Kosningaáherslur Sjálfstæðisflokksins á Akureyri

Helstu kosningaáherslur

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri
Akureyri okkar allra

  • Traust fjármálastjórnun verði í öndvegi og áhersla lögð á að lækka álögur á bæjarbúa.
  • Gjaldfrjáls leikskólapláss fyrir öll börn frá 12 mánaða aldri.
  • Akureyrarbær verði áfram leiðandi í umhverfismálum. Skapaður verði vettvangur fyrir einkaaðila, fyrirtæki og stofnanir til að kolefnisjafna starfsemi sína.
  • Akureyrarbær losi um fjármagn sem bundið er í fasteignum.
  • Framboð íbúða- og atvinnulóða verði tryggt í sveitarfélaginu og efnt verði til hugmyndasamkeppni um uppbyggingu á Akureyrarvelli.
  • Stoðþjónusta í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar verði efld með aukinni viðveru sérfræðinga í skólunum.
  • Áfram verði tryggð góð þjónusta við fatlað fólk og eldri borgara. Akureyrarbær verði leiðandi í lausnum á sviði velferðartækni.
  • Stafræn þjónusta við íbúa og fyrirtæki verði aukin til muna.
  • Akureyrarbær verði áfram heilsueflandi samfélag þar sem sérstök áhersla verði lögð á lýðheilsu eldri borgara.
  • Frístundastyrkur hækkaður í 50.000 kr. og frístundastrætó verði komið á. 
  • Áfram verði hlúð að starfsemi íþróttafélaga í sveitarfélaginu og leitað leiða til að mæta þörfum þeirra til frekari uppbyggingar.
  • Kynja- og jafnréttissjónarmið verði höfð að leiðarljósi í allri starfsemi Akureyrarbæjar. 
  • Ráðist verði í átak til þess að fjölga íbúum og atvinnutækifærum í sveitarfélaginu. 
  • Menningarlíf verði áfram atvinnuskapandi og fjölbreytt öllum bæjarbúum til ánægju og fróðleiks.

 

 

  • Traust fjármálastjórnun verði í öndvegi og áhersla lögð á að lækka álögur á bæjarbúa

Traust og ábyrg fjármálastjórn er að mati Sjálfstæðisflokksins grunnforsenda þess að rekstur sveitarfélagsins verði tryggður til framtíðar. Sjálfstæðisflokkurinn mun leggja áherslu á vandaða áætlanagerð og eftirfylgni þannig að rammi fjárhagsáætlunar hvers árs verði virtur.

Sjálfstæðisflokkurinn mun ennfremur leita allra leiða til þess að lækka álögur á bæjarbúa og horfa sérstaklega til gjalda sem hafa hækkað vegna utanaðkomandi þátta, svo sem fasteignagjalda og búa þannig um hnútana að Akureyrarbær standist samanburð við önnur sveitarfélög á landinu hvað þetta varðar. Álögur á íbúa sveitarfélagsins eru eitt af helstu atriðunum sem fólk horfir til við val á búsetu auk þess sem ráðstöfun fjármuna skattgreiðenda skiptir alla útsvarsgreiðendur miklu máli.

Sjálfstæðisflokkurinn mun í öllum störfum sínum hafa þá staðreynd í huga að allir fjármunir til rekstrar sveitarfélagsins eru eign íbúa þess og nálgast allar ákvarðanir um ráðstöfun þeirra með það í huga.

 

  • Gjaldfrjáls leikskólapláss fyrir öll börn frá 12 mánaða aldri

Leikskólagjöld eru talsverður útgjaldaliður fyrir foreldra leikskólabarna en þó aðeins lítill hluti af heildarkostnaði sveitarfélagsins við rekstur leikskóla á ári hverju. Sjálfstæðisflokkurinn telur það vera mikilvægt hagsmunamál fyrir foreldra leikskólabarna að leikskólapláss séu gjaldfrjáls en þannig má hækka ráðstöfunartekjur fólks með börn í leikskóla og auka lífsgæði þeirra verulega.

