Í tilefni Bæjarþingsins ætlar Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri að bjóða uppá hitting með varaformanni Sjálfstæðisflokksins Jens Garðari Helgasyni.
Velkomin
Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri
Fréttir og greinar

Þórhallur Jónsson, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri hefur ákveðið að gefa kost á sér í oddvitasætið í röðun 7. febrúar og gerir athugasemdir við ferlið í yfirlýsingu sinni. Áður hafði Berglind Ósk Guðmundsdóttir gefið kost á sér í oddvitasætið. Þórhallur hafði áður tilkynnt framboð í 2. - 3. sæti í yfirlýsingu 10. janúar sl. Yfirlýsing Þórhalls er eftirfarandi: " Þórhallur Jónsson, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri gefur kost á sér til að leiða lista Sjálfstæðisflokks fyrir bæjarstjórnarkosningar í maí n.k. Heimir Árnason, núverandi oddviti ætlar ekki lengur að gefa kost á sér til að leiða listann, en ákveðið hafði verið að fara í röðunarfyrirkomulag þegar útlit var fyrir að hann væri einn í kjöri til oddvita. Þetta var meginforsenda þess að ekki var farið í prófkjör á Akureyri. Eftir að formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, sagði af sér formennsku fulltrúaráðs til að gefa kost á sér til að leiða listann og myndaði bandalag við Heimi, fráfarandi oddvita, um að hann tæki annað sætið á lista og eftirléti sér oddvitasætið, án nokkurs samtals við fulltrúaráð né stjórnir Sjálfstæðisfélaganna á Akureyri, sé ég mig knúinn til að gefa kost á mér til að leiða lista flokksins í komandi kosningum. Aðgengi fráfarandi formanns fulltrúaráðs að kjörskrá umfram aðra frambjóðendur, setur trúverðugleika röðunarfyrirkomulags og kosningar þar um í uppnám. Með framboði mínu skora ég einnig á flokkinn að halda stefnu sinni og hefðum, fara í prófkjör og leyfa sjálfstæðisfólki á Akureyri að velja sér oddvita með lýðræðið í fyrirrúmi.”

Aðalfundur Sjálfstæðisfélags Akureyrar verður haldinn þriðjudaginn 10. febrúar næstkomandi kl. 20:00. Fundurinn verður haldinn í húsnæði flokksins Geislagötu 5, 2. hæð, gengið inn að norðan. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf: 1. Skýrsla stjórnar. 2. Reikningsskil (Stjórn Sjálfstæðisfélags Akureyrar hefur falið fulltrúaráði Sjálfstæðisfélaganna á Akureyri umsjón með reikningum félagsins sem heimild er fyrir skv. 13. grein laga Sjálfstæðisfélags Akureyrar) 3. Ákvörðun árgjalds. 4. Lagabreytingar. 5. Kosning formanns og stjórnar skv. 8. gr. 6. Kosning fulltrúa í fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna á Akureyri. 7. Kosning fulltrúa í kjördæmisráð Norðausturkjördæmis. 8. Önnur mál. Framboðum til stjórnar og tillögum að lagabreytingum skal skila til formanns Sjálfstæðisfélags Akureyrar í gegnum netfangið jonthorkristjans@gmail.com

Auglýst eftir framboðum á lista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri mun halda röðunarfund laugardaginn. 7. febrúar. Kosið verður um efstu fjögur sæti á framboðslista fyrir bæjarstjórnarkosningar, en síðan raðað í næstu sæti. Allir sem kjörnir hafa verið í fulltrúaráð Sjálfstæðisflokkins á Akureyri, bæði aðal- og varamenn, hafa kosningarétt á fundinum. Kjörnefnd biður þá sem hafa áhuga á að setjast á lista flokksins að hafa samband. Fyllsta trúnaðar verður gætt. Vinsamlegast hafið samband við formann kjörnefndar, Þorvald Lúðvík Sigurjónsson, thorvaldur.ludvik@gmail.com , fyrir 6. febrúar. Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri

Þorsteinn Kristjánsson hefur tilkynnt um framboð sitt í 3. sæti í röðun sem fram fer á fundi fulltrúaráðs 7. febrúar nk. þar sem kosið verður um fjögur efstu sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í sveitarstjórnarkosningum í vor. Tilkynning Þorsteins er eftirfarandi: "Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Á Akureyri eru ótal tækifæri til að gera frábæran bæ enn betri. Sjálfstæðisflokkurinn hefur á kjörtímabilinu náð markverðum árangri í að bæta lífsgæði bæjarbúa. Þar vil ég sérstaklega nefna leikskólamálin þar sem tekist hefur að þjóna barnafjölskyldum betur en áður og gefa ungu fólki betri tækifæri til að snúa aftur heim til Akureyrar og setjast hér að. Stoðir menntunar og menningar eru traustar á Akureyri og við höfum einnig byggt upp frábæra aðstöðu til tómstunda og íþróttaiðkunar. Það skortir þó vissulega ekki verkefnin til að vinna að. Sterkt og öflugt atvinnulíf er forsenda þess að hægt sé að bjóða upp á fjölbreytta og góða þjónustu við íbúana, um leið og tryggt er að álögur á íbúa og fyrirtæki séu í lágmarki. Það er ein frumskylda kjörinna fulltrúa að hlúa að atvinnulífi bæjarins; styðja við þróttmikið og fjölbreytt atvinnulíf, ryðja hindrunum úr vegi lítilla og meðalstórra fyrirtækja og stuðla að vexti nýsköpunar- og sprotafyrirtækja. Þannig leggjum við grunn að enn öflugra samfélagi með tækifærum fyrir alla, þar sem listir, menning og menntun blómstra. Í stjórnmálum er nauðsynlegt að lofta út annað slagið. Tryggja jarðveg fyrir nýjar hugmyndir og ný vinnubrögð. Það verður best gert með því að treysta ungu fólki fyrir vandasömum verkefnum og móta framtíð samfélagsins með beinum hætti. Rödd þess þarf að heyrast, ekki bara í lokuðum hópum heldur einmitt þar sem ákvarðanir eru teknar um framtíð okkar og fjölskyldna okkar. Ég er stoltur af bænum okkar og er reiðubúinn að axla þá ábyrgð að vinna að framfaramálum og móta framtíðina í þágu allra bæjarbúa."

