Bæjarmálafundur Sjálfstæðisflokksins á Akureyri verður haldinn í Geislagötu 5 mánudaginn 15. september kl. 17:30.
Velkomin
Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri
Fréttir og greinar

Húsfyllir var á fundi sjálfstæðismanna á Grand Hótel í Reykjavík á laugardag undir yfirskriftinni „Skýr stefna – Sterkara Ísland“. Á fundinum ræddi Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, leiðina í átt að sterkara Íslandi og fór yfir áherslur og verkefni flokksins á yfirstandandi vetri. Auk formanns ávörpuðu fundinn Jens Garðar Helgason, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fyrrverandi varaformaður og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Upptaka af fundinum Guðrún gerði efnahags- og skattamál að umfjöllunarefni. Benti hún á að ríkisstjórnin stundaði slagorðapólitík. Ná hefði átt niður verðbólgunni með „sleggju“ forsætisráðherra sem hafi ekki gengið eftir. Sagði hún að forsætisráðherra sem er hagfræðimenntuð viti vel að ákvörðun um vaxti sé tekin í peningastefnunefnd og að þeir séu ekki lækkaðir nema nefndin hafi sannfæringu fyrir því að verðbólga rjúki ekki upp í kjölfarið. En til þess þurfi ríkisfjármálin að vera í lagi. „Heiðarlegra hefði því verið af Kristrúnu að segja einfaldlega: „Við ætlum okkur að halda áfram góðri og traustri vinnu Bjarna Benediktssonar í fjármálaráðuneytinu við að ná tökum á ríkisfjármálunum - og um leið vonumst við til þess að peningastefnunefndin haldi áfram að lækka vexti, eins og hún var byrjuð að gera í tíð fyrri ríkisstjórnar“ En Samfylkingin lætur ekki sannleikann skemma gott slagorð... og hún bregst aldrei vondum málstað,“ sagði Guðrún. Þá minnti hún á að vaxtalækkunarferlið hafi hafist í tíð fyrri ríkisstjórnar og að bjartsýni hafi ríkt í samfélaginu um að sú þróun héldi áfram. „Svo tók ríkisstjórn Kristrúnar við og hefur tekist á örskömmum tíma að stöðva vaxtalækkunarferlið!,“ sagði Guðrún. Ræddi guðrún atvinnulífið og sagði miður að sífellt fleiri fréttir bærust úr atvinnulífinu af uppsögnum, aflabresti og samdrætti. Á sama tíma vinni ríkisstjórnin að því að hækka skatta. Vill lengja tímann fyrir fólk til að ráðstafa séreignasparnaði til húsnæðiskaupa Þá minntist Guðrún á húsnæðismálin og nýlega kynntan húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar. Hann hafi verið kynntur með borgarstjórann til fulltingis á blaðamannafundi. Þar hafi verið lofað uppbyggingu 4.000 íbúða á reit sem skipulagður er fyrir 2.500 íbúðir. „Sú staðreynd var svo hunsuð, að skipulagsvinna er á byrjunarreit og allt eins líklegt að 3-4 ár séu í að bygging íbúða geti hafist. Hér er allt á sömu bókina lært. Mér er til efs að hægt sé að klúðra málum meira í Ráðhúsinu, jafnvel þó svo að borgarstjórnarmeirihlutinn leggi sig allan fram um það,“ sagði hún. Hún sagði húsnæðistillögurnar þó ekki alvondar. „Tillaga okkar Sjálfstæðismanna um notkun séreignasparnaðar til húsnæðiskaupa gekk eftir. Tillaga sem vinstri stjórnin var reyndar búin að afskrifa fyrir nokkrum mánuðum og fann henni þá allt til foráttu. Við munum leggja til breytingar á þessu úrræði í þá veru að lengja tímann sem fólk má ráðstafa sparnaði sínum,“ sagði hún Sjálfstæðisflokkurinn vill fjölbreytt úrræði fyrir almenning Þá minnti Guðrún á að þegar Sjálfstæðisflokkurinn hélt síðast um stjórnartaumana í Reykjavík hafi verið nægt framboð af lóðum. „Svo færðust völdin til R-listans og síðar Samfylkingarinnar og meðreiðarsveina þeirra á fimm eða sex-klofnum vinstri vængnum í borginni. Var þá skrúfað fyrir lóðaframboð og fasteignaverð rauk upp,“ sagði Guðrún. Sagði hún lausnina blasa við: „Fyrsta skrefið að lausn húsnæðisvandans er að stórauka lóðaframboð og draga þannig úr byggingakostnaði.