Leikskóli er fyrsta skrefið í skólagöngu barna og með niðurfellingu dvalargjalda er Sjálfstæðisflokkurinn að viðurkenna leikskólann sem fyrsta skólastig barna og hampa því faglega og góða starfi sem fram fer í leikskólum sveitarfélagsins. Sjálfstæðisflokkurinn mun jafnframt áfram vinna markvisst að því að fundinn verði lausn til frambúðar svo að tryggja megi öllum 12 mánaða börnum leikskólapláss í sveitarfélaginu.

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar samhliða þessari aðgerð að ráðast í markaðsátak til þess að fjölga íbúum og atvinnutækifærum í sveitarfélaginu þar sem sú kjarabót sem hlýst af þessari aðgerð kemur til með að vega þungt. Markaðsátak þar sem þessi aðgerð verður í forgrunni mun laða að nýja íbúa í sveitarfélagið.

 

  • Akureyrarbær verði áfram leiðandi í umhverfismálum. Skapaður verði vettvangur fyrir einkaaðila, fyrirtæki og stofnanir til að kolefnisjafna starfsemi sína

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á grænar lausnir í rekstri sveitarfélagsins og að aðgerðir þess í umhverfismálum verði sýnilegar. Þá leggur Sjálfstæðisflokkurinn áherslu á að Akureyrarbær verði í fararbroddi á landsvísu og taki forystu sem leiðandi sveitarfélag í umhverfismálum.

Við skipulagningu nýrra hverfa verður leitað leiða til að auðvelda íbúum að tileinka sér breyttar ferðavenjur og áhersla lögð á grænar lausnir í samgöngum. Umhverfisvitund starfsfólks sveitarfélagsins og annarra íbúa þess verði efld og þeir hvattir til þess að sýna gott fordæmi hvað þetta varðar.

Mikil ásókn er á meðal innlendra og erlendra fyrirtækja eftir kolefnisjöfnun í rekstri sínum, m.a. vegna lagasetningar þar að lútandi. Sjálfstæðisflokkurinn lítur á það sem mikilvægt tækifæri að skapa fyrirtækjum vettvang til þess að kolefnisjafna starfsemi sína og nýta þá um leið tækifærið til frekari skógræktar innan marka sveitarfélagsins og ljúka við „Græna trefilinn“.

Verkefni af þessu tagi er þess utan til þess fallið að skapa sveitarfélaginu jákvæða ímynd sem leiðandi aðila í umhverfismálum sem aftur skilar sér í aukinni umfjöllun og betra samfélagi fyrir íbúa þess og gesti.

 

  • Akureyrarbær losi um fjármagn sem bundið er í fasteignum

Sjálfstæðisflokkurinn mun beita sér fyrir því að fasteignir í eigu bæjarins sem eru lítið eða illa nýttar verði seldar auk þess sem skoðað verði hvort tilefni sé til sölu annarra eigna sem ekki er þörf á að sveitarfélagið eigi. Með þessu telur Sjálfstæðisflokkurinn að tryggja megi sem best nýtingu þeirra fjármuna sveitarfélagsins sem í dag eru bundnir í fasteignum og stuðla að lægri kostnaði í viðhald og rekstur fasteigna.

Í þessu samhengi er sérstaklega verið að horfa til Akureyrarvallar en Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að selja svæðið að undangenginni hugmyndasamkeppni um nýtingu svæðisins. Að auki telur Sjálfstæðisflokkurinn ástæðu til þess að skoða sölu fleiri eigna sem fyrirsjáanlegt er að þjóni ekki tilgangi fyrir rekstur bæjarins á komandi árum.

 

  • Framboð íbúða- og atvinnulóða verði tryggt í sveitarfélaginu og efnt verði til hugmyndasamkeppni um uppbyggingu á Akureyrarvelli

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að setja aukna fjármuni í skipulagsmál þannig að hægt verði að ráðast hraðar í skipulagningu íbúðarlóða í sveitarfélaginu. Taka þarf upp aðalskipulag og tryggja að á hverjum tíma verði lausar lóðir fyrir íbúðar og atvinnuhúsnæði til að mæta uppbyggingarþörf og fjölgun íbúa.

Með breyttri notkun Akureyrarvallar hefur skapast tækifæri til þess að skipuleggja eftirsótt byggingarland í hjarta Akureyrarbæjar til framtíðar og byggja upp aðlaðandi svæði fyrir íbúðabyggð og þjónustu. Sjálfstæðisflokkurinn mun efna til hugmyndasamkeppni um framtíðar uppbyggingu og nýtingu svæðisins með það að markmiði að hámarka verðmæti þess með hagsmuni sveitarfélagsins að leiðarljósi og tryggja um leið að til verði eftirsóknarvert svæði fyrir íbúa bæjarins og gesti hans.

