Velkomin

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri

Fréttir og greinar


24. apríl 2025
Með stolti birtum við fyrstu grein á islendingur.is, nýrri glæsilegri heimasíðu Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Frá því að Sjálfstæðisflokkurinn tók við meirihluta í bæjarstjórn, í góðu samstarfi við L – listann og Miðflokkinn, hefur áherslan verið skýr: traust fjármálastjórn, öflug uppbygging innviða og fjölbreytt þjónusta sem mætir raunverulegum þörfum íbúa. Niðurstaðan er einnig skýr: skuldastaða sveitarfélagsins hefur batnað, fjárfestingar hafa aukist og fjölbreytt verkefni á sviði íþrótta, menningar, velferðamála og félagslífs eru í fullum gangi. Í þessari grein drögum við fram það helsta sem áunnist hefur á kjörtímabilinu og það sem fram undan er. Við trúum því að Akureyrarbær verði áfram fyrirmyndarsamfélag á landsvísu og muni áfram þjóna öllu kjördæminu með sterkum innviðum og frábærri þjónustu. Með sameiginlegu átaki, traustum grunni og framsýnum ákvörðunum höldum við áfram að efla samfélagið okkar. Við verðum að byrja á því að nefna að ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2024 var kynntur í byrjun apríl en hann sýndi afar góða niðurstöðu í rekstri sveitarfélagsins. Rekstrarniðurstaðan var jákvæð um rúma tvo milljarða króna, sem er umtalsvert betri niðurstaða en gert hafði verið ráð fyrir í fjárhagsáætlun, sem gerði ráð fyrir afgangi upp á tæplega hálfan milljarð. A- hlutinn er jákvæður um 830 milljónir og aðalsjóður jákvæður um 87 milljónir sem er besta niðurstaða í áratug. Skuldaviðmið samstæðunnar voru í árslok 2024 75% en var 80% árið áður og skuldaviðmið í A – hluta var 54% í árslok en var 56% árið áður. Einnig ber að nefna að veltufé frá rekstri allar samstæðunnar var í árslok 2024, 5,7 milljarðar og hefur aukist um 1,2 milljarð frá árinu 2022 sem endurspeglar sterka fjárhagsstöðu Akureyrarbæjar og vel heppnaða fjármálastjórn á árinu 2024. Á þessum þremur árum höfum við lagt ríka áherslu á gott samtal við félag eldri borgara á Akureyri og öldungaráð Akureyrarbæjar. En fjöldi eldri borgara eykst jafnt og þétt og lífsgæði þeirra sem eru að eldast líka. Í upphafi kjörtímabilsins var settur af stað vinnuhópur varðandi Lífsgæðakjarna er þeir eru heiti yfir húsnæði sem er einkum hugsað fyrir eldra fólk þar sem áhersla er á fjölbreytt búsetuform, m.a. hjúkrunarheimili. Áhersla er lögð á fjölbreytta þjónustu í bland við íbúðarhúsnæði fyrir aðra aldurshópa. Markmiðið er að tryggja áhugavert og aðlaðandi umhverfi, samveru og öryggi um leið og komið er til móts við ólíkar þarfir. Við teljum það vera forgangsverkefni að lífsgæðakjarni fyrir eldri borgara verði að veruleika. En nú nýlega skrifaði bærinn undir samning um hjúkrunarheimili í Þursaholti sem er fyrsta skrefið að lífsgæðakjarna. Í fræðslu- og lýðheilsuráði hefur margt áunnist á kjörtímabilinu. Þar ber helst að nefna vel heppnaðar gjaldskrárbreytingar í leikskólum, lýðheilsukort, hreyfikort, símafrí í grunnskólum og sífellt endurskoðaða menntastefnu Akureyrarbæjar. Margt fleira væri hægt að nefna en mikilvægasta er að Akureyri verði áfram mikill íþrótta-, útivista og menntabær sem við öll getum verið stolt af. Skipulagsmál eru alltaf mikið til umræðu í öllum sveitarfélögum enda mikilvægt að vandað sé til verka í öllu skipulagi og uppbyggingu. Móa- og holtahverfið er á góðu róli og munu fljótlega vera boðnar út 150 íbúðir í