarið í botni. Til stendur að ráðast á fjölskyldur með því að afnema samsköttun hjóna. Þá á að hækka skatta á ferðaþjónustuna og allan almenning með upptöku kílómetragjalds. Og ekki nóg með það, þá á að skattleggja sjálft heita vatnið hjá íbúum höfuðborgarsvæðisins. Vitleysan virðist ekki eiga sér nein takmörk, en við þekkjum hvernig vinstri stjórnir fortíðarinnar umgangast skattfé almennings og Kristrún telur Jóhönnustjórnina greinilega vera gott fordæmi um hvernig stýra eigi landinu. Jóhönnu auðnaðist þó að ljúka þingi með samningum ólíkt núverandi forsætisráðherra. Áhrif skattastefnunnar munu koma fram. Á fjögurra ára kjörtímabili verður enginn óhultur. Allir munu komast að í röðinni. Og á meðan ríkisstjórnin gerir ráð fyrir nýjum skatttekjum án þess að taka á útgjaldavandanum, þá blasir svarið við: Ríkisstjórnin mun sækja peningana í vasa skattgreiðenda með einum eða öðrum hætti, og ef marka má daginn í dag, án umræðu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur að undanförnu verið sakaður um sérhagsmunagæslu. Hvað slíka orðræðu varðar hef ég aðeins eitt að segja: Sjálfstæðisflokkurinn mun berjast gegn öllum skattahækkunum, sem leggjast munu á ykkur, fólkið í landinu, af sömu hörku.. Grunngildi gegn gerræði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði í gær að þetta mál væri „orrustan um Ísland“. En orrustan um Ísland hefst ekki fyrr en á næsta ári, þegar ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur ætlar að þröngva okkur inn í Evrópusambandið. Það er hægt að snúa þessari vegferð við. Því þó að ríkisstjórnin hafi kosið að beita valdi í stað umræðu, hroka í stað samráðs, þá munum við sjálfstæðismenn standa með fólkinu í landinu. Með lýðræðinu. Með fullveldinu. Með skynseminni. Nú reynir á okkur sjálfstæðismenn að standa saman og sækja fram með grunngildin að vopni gegn forræðishyggjustjórn Kristrúnar – fyrir lýðræðið, fyrir atvinnulífið, fyrir lífsgæði almennings. Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðisflokkurinn stendur staðfastur í veiðigjaldamálinu vegna einskis annars en okkar sannfæringar. Ég er ekki í pólitík til að segja fólki bara það sem það vill heyra. Ég er ekki í pólitík til að bogna undan árásum andstæðinga okkar. Ég er í pólitík til að standa vörð um grundvallaratriði. Ég er hér til að standa með því sem er rétt. Með fólkinu sem byggir þetta land upp með vinnu sinni. Það er stundum látið í veðri vaka að við séum að verja fámennan hóp. En það er einfaldlega rangt. Við stöndum með fólkinu sem mætir til vinnu á hverjum degi. Með þeim sem halda atvinnulífinu gangandi. Með byggðunum um allt land þar sem fólk hefur byggt sér líf og framtíð. Við höfum boðið málamiðlanir. Vegna þess að við trúum á samtal og lausnir sem byggja á fagmennsku og traustum forsendum. Ríkisstjórnin hefur kosið að hlusta ekki á varnaðarorð þeirra sem þekkja málið best. Ábyrgðin á stöðunni sem nú er uppi liggur ekki hjá okkur. Hún liggur hjá þeim sem kjósa að loka eyrunum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei elt vinsældir. Við látum ekki stjórnast af popúlískum vindum. Við höfum þá bjargföstu trú að öflugt atvinnulíf sé grunnstoð þeirrar velferðar sem við höfum byggt upp á Íslandi. Og það er skylda okkar að standa vörð um það. Sagan mun sýna hverjir raunverulega stóðu með almenningi í þessu landi. Hverjir það voru sem stóðu vörð um störf, fjölbreytt atvinnulíf, nýsköpun og verðmætasköpun. Þar mun Sjálfstæðisflokkurinn standa réttu megin við línuna. Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins

Alþingi hefur nú til meðferðar frumvarp um hækkun veiðigjalda. Fyrir liggur að áhrif frumvarpsins munu leggjast mjög misþungt á ólíka landshluta. Sé litið til Norðausturkjördæmis aukast byrðarnar hvergi meira. Fram kemur í samantekt KPMG, sem unnin var fyrir Samtök sjávarútvegssveitarfélaga, að álögð veiðigjöld í Norðausturkjördæmi hækki um 3,2 milljarða króna að teknu tilliti til staðsetningar starfseminnar. Athygli vekur að hækkunin leggst að langmestu á tvö kjördæmi, Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi, eða um 75% af hækkuninni. 41 prósent í Norðausturkjördæmi Verði hið nýja frumvarp um hækkun veiðigjalda samþykkt mun sjávarútvegur í Norðausturkjördæmi þurfa að standa undir tæplega helmingi allrar gjaldtöku ríkisins. Um leið og ríkisstjórnin boðar skattheimtuna kveður hún upp úr með að „þjóðin styðji hærri veiðigjöld“. Það er engin furða þegar stærstur hluti þjóðarinnar býr innan verndarveggja höfuðborgarsvæðisins, þar sem skattbyrðin er sárasmá og niðurstaðan því fyrirfram augljós. Til samanburðar mun aukning á skattheimtu á höfuðborgarsvæðinu og Suðvesturlandi nema einungis um 0,5 milljörðum. Erfitt er að neita því að hér sé um landsbyggðarskatt að ræða. Ef krafan er aukin skattheimta – hvar er jafnræðið? Við getum deilt um hvort ríkið eigi að hækka auðlindagjöld, en ef stefnan er fólgin í aukinni skattheimtu hlýtur sama regla að gilda um allar atvinnugreinar sem nýta sameiginlegar auðlindir. Ef markmiðið er að samfélagið njóti arðs af sameiginlegum auðlindum, verður skattkerfið að gæta að jafnræði milli auðlinda, milli landshluta og milli atvinnugreina. Metfjárfestingar í sjávarútvegi – og margföld veiðigjöld Á árunum 2020-2023 fjárfestu sjávarútvegsfyrirtæki í Norðausturkjördæmi fyrir um 75 milljarða króna, nær 90 prósent af uppsöfnuðum hagnaði sama tímabils. Arðgreiðsluhlutfallið lá á bilinu 10-25 prósent, en greidd veiðigjöld voru margföld á við arðinn. Ef frumvarpið nær fram að ganga hækkar þessi gjaldbyrði enn og dregur fjármagn frá verðmætasköpun sem byggðarlögin treysta á. … en önnur auðlindanýting sleppur Á sama fjögurra ára tímabili hagnaðist Orkuveita Reykjavíkur um 32,5 milljarða króna og greiddi eigendum sínum 16,5 milljarða í arð – rúman helming hagnaðarins. Engin auðlindagjöld féllu þó á fyrirtækið. Okkur er ekki í mun að kasta rýrð á Orkuveituna, heldur benda á ósamræmið: Ef fyrirtæki í sjávarútvegi eiga að greiða hærri gjöld fyrir nýtingu auðlinda, hvers vegna gildir þá ekki sama hugsun um önnur fyrirtæki sem njóta góðs af sameiginlegum náttúruauðlindum þjóðarinnar? Landsbyggðarskattur á sterum Sjávarútvegur er víða burðarás atvinnulífs landsbyggðanna. Þegar ríkið leggur megnið af nýjum gjöldum á þessa einu atvinnugrein – á meðan aðrir auðlindanýtendur eru undanskildir – hlýtur niðurstaðan að vera skýlaus mismunun gegn landsbyggðinni. Þessi skattbyrði bitnar á fjárfestingu, atvinnutækifærum og lífskjörum fólks sem býr, starfar og leggur sitt af mörkum utan höfuðborgarsvæðisins. Kall til Alþingis Við hvetjum Alþingi til að staldra við. Ef vilji er til aukinnar skattheimtu, sem við vörum við, þarf byrðin að dreifast sanngjarnara. Jafnræði milli atvinnugreina og landshluta er forsenda þess að auðlindagjöld verði bæði réttlát og sjálfbær. Landsbyggðin getur ekki verið tekjulindin ein og sér. Heimir Örn Árnason formaður bæjarráðs Akureyrarbæjar Ragnar Sigurðsson formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar og formaður sveitarstjórnarráðs Sjálfstæðisflokksins