 

  • Stoðþjónusta í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar verði efld með aukinni viðveru sérfræðinga í skólunum

Sjálfstæðisflokkurinn leggur ríka áherslu á að stoðþjónusta leik- og grunnskóla færist í auknum mæli inn í skólana sjálfa þannig að nemendur fái viðeigandi þjónustu sérfræðinga, s.s. talmeinafræðinga, sálfræðinga og þroskaþjálfa innan veggja skólans. Einnig er mikilvægt að kennarar hafi greiðan aðgang að stuðningi og ráðgjöf hvort heldur sem er kennsluráðgjafa eða annarra fagstétta.

Með þessu vill Sjálfstæðisflokkurinn leggja sitt af mörkum til þess að einfalda líf barna sem þurfa á stoðþjónustu að halda og fjölskyldna þeirra og tryggja að öll þjónusta standi þeim til boða á skólatíma.

 

  • Áfram verði tryggð góð þjónusta við fatlað fólk og eldri borgara. Akureyrarbær verði leiðandi í lausnum á sviði velferðartækni

Setja þarf aukinn kraft í lausnir á sviði velferðartækni, notendum þjónustunnar til hagsbóta. Með því verður ennfremur stuðlað að betri nýtingu þeirra fjármuna sem í dag fara í málaflokkinn auk þess sem öryggi íbúa og vinnuaðstæður starfsfólks batna til muna.

Sjálfstæðisflokkurinn mun beita sér fyrir því að vinnu við innleiðingu stafrænna lausna verði hraðað og aukinn kraftur settur í að framfylgja stefnu Akureyrarbæjar frá árinu 2019 varðandi það að verða framsækið og leiðandi sveitarfélag á þessu sviði.

 

  • Stafræn þjónusta við íbúa og fyrirtæki verði aukin til muna

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að beita sér fyrir því að vinna við innleiðingu stafrænna lausna verði efld og stjórnsýslan einfölduð hvað varðar samskipti íbúa við sveitarfélagið. Hraðari og betri þjónusta og einfaldara aðgengi eiga að vera í forgrunni og þannig tryggt að íbúar sveitarfélagsins geti nýtt sér þjónustu þess þegar þeim hentar.

Stafrænar lausnir, sem taka mið af þeirri öru tækniþróun sem orðið hefur á undanförnum árum, leiðir til betri nýtingu fjármuna, sveigjanlegri samskiptum og nýjum tækifærum fyrir starfsfólk, m.a. með fjarvinnu.

 

  • Akureyrarbær verði áfram heilsueflandi samfélag þar sem sérstök áhersla verði lögð á lýðheilsu eldri borgara

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri vill að Akureyri verði áfram heilsueflandi samfélag og geri enn betur í þeim málum. Bæta þarf fræðslu til íbúa um heilsueflandi möguleika í samfélaginu. Á komandi kjörtímabili ætlum við að leggja áherslu á heilsueflingu eldri borgara með markvissum aðgerðum sem einfalda aðgengi að hreyfingu-og tómstundum ýmiskonar.

Sjálfstæðisflokkurinn mun áfram vinna í anda aðgerðaráætlunar fyrir eldra fólk sem samþykkt var í desember 2021 og taka upp viðræður við félag eldri borgara um endurskoðun áætlunarinnar með hagsmuni eldri borgara að leiðarljósi. Mikilvægt er að efla starf öldungaráðs og tryggja að raddir eldri borgara fái að heyrast í undirbúningi allra mála sem varða þeirra hagsmuni.

Sjálfstæðisflokkurinn mun beita sér fyrir því að sett verði á fót verkefni sem stuðlar að því að eldri einstaklingar geti sinnt athöfnum daglegs lífs, geti unnið eins lengi og hægt er og komi í veg fyrir eða seinki innlögnum á hjúkrunarheimili. Það gerum við með skipulögðu verkefni sem eykur lífsgæði eldri einstaklinga og virka þátttöku þeirra í samfélaginu.