Móahverfinu. Tjaldsvæðisreiturinn verður vonandi boðinn út í vor en gæti mögulega frestast fram á haust en þar er um að ræða afar spennandi byggingarreitur. Akureyrarbær leggur ríka áherslu á að sinna velferðarmálum vel. Í byrjun marsmánaðar var til að mynda tekinn í notkun nýr íbúðakjarni fyrir fatlað fólk í Hafnarstræti 16. Þar munu búa sex einstaklingar, þar af fimm sem hefja sjálfstæða búsetu í fyrsta sinn. Þar er lögð áhersla á að nýta velferðartækni íbúum og starfsfólki til öryggis og gagns. Fólki með fjölþættan vanda hefur fjölgað í bænum undanfarin misseri. Ákveðið hefur verið að deiliskipuleggja nokkur svæði sem henta undir smáhýsi til að mæta húsnæðisþörfum þessa hóps og hefja sem fyrst uppbyggingu á einu þeirra. Nú er einungis eitt ár eftir af kjörtímabilinu og tíminn er svo sannarlega fljótur að líða. Það er afar mikilægt að við bæjarfulltrúar höfum hag bæjarbúa að leiðarljósi í öllum okkar störfum. Við munum halda áfram að eiga samtal við bæjarbúa um hvað betur megi fara í okkar fallega bæ og munum áfram gera okkar allra besta til að vinna fyrir ykkur þessa síðustu 13 mánuði kjörtímabilsins. Með bestu óskum um gleðilegt sumar Heimir Örn Árnason formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri Lára Halldóra Eiríksdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri
Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 24. apríl 2025
Sumarkoma boðar nýja og ferska tíma - hlýja og sólskin í sál og sinni. Við þau tímamót er afar viðeigandi að við kynnum nýja útgáfu vefritsins Íslendings. Vefurinn okkar hefur verið lykilþáttur í starfi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri frá því hann fór af stað á afmæli gamla Íslendings, 9. apríl 2001. Ellefu ár eru liðin síðan fyrra útlit vefsins var kynnt í aðdraganda bæjarstjórnarkosninganna í maí 2014 þegar við hófum að hýsa Íslending hjá Stefnu - löngu orðið tímabært að stokka upp útlitið og fá betri tækniásýnd. Mikill metnaður og mikil framsýni einkenndi þá ákvörðun að opna vefinn vorið 2001. Íslendingur.is var fyrsti flokksvefurinn á netinu hér á Akureyri og var vel uppfærður og sinnt af mikilli elju, meðan aðrir slíkir vefir hér í bænum voru aðeins vakandi í miðri kosningabaráttu. Íslendingur varð strax frá upphafi ein öflugasta vefsíða sjálfstæðismanna á landinu - þar voru í senn nýjustu fréttirnar úr flokksstarfinu, pistlar og greinar flokksmanna og allt sem máli skipti fyrir okkur sem styðjum flokkinn. Mikil gæfa var fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri að fá Helga Vilberg til að stýra vefnum í upphafi. Hann var faðir vefritsins, hafði mikinn áhuga og metnað fyrir tæknihlið vefsins og þeirri umgjörð að hafa hann líflegan, ferskan og ábyrgan miðil upplýsinga og skoðana. Stjórn Sjálfstæðisfélags Akureyrar, með Helga sem formann, ýtti þessu verkefni úr vör af miklum krafti og framsýni, eins og fyrr segir. Það ber að þakka þeim sem þá skipuðu stjórn félagsins fyrir að opna vefinn af svo miklum metnað á þeim tímapunkti. Ég hef komið að starfi vefritsins Íslendings nær frá upphafi, skrifað samfellt pistla og fréttir þar frá árinu 2002 og aðstoðaði Helga Vilberg við fréttaskrif á lokaárum hans með vefinn, og naut þess að finna áhugann og kraftinn í öllu starfinu kringum vefinn. Ég hef alla tíð verið mikill áhugamaður um netið og skoðanaskipti þar, var öflugur í miðjum bloggstrauminum og virkur í þjóðlífsumræðu. Því hef ég metið