“ Guðrún sagði Sjálfstæðisflokkinn vilja fjölbreytt úrræði fyrir almenning. Það þurfi að vera nægt framboð af fasteignum á markaðnum sem henti fólki á öllum æviskeiðum. Viljum koma í veg fyrir að Ísland endurtaki mistök nágrannaríkja Útlendingamálin voru rædd í ræðu formanns og sagðist hún stolt af árangri sjálfstæðismanna í dómsmálaráðuneytinu í útlendingamálum. Guðrún sagði umræðuna undanfarið í útlendingamálum hafa verið á villigötum þar sem ólíkum hugtökum sé hrært saman í einn graut. „En stefna Sjálfstæðisflokksins er hins vegar alveg skýr: Þeir sem koma til Íslands, sækja hér vinnu og leggja sitt af mörkum eru hjartanlega velkomnir. Íslenskt atvinnulíf þarf enda sárlega á erlendu vinnuafli að halda,“ sagði hún. Hún sagði þó eðlilegt að sett væru mörk. „Það er eðlilegt og réttlætanlegt að smátt og samheldið samfélag eins og okkar geri kröfur um að þeir sem flytjast hingað, aðlagi sig að okkar menningu, og virði þau gildi sem sú menning byggir á. Við eigum okkar eigin menningu, okkar eigin tungu – og við verðum að varðveita bæði,“ sagði Guðrún. Þá sagði hún: „Hér og annars staðar í Evrópu er hópur fólks sem er hingað kominn eingöngu til þess að þiggja, og sýna engan áhuga á því að leggjast á árarnar með okkur hinum. Þessi hópur er hingað kominn gagngert til þess að misnota gestrisni Íslendinga og níðist þannig á bæði velvild okkar og velferðarkerfi. Skilaboð okkar til þessa hóps eru skýr: Ef þú misnotar kerfið og fylgir ekki lögum og reglum, þá ertu ekki velkominn.“ Minnti Guðrún á að í tíð Sjálfstæðisflokksins í dómsmálaráðuneytinu hafi tekist að fækka hælisumsóknum um 70%. Sagði hún verkefninu ekki lokið. Enn sæki margfalt fleiri um hæli hér á landi en var fyrir fáeinum árum. Það þurfi að leysa þau mál sem fyrir eru og að ljóst sé að Ísland geti ekki tekið á móti þeim fjölga sem hingað sækir um um hæli. Skólakerfið skilar ekki viðunandi árangri Guðrún sagði íslenska skólakerfið eitt það dýrasta í heimi – en sú staða sé þó uppi að lestrarkunnáttu og lesskilningi hraki á sama tíma. „Staðan er sú að eftir tíu ára nám í einu dýrasta menntakerfi heims getur fjórðungur barna ekki lesið sér til gagns. Um helmingur stráka nær ekki grunnhæfni í lesskilningi í PISA-könnunum. Helmingur!,“ sagði Guðrún. Sagði Guðrún menntakerfið vera grunninn undir öllu samfélaginu – ómenntuð þjóð dæmi sig úr leik á öllum sviðum. Ríkisstjórnin skili þó auðu í þessum efnum og engar heildstæðar áætlanir hafi komið fram um hvernig bregðast eigi við. Kjarninn í skólastarfi sé að kenna börnum að lesa, skrifa og reikna. Takist það þokkalega til þá fari allt annað vel. Sagði hún þetta einfalda verkefni hafa vafist fyrir okkur í áraraðir og nefndi sem dæmi að skólayfirvöld í Reykjavík standi ráðþrota gagnvart þessu neyðarástandi. „Eina sem kemur frá þeim eru langir leiðbeiningabæklingar um hvernig halda skuli barnaafmæli. Og jú … Nú má ekki gefa krökkum einkunnir sem þau skilja. Nú fá börnin litakóðaða bókstafi sem enginn veit hvað þýða og engin hefð er fyrir hér á landi,“ sagði Guðrún. Þá velti hún því upp hvaða vandamál hafi átt að leysa með þessu og sagði kennara ekki hafa beðið um þessa breytingu, foreldra ekki hafa beðið um þessa breytingu og nemendur heldur ekki hafa beðið um þessa breytingu. Hún sagði lausnina sem víðar að finna í grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins. „Við þurfum að viðurkenna að ríkislausnin, ein ríkis-námsskrá, ein ríkis-námsgagnastofnun og ein ríkis-kennslustofa er ekki börnunum fyrir bestu. „One size fits all“ passar ekki öllum. Afnám samræmdra prófa var tilraun sem mistókst hrapalega. Við eigum að taka þau upp aftur og án tafar. Sömuleiðis þurfum við ekki að óttast fjölbreytni og vera ófeimin við að tala fyrir fjölbreyttari rekstrarformum menntastofnana en bara ríkismódelinu,“ sagði Guðrún Erfið en rétt ákvörðun að selja Valhöll Guðrún sagði að það hafi