Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á Akureyri
Heimir Örn Árnason
Heimir Örn er fæddur á Akureyri 5. maí 1979. Hann lauk stúdentsprófi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri með viðskiptafræði sem aðalval árið 2000 og BEd. prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 2006.
Heimir Örn hefur starfað við kennslu í 16 ár, fyrst við Ingunnarskóla en lengst af við Naustaskóla á Akureyri. Heimir Örn starfaði í stjórnunarteymi Naustaskóla sem deildarstjóri á árunum 2018-2022. Áður var Heimir framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar. Heimir hefur verið mjög virkur í félagsmálum og sjálfboðaliðastarfi hjá KA og KA/Þór frá 2008, t.d. sem formaður unglingaráðs KA og KA/Þór.
Heimir er einnig með dómararéttindi og hefur klárað öll stig þjálfaramenntunar hér á landi í handknattleik. Hann hefur þjálfað meistaraflokk KA, Akureyri og Fylki í meistaraflokki karla í handknattleik og yngri flokka síðan 1995.
Heimir Örn hefur verið oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og bæjarfulltrúi frá 2022. Heimir Örn hefur verið formaður bæjarráðs frá 2023 en var áður forseti bæjarstjórnar og varaformaður bæjarráðs 2022-2023. Heimir Örn er formaður í fræðslu- og lýðheilsuráði og varamaður í skipulagsráði.
Heimir Örn á þrjú börn.
Lára Halldóra Eiríksdóttir
Lára Halldóra er fædd á Akureyri 23. apríl 1973. Hún lauk stúdentsprófi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri árið 1993 og BEd. prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1997.
Lára hefur starfað við kennslu í yfir tvo áratugi, bæði við Hofsstaðaskóla í Garðabæ og lengst af við Giljaskóla á Akureyri. Hún starfar í dag sem námsráðgjafi í Giljaskóla.
Lára hefur alla tíð tekið virkan þátt í félagsmálum. Hún var stjórnarmaður og formaður Bandalags kennara á Norðurlandi eystra 2008-2013 þar sem hún tók virkan þátt í kjarabaráttu kennara.
Lára sat í stjórn Sjálfstæðisfélags Akureyrar og í stjórn Varnar, félags sjálfstæðiskvenna á Akureyri. Hún var virk í ýmsu foreldrastarfi í skólum og íþróttafélögum. Þekking Láru á fræðslu- íþrótta- og velferðarmálum er víðtæk bæði í gegnum störf og þátttöku í félagsstarfi.
Lára Halldóra hefur verið bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri frá 2022 og setið í velferðarráði Akureyrarbæjar frá 2018 (varaformaður frá 2022). Lára er formaður SSNE. Áður var hún varabæjarfulltrúi 2018-2022 auk þess að vera varamaður í bæjarráði 2018-2019.
Lára á fjögur börn; Halldór Yngva, Elvar Örn, Sólveigu Alexöndru og Þorgerði Katrínu.