þennan vef mikils og tel heiður að hafa fengið að taka þátt í þessu verkefni gegnum árin. Helgi Vilberg á mikið hrós og heiður skilið frá okkur fyrir að hafa stýrt þessum vef af svo miklum krafti. Hann lagði mikið af mörkum til að vefurinn myndi njóta sín sem traustur miðill upplýsinga og skoðana. Sú vinna var mikils virði. Þegar Helgi vék af velli vorið 2007 tók Jóna Jónsdóttir við ritstjórn í tæp þrjú ár og stýrði honum með myndugleik. Við Jóna vorum saman við stýrið með vefinn þegar Sjálfstæðisflokkurinn beið afhroð í bæjarstjórnarkosningum 2010 og það var áskorun að stýra honum einn í þeirri miklu og erfiðu uppbyggingu á flokknum sem við tók. Tíminn eftir ósigurinn var þó afar lærdómsríkur og mér mikið veganesti í flokksstarfinu við breyttar aðstæður. Ég hef nú stýrt vefritinu í fimmtán ár, allt frá vorinu 2010. Frá upphafi hef ég einsett mér að félagsmenn sjái á vefnum allt sem er að gerast, geti þar bæði kynnt sér viðburði, lesið skoðanir forystufólks okkar og sjái kraft í flokksstarfinu þar. Einnig vil ég endilega fá ábendingar um efnistök og efni til birtingar - heyra ykkar skoðanir varðandi flokksstarfið. Uppfærslur á Íslendingi hafa verið tíðar á þeim tíma sem ég hef ritstýrt honum og við höfum reynt að tryggja öfluga miðlun upplýsinga í flokksstarfinu. Það er mikilvægt að vefurinn sé ferskur og öflugur þó ekki séu alltaf kosningar í nánd, enda eigum við alltaf að vera öflug og sinna flokksstarfinu af metnaði og krafti. Ég trúi því og treysti að framtíð vefsins sé björt. Það er lykilatriði fyrir okkur sjálfstæðisfólk á Akureyri að rækta þennan miðil upplýsinga og skoðana. Ég vil stuðla að því og bæði trúi því og treysti að við séum öll sammála um það. Við getum öll verið stolt af nýja vefnum og horfum jákvæð til næstu verkefna. Rúmt ár er til bæjarstjórnarkosninga þar sem markmiðið er skýrt. Við ætlum að stækka flokkinn og efla, fá aukinn stuðning og kraft í bæjarstjórn til að byggja ofan á farsæl verk meirihlutans á þessu kjörtímabili. Saman gerum við flokkinn stærri og öflugri til að leiða bæinn okkar áfram af festu og öryggi. Til hamingju með daginn - gleðilegt sumar! Stefán Friðrik Stefánsson ritstjóri Íslendings, vefrits sjálfstæðisfélaganna á Akureyri
Eftir Stefán Friðrik Stefánsson 21. apríl 2025
Við höldum vöfflukaffi venju samkvæmt á sumardaginn fyrsta í Geislagötu 5, 2. hæð, kl. 15:00 til 17:00. Samhliða því opnum við nýja útgáfu vefritsins Íslendings. 9. apríl sl. voru 110 ár liðin frá því fyrsta tölublað Íslendings, sem síðar varð málgagn Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, kom út. Á 86 ára afmæli Íslendings, 9. apríl 2001, var opnað vefrit Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og var því að sjálfsögðu gefið heitið Íslendingur til heiðurs blaðinu. Halldór Blöndal opnaði vefritið í gleðskap í Kaupangi þann dag. Vefritið hefur síðan verið fréttamiðill flokksins hér á Akureyri og þar lögð áhersla á að auglýsa viðburði og birta greinaskrif eftir forystumenn hverju sinni. Nú fær islendingur.is nýtt útlit og ætlum við að fagna því í útgáfuhófinu. Þar verður nýja útlitið opinberað og boðið uppá veitingar að því tilefni. Á boðstólnum verða vöfflur eins og venja er á sumardaginn fyrsta og síðan munum við einnig bjóða uppá búbblur í tilefni af nýju útliti vefsíðunnar. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest og fagna sumarkomu og nýjum Íslending. Gleðilegt sumar!
