Í tilefni Bæjarþingsins ætlar Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri að bjóða uppá hitting með varaformanni Sjálfstæðisflokksins Jens Garðari Helgasyni.
Velkomin
Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri
Fréttir og greinar

Auglýst eftir framboðum á lista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri mun halda röðunarfund laugardaginn. 7. febrúar. Kosið verður um efstu fjögur sæti á framboðslista fyrir bæjarstjórnarkosningar, en síðan raðað í næstu sæti. Allir sem kjörnir hafa verið í fulltrúaráð Sjálfstæðisflokkins á Akureyri, bæði aðal- og varamenn, hafa kosningarétt á fundinum. Kjörnefnd biður þá sem hafa áhuga á að setjast á lista flokksins að hafa samband. Fyllsta trúnaðar verður gætt. Vinsamlegast hafið samband við formann kjörnefndar, Þorvald Lúðvík Sigurjónsson, thorvaldur.ludvik@gmail.com , fyrir 6. febrúar. Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri

Þorsteinn Kristjánsson hefur tilkynnt um framboð sitt í 3. sæti í röðun sem fram fer á fundi fulltrúaráðs 7. febrúar nk. þar sem kosið verður um fjögur efstu sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í sveitarstjórnarkosningum í vor. Tilkynning Þorsteins er eftirfarandi: "Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Á Akureyri eru ótal tækifæri til að gera frábæran bæ enn betri. Sjálfstæðisflokkurinn hefur á kjörtímabilinu náð markverðum árangri í að bæta lífsgæði bæjarbúa. Þar vil ég sérstaklega nefna leikskólamálin þar sem tekist hefur að þjóna barnafjölskyldum betur en áður og gefa ungu fólki betri tækifæri til að snúa aftur heim til Akureyrar og setjast hér að. Stoðir menntunar og menningar eru traustar á Akureyri og við höfum einnig byggt upp frábæra aðstöðu til tómstunda og íþróttaiðkunar. Það skortir þó vissulega ekki verkefnin til að vinna að. Sterkt og öflugt atvinnulíf er forsenda þess að hægt sé að bjóða upp á fjölbreytta og góða þjónustu við íbúana, um leið og tryggt er að álögur á íbúa og fyrirtæki séu í lágmarki. Það er ein frumskylda kjörinna fulltrúa að hlúa að atvinnulífi bæjarins; styðja við þróttmikið og fjölbreytt atvinnulíf, ryðja hindrunum úr vegi lítilla og meðalstórra fyrirtækja og stuðla að vexti nýsköpunar- og sprotafyrirtækja. Þannig leggjum við grunn að enn öflugra samfélagi með tækifærum fyrir alla, þar sem listir, menning og menntun blómstra. Í stjórnmálum er nauðsynlegt að lofta út annað slagið. Tryggja jarðveg fyrir nýjar hugmyndir og ný vinnubrögð. Það verður best gert með því að treysta ungu fólki fyrir vandasömum verkefnum og móta framtíð samfélagsins með beinum hætti. Rödd þess þarf að heyrast, ekki bara í lokuðum hópum heldur einmitt þar sem ákvarðanir eru teknar um framtíð okkar og fjölskyldna okkar. Ég er stoltur af bænum okkar og er reiðubúinn að axla þá ábyrgð að vinna að framfaramálum og móta framtíðina í þágu allra bæjarbúa."