verið erfið ákvörðun að setja Valhöll á sölu. En að eftir mikla yfirlegu sé hún sannfærð um að það hafi verið rétt niðurstaða. „Þær kynslóðir sjálfstæðismanna sem starfað hafa í Valhöll vita að Valhöll er ekkert venjulegt hús. Valhöll var reist með blóði, svita og ómetanlegu vinnuframlagi Sjálfstæðismanna. Þeir fjármögnuðu bygginguna, teiknuðu hana og reistu fyrir okkur sem fylgdum í fótsporin. Ég heiti því að sem virðingarvott við þá sem unnu þetta óeigingjarna starf, að hver einasta króna sem fæst fyrir Valhöll mun fara í að tryggja Sjálfstæðisflokknum þak yfir höfuðið um ókomna tíð. Í um hálfa öld hefur Valhöll verið táknmynd samstöðu og samtakamáttar Sjálfstæðismanna. Í mínum huga er húsið minnisvarði um það hvers við erum megnug þegar við stöndum saman,“ sagði Guðrún. Viljum við búa í samfélagi sem hampar djörfum hugmyndum? Guðrún minntist á árangur af stefnu Sjálfstæðisflokksins í gegnum tíðina og nefndi ýmis stórafrek, s.s. byggingu Landspítala, Þjóðleikhúsið, hringveginn, togarasmíði, hafnargerð og ýmislegt fleira sem tókst með samtakamætti og skýrri forystu á síðustu öld. Hún ræddi einnig hugvit og frumkvöðlakraft og nefndi sem dæmi þegar Erlendur Gunnarsson bóndi á Sturlu-Reykjum hafi fyrstur manna leitt heitt vatn í hús sitt árið 1908 og þá byltingu sem það hratt af stað. Þá hafi að vísu ekki verið neinar neinar eftirlitsstofnanir og skriffinskubákn sem í dag tefji fyrir að fólk með djarfar hugmyndir nái árangri. Ræddi hún þá hugmynd að fá lífeyrissjóðina í lið með þjóðinni við að klára innviðaskuldina á næstu 25 árum með því að fjárfesta í samgöngumannvirkjum. Með því getum við lagt grunn að efnahagslegum framförum á Íslandi næstu 100 árin rétt eins og stórhuga framkvæmdir á síðustu öld lögðu grunn að þeim árangri sem náðst hefur síðustu áratugina í íslensku samfélagi. Þá spurði hún hvort fólk vilji búa í samfélagi sem hampi djörfum hugmyndum? „Ef þið kjósið slíkt samfélag, þá eruð þið um leið að játast sjálfstæðishugsjóninni. Hún er enda eina stjórnmálastefnan sem tryggir jarðveg sem breytir hugmyndum í framkvæmd, framkvæmdum í hagsæld og hagsæld í velferð fyrir okkur öll,“ sagði hún og bætti við: „Hér áður fyrr kölluðum við þá sem leyfðu sér að dreyma stóra drauma frumkvöðla. Draumar þeirra hrundu af stað byltingum fyrir okkur hin. Í dag eru draumar of oft afgreiddir sem draumórar og kraftur frumkvöðla er kæfður í reglugerðasúpu, leyfiskröfum, stöðlum, jafnlaunavottunum, sjálfbærniskýrslum og jafnvel pólitískri meinfýsn þeirra sem þola ekki að sjá einkaframtakinu vegna vel.“ Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur hugmyndanna Sagði Guðrún að tími hugmynda væri runninn upp og að hann þoli enga bið. Það sem við gátum einu sinni gert getum við gert aftur – vilji sé allt sem þurfi. „Ef viljinn er fyrir hendi eru okkur allir vegir færir. Það er okkar að móta framtíðina og munum það, kæru vinur, að framtíðarhagsæld er best tryggð með sjálfstæðisstefnunni. Bindumst því sameiginlega markmiði að vinna henni brautargengi. Þá eru okkur sem samfélagi allir vegir færir,“ sagði Guðrún. Hún sagði Sjálfstæðisflokk framtíðarinnar vera flokk Erlends á Sturlu-Reykjum. Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur hugmyndanna og um leið eini íslenski stjórnmálaflokkurinn sem gerir frumkvöðla úr fólki sem þorir að hugsa út fyrir rammann, þorir að hugsa stórt. „Ég er klár í stefni … en þetta get ég ekki ein! Ég þarf ykkur með mér í ferðalagið sem stendur fyrir dyrum og ég vil biðja ykkur um að vera mér samferða á vegferðinni að gera íslensk samfélag enn betra. Sjálfstæðisstefnan er okkur til halds og trausts og við skulum ganga veginn stolt. Stolt af okkar afrekum, stolt af okkar stefnu – en fyrst og síðast… stolt af því að tilheyra Sjálfstæðisflokknum!,“ sagði Guðrún.