19. apríl 2025
Pásk­arn­ir eru tími íhug­un­ar, von­ar og end­ur­nýj­un­ar – tími þegar við lít­um bæði inn á við og fram á við. End­ur­nýj­un þýðir ekki að við yf­ir­gef­um það sem hef­ur reynst okk­ur vel, held­ur að við vöx­um, aðlög­umst og styrkj­um það sem skipt­ir mestu máli. Í póli­tík þýðir það að byggja á traust­um grunni – frelsi ein­stak­lings­ins, ábyrgð í rík­is­fjár­mál­um, skyn­semi í laga­setn­ingu og trú á verðmæta­sköp­un – og sækja fram með skýrri sýn. Á Alþingi hef­ur Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn áfram talað skýrt og af ábyrgð um þau mál sem mestu skipta. Við höf­um varað við áhrif­um þeirra breyt­inga sem rík­is­stjórn­in hyggst gera á sam­skött­un. Breyt­ing­um sem fela í sér veru­leg­ar skatta­hækk­an­ir á fjöl­skyld­ur í land­inu, þvert á kosn­ingalof­orð rík­is­stjórn­ar­flokk­anna um annað. Þá hef­ur flokk­ur­inn beint sjón­um sín­um að fyr­ir­huguðum breyt­ing­um á veiðigjöld­um, þar sem hækk­un var lögð fram án mats á áhrif­um og án sam­ráðs við at­vinnu­lífið og sjáv­ar­byggðir í land­inu. Slík vinnu­brögð grafa und­an trausti og eru ekki til þess fall­in að skapa sátt um mála­flokk­inn. Í ljósi umræðunn­ar um mál­efni út­lend­inga und­an­farna daga er vert að minna á þann ár­ang­ur sem náðst hef­ur á síðustu miss­er­um. Með breyt­ing­um Sjálf­stæðis­flokks­ins á lög­um um út­lend­inga hef­ur verið dregið úr mis­notk­un og ósann­gjarnri byrði á kerfið – með því að fella niður sér­ís­lensk­ar málsmeðferðarregl­ur og færa fram­kvæmd­ina nær því sem tíðkast ann­ars staðar á Norður­lönd­um. Stór skref voru tek­in til að draga úr út­gjöld­um til mála­flokks­ins og aðstreymi um­sókna. Þetta voru ekki ein­fald­ar ákv­arðanir, en nauðsyn­leg­ar ef tryggja á burðugra og sann­gjarn­ara kerfi til lengri tíma. Á alþjóðavett­vangi rík­ir óvissa. Tolla­stríð, sveifl­ur á mörkuðum og alþjóðleg átök varpa skugga á þróun heimsviðskipta. Við sjá­um hvernig viðskipta­stefna er í aukn­um mæli notuð sem vopn. Þess vegna skipt­ir ut­an­rík­is­stefna Sjálf­stæðis­flokks­ins máli og þess vegna er lyk­il­atriði að Ísland haldi tryggð við opna alþjóðasam­vinnu og gildi frjálsra viðskipta. Viðskipti við um­heim­inn hafa verið for­senda þess að Ísland geti haldið uppi lífs­gæðum sín­um, skapað ný störf og tryggt sam­keppn­is­hæfni í sí­breyti­leg­um heimi. Það er á okk­ar ábyrgð að verja þann grund­völl. Að láta ekki hug­mynd­ir um sí­vax­andi rík­is­um­svif, þyngri álög­ur og óá­byrg­an mála­til­búnað grafa und­an því sem hef­ur komið Íslandi meðal ríkja í fremstu röð. Um þess­ar mund­ir eru blik­ur á lofti – en líka tæki­færi. Sjálf­stæðis­stefn­an býður upp á leið fram á við: í krafti fólks­ins, í krafti verðmæta­sköp­un­ar og í krafti traustra gilda. Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. apríl 2025.
Sýna meira
Fleiri fréttir

Sumardagurinn fyrsti

Hérna kemur stutt lýsing á viðburði