Lára Halldóra Eiríksdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, tilkynnti í færslu á facebook-síðu sinni í dag að hún gefi ekki kost á sér til endurkjörs í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Lára Halldóra hefur verið bæjarfulltrúi frá kosningunum 2022 og setið í velferðarráði Akureyrarbæjar frá 2018 (varaformaður frá 2022). Lára er formaður SSNE. Áður var hún varabæjarfulltrúi 2018-2022 auk þess að vera varamaður í bæjarráði 2018-2019. Tilkynning Láru Halldóru er eftirfarandi: "Kæru vinir og félagar! Það var mér ekki léttvægt að taka ákvörðun um að gefa ekki kost á mér á lista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Þá ákvörðun tók ég af persónulegum ástæðum þar sem ég stefni að búferlaflutningum á höfuðborgarsvæðið þar sem flest allt mitt besta fólk er. Í því ljósi þykja mér þessar fréttir af samstöðu og samvinnu þeirra Berglindar Óskar og Heimis Arnar alveg hreint frábærar, ekki einungis fyrir okkur Sjálfstæðismenn á Akureyri heldur einnig sveitarfélagið allt. Ég hef lagt mig alla fram á síðustu fjórum árum sem bæjarfulltrúi og hef haft mikla ánægju af því að starfa fyrir ekki einungis Akureyrarbæ heldur einnig fyrir landshlutann allan sem formaður stjórnar SSNE. Það hafa verið fjölmörg verkefni sem mér hefur þótt sérstaklega ánægjulegt að vera þátttakandi í á kjörtímabilinu. Má þar til að mynda nefna vinnu við nýja Sóknaráætlun Norðurlands eystra, stofnun Fjölskylduheimilis á Akureyri, símalausa grunnskóla ásamt breytingum á gjaldskrá leikskóla. Það hafa verið forréttindi að starfa með öllu því öfluga fólki sem situr í stjórnum og ráðum bæjarins, ásamt að sjálfsögðu frábæru starfsfólki Akureyrarbæjar með Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra í fararbroddi. Ég styð Berglindi Ósk og Heimi Örn heilshugar og hvet þá Sjálfstæðismenn sem munu taka þátt í röðun á lista til þess að gera slíkt hið sama. Öllu máli skiptir að við verðum með öflugan og samheldinn lista sem er líklegur til þess að skila okkur góðri útkomu í kosningum og inn í meirihluta bæjarstjórnar."

Berglind Ósk Guðmundsdóttir og Heimir Örn Árnason hafa saman gefið út eftirfarandi yfirlýsingu: "Undanfarna mánuði hafa átt sér stað mikilvægar umræður innan Sjálfstæðisflokksins á Akureyri um framtíðina, næstu skref og hvernig best sé að mæta kjósendum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2026. Í þeim samtölum hefur eitt verið okkur sérstaklega hugleikið: að sterkasta leiðin fram á við byggist á samstöðu, gagnkvæmu trausti og öflugri liðsheild. Í þeim anda höfum við, Heimir Örn Árnason, oddviti Sjálfstæðisflokksins og formaður bæjarráðs og Berglind Ósk Guðmundsdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi alþingismaður, ákveðið að styðja hvort annað í aðdraganda röðunarfundar fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna á Akureyri. Heimir mun styðja framboð Berglindar til oddvitasætis og Berglind mun styðja Heimi í 2. sæti listans. Þessi ákvörðun er ekki tekin af léttúð heldur byggir á sameiginlegri sýn á það sem skiptir Akureyri mestu máli. Á síðasta kjörtímabili höfum við séð hversu mikilvægt það er að vinna saman að lausnum sem skila raunverulegum árangri fyrir bæjarbúa. Ábyrg fjármálastjórn, skýr forgangsröðun og lausnamiðuð nálgun hafa verið leiðarljós í störfum Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn. Við finnum sterkt að flokkurinn á áfram erindi við kjósendur, enda eru fjölmörg verkefni fram undan sem kalla á festu, þekkingu og framtíðarsýn. Við trúum bæði á gildi liðsheildar. Enginn einn einstaklingur er stærri en verkefnið eða flokkurinn sjálfur. Þvert á móti er það samspil fólks með ólíka reynslu, styrkleika og bakgrunn sem skapar sterkan heildarkraft. Endurnýjun og reynsla þurfa að fara hönd í hönd; þar liggur styrkurinn. Þegar traust ríkir og teymisvinna er höfð að leiðarljósi verða ákvarðanir betri og niðurstöðurnar skila sér til samfélagsins. Sú sátt og samvinna sem nú hefur skapast er að okkar mati skýr yfirlýsing um að hagsmunir bæjarbúa séu settir í fyrsta sæti. Með því að stilla saman strengi viljum við leggja grunn að sterkum lista, öflugri baráttu og áframhaldandi framförum fyrir Akureyri. Við vonumst til að flokksmenn sjái styrkinn í þessu samstarfi og styðji það á komandi röðunarfundi og hlökkum til að halda áfram samtalinu við félaga okkar og íbúa bæjarins. Markmiðið er skýrt: að vinna fyrir fólkið í samráði við fólkið og tryggja Akureyri sterka framtíð, betri þjónustu og samfélag sem nýtur góðs af ábyrgum og faglegum vinnubrögðum. Hlökkum til að sjá ykkur á röðunarfundinum þann 7. febrúar næstkomandi!"