Í dag, 1. nóvember, eru liðin tvö ár síðan byrjað var að rukka varaflugvallagjald á nýjan leik. Gamla varaflugvallagjaldið var lagt af í maí 2011 og hafði það slæmar afleiðingar á flugvallakerfi landsins. Niðurlagning þess var mikið óheillaskref og varúðarorð þeirra sem best þekktu til voru að engu höfð. Tekjustofn til nýframkvæmda og viðhalds á flugvöllum landsins hrundi á sama tíma og millilandaflug til og frá Íslandi margfaldaðist. Alþjóðaflugvallakerfið Á Íslandi eru fjórir alþjóðaflugvellir. Keflavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur, Egilsstaðaflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur. Þessir fjórir flugvellir mynda alþjóðaflugvallakerfi landsins og gegna allir mikilvægu hlutverki innan þess. Hér er rétt að hafa í huga að leiðin er löng frá Íslandi til annarra alþjóðaflugvalla við N-Atlantshafið. Keflavíkurflugvöllur er rekinn af Isavia ohf og allar nýframkvæmdir, viðhald og rekstur þess flugvallar er fjármagnaður í gegnum efnahagsreikning félagsins. Flugvallakerfi landsins fyrir utan Keflavíkurflugvöll er rekið í gegnum þjónustusamning sem íslenska ríkið hefur gert við Isavia Innanlandsflugvelli ehf. sem er dótturfyrirtæki Isavia ohf. Í þeim samningi hefur á undanförnum árum einungis verið gert ráð fyrir 350-500 milljónum í nýframkvæmdir og viðhald við flugvallakerfið allt, að Keflavíkurflugvelli undanskildum. Nýtt varaflugvallagjald Eftir að gamla varaflugvallagjaldið var lagt af fyrir að verða 15 árum varð til mikil innviðaskuld í kerfinu, flugbrautir og fasteignir á flugvöllunum byrjuðu að grotna niður. Markmið nýs varaflugvallagjalds var að bæta úr þessari slæmu stöðu. Greinarhöfundur stýrði á sínum tíma vinnu hóps sem skilaði skýrslu hvernig best væri að standa að málum til þess að styrkja fjármögnum alþjóðaflugvallakerfis landsins fyrir utan Keflavíkurflugvöll. Nýtt varaflugvallagjald skyldi fjármagna nýframkvæmdir á Akureyrarflugvelli, Egilsstaðaflugvelli og Reykjavíkurflugvelli þannig að vellirnir gætu betur sinnt skyldum sínum sem alþjóðaflugvellir og því mikilvæga hlutverki að vera varaflugvellir í millilandafluginu fyrir hvern annan. Hér er rétt að benda á að það varaflugvallagjald sem nú er rukkað er margfalt lægra en gamla varaflugvallagjaldið á hvern flugfarþega. Miðað við gefnar forsendur má reikna með að varaflugvallagjaldið skili um 1,5 milljörðum króna á ári. Það fór að sjá til sólar fyrir tveimur árum þegar nýja varaflugvallagjaldið var tekið upp. Því er það geysilega mikilvægt að innviðaráðherra haldi því til haga í nýrri samgönguáætlun sem er boðuð á næstu vikum að nýja varaflugvallagjaldið renni áram til alþjóðaflugvallanna þriggja á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík og þá einnig að það fjármagn til nýframkvæmda og viðhalds í innanlandsflugvallakerfinu og til lendingarstaða haldi sér í gegnum þjónustusamninginn. Egilsstaðaflugvöllur Í þingræðum og fyrri greinum um málaflokkinn hef ég lengi bent á að næsta framkvæmd sem eðlilegt er að fjármagna með varaflugvallagjaldinu er að hefja framkvæmdir við fyrsta áfangann við gerð akstursbrautar við norðurenda flugbrautarinnar á Egilsstaðarflugvelli sem er mikilvægt flugöryggismál. Svokallaða „lúppu“ þar sem hægt væri að koma fyrir 4-6 farþegaþotum í neyð. Framkvæmdakostnaður við slíka framkvæmd er áætlaður 3 til 3,5 milljarðar. Hér er um algjört forgangsmál að ræða og mikilvægt að þessi framkvæmd sé í forgangi í framkvæmdarhluta nýrrar samgönguáætlunar. Flugöryggismál Þegar frumvarpið um varaflugvallagjald var lagt fram fyrri hluta árs 2023 var lagt til að sérstakt gjald skyldi innheimt til að standa straum af kostnaði við uppbyggingu varaflugvalla. Þá kemur fram í greinargerð frumvarpsins að nauðsynlegt sé með tilliti til flugöryggis að starfræktir séu fleiri flugvellir sem hafa burði til að taka á móti nokkrum fjölda loftfara þegar ekki er hægt að lenda í Keflavík. Varaflugvallagjaldið snýst fyrst og fremst um að tryggja flugöryggi. Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

Bæjarmálafundur Sjálfstæðisflokksins á Akureyri verður haldinn í Geislagötu 5 mánudaginn 3. nóvember kl. 17:30. Farið yfir helstu áherslur í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2026-2029, og stöðuna almennt í bæjarmálum. Fundarstjóri: Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri Allir velkomnir - heitt á könnunni.

Ríkisstjórnin hitti naglann á höfuðið þegar hún tilkynnti þegnum þessa lands að nú með haustskrúða náttúrunnar hæfist nýtt skeið í lýðveldissögunni; verðmætasköpunarhaust. Fyrirtæki og almenningur settu sig í stellingar, viðbúin uppskerunni. Þrátt fyrir fögur fyrirheit er ríkisstjórnin líkt og dæmigert haustveður á Íslandi. Svona í stuttu máli: Lægð með roki, rigningu, frosti; snjór og svell svo að hvergi sér í gras eða gróður. Ríkisstjórninni til varnar þá eru sumir hlutir sem hún sjálf ræður ekki við. Samdráttur í álframleiðslu hér á landi er ekki henni að kenna. Útlit fyrir loðnuleysi brýnir aðra í röð sömu leiðis. Ástandið á Grundartanga, lokun eins af þremur ofnum Elkem eða lokun PCC á Bakka er ekki hægt að skrifa á hana heldur. Sama má segja með gjaldþrot Play sem varð til þess að beint og óbeint misstu 600 manns vinnuna. En samtals mun ofangreint minnka útflutningstekjur um a.m.k. 100–130 milljarða á næsta ári. Getur ríkisstjórnin þá ekkert gert? Jú, svo sannarlega. Hækkun vörugjalda á bifreiðar upp á 7,5 milljarða, kílómetragjald upp á 3,5 milljarða, innviðagjöld á skemmtiferðaskip, boðaður skattur á ferðaþjónustuna, tollfrelsi minnkað á barnafatnaði, streymisveitnaskattur sem heitir „menningarframlag“ hjá ríkisstjórninni, veiðigjald sem hefur orðið til þess að á annað hundrað manns hafa misst vinnuna og þjónustufyrirtæki tengd sjávarútvegi hafa hætt starfsemi, lokað fyrir samsköttun hjóna, skrúfað fyrir að fólk geti nýtt séreignarsparnað í húsnæðiskaup, ný búvörulög sem munu hækka verð til neytenda, hækkun skatta á áfengi, prósentuhækkanir á öll gjöld umfram verðbólgumarkmið, tenging örorkubóta við launavísitölu og svona mætti lengi telja. Þvert á móti. Skatta- og gjaldasýki þyngja róður þeirra svo um munar. Það er í besta falli broslegt að á sama tíma og allt þetta dynur á fólkinu í landinu að boðað sé „heildstæð atvinnustefna“. Eina atvinnustefna ríkisstjórnarinnar í dag ætti að vera að draga til baka boðaðar hækkanir skatta og gjalda á atvinnulíf og almenning. Draga verulega úr ríkisútgjöldum og nýta svigrúmið til frekari skattalækkana. Þannig, og bara þannig, styður ríkisstjórnin við heimilin og fyrirtækin í landinu. Jens Garðar Helgason varaformaður Sjálfstæðisflokksins