 

  • Frístundastyrkur hækkaður í 50.000 kr. og frístundastrætó verði komið á

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að frístundastyrkur verði hækkaður í 50.000 kr. strax í upphafi kjörtímabilsins. Að sama skapi leggur Sjálfstæðisflokkurinn áherslu á að frístundastrætó verði starfræktur frá og með næsta hausti með það að markmiði að búa til betri samfellu á milli skóla-og frístunda barna og einfalda til muna öll ferðalög barna til og frá frístundum. Frístundastrætó mun ennfremur fækka bílferðum og stuðla að betri nýtingu tíma foreldra og umhverfisvænni samgöngum innan bæjarins.

 

  • Áfram verði hlúð að starfsemi íþróttafélaga í sveitarfélaginu og leitað leiða til að mæta þörfum þeirra til frekari uppbyggingar

Öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf hefur einkennt Akureyri og mikilvægt er að svo verði áfram. Mikill uppgangur hefur verið undanfarin ár í yngri flokka starfi í mörgum íþróttagreinum og mikið um faglegt og metnaðarfullt starf hjá íþróttafélögum á Akureyri. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á mikilvægi þess að áfram verði stutt dyggilega við bakið á grasrótarstarfi íþróttafélaganna í bænum. Þannig telur Sjálfstæðisflokkurinn að sá uppgangur og það öfluga starf sem unnið er hjá íþróttafélögunum, samfélaginu til heilla, haldi áfram.

Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að þarfir íþróttafélaganna verða hafðar að leiðarljósi við uppbyggingu íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu.

 

  • Kynja- og jafnréttissjónarmið verði höfð að leiðarljósi í allri starfsemi Akureyrarbæjar

Sjálfstæðisflokkurinn mun leggja áherslu á að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins, í samræmi við markmið jafnréttislaga. Í þessu skyni telur Sjálfstæðisflokkurinn m.a. mikilvægt að efla fræðslu um jafnréttismál og að markvisst verði unnið gegn flokkun starfa í sérstök kvenna-og karlastörf.

Jöfn staða kynjanna og tækifæri til þess að öllum, óháð kyni, sé fært að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf skiptir samfélagið okkar miklu máli og mun Sjálfstæðisflokkurinn leggja áherslu á jöfn tækifæri allra hvað þetta varðar og vinna að jöfnum áhrifum allra kynja í samfélaginu.

 

  • Ráðist verði í átak til þess að fjölga íbúum og atvinnutækifærum í sveitarfélaginu

Samkeppni um íbúa á milli sveitarfélaga er hörð og mikilvægt að Akureyrarbær taki frumkvæði strax hvað þetta varðar og verði þannig ekki undir í þeirri samkeppni.

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að ráðast í markaðsátak til þess að fjölga íbúum og þar með atvinnutækifærum í sveitarfélaginu. Sjálfstæðisflokkurinn telur að nú sé rétti tíminn enda hefur flokkurinn verið í fararbroddi á kjörtímabilinu hvað varðar uppbyggingu lóða fyrir íbúðarhúsnæði sem verða tilbúnar á næstu 2-3 árum. Þá er fyrirhuguð uppbygging á Akureyrarvelli svo til staðar eru allar þær forsendur sem til þarf svo hægt sé að taka á móti nýjum íbúum.

Leitað verði til sérfræðinga á sviði markaðssetningar og þeim falið það verkefni að auglýsa kosti þess að búa í sveitarfélaginu. Sjálfstæðisflokkurinn álítur heppilegast að haft verði samráð við hagsmunaaðila á svæðinu til þess að hámarka árangur markaðsátaksins.

 

  • Menningarlíf verði áfram atvinnuskapandi og fjölbreytt öllum bæjarbúum til ánægju og fróðleiks

Menningarlífið í sveitarfélaginu okkar er bæði öflugt og fjölbreytt. Þessi starfsemi auðgar samfélagið okkar, er atvinnuskapandi og styður við ferðaþjónustuna. Þeim fjölmörgu einkaaðilum og stofnunum sem starfa í menningar- og viðburðageiranum á Akureyri þarf að gera hátt undir höfði og sérstaklega þarf að horfa til grasrótarinnar í því samhengi.
Við í Sjálfstæðisflokknum fögnum umræðunni um listnám á háskólastigi og munum beita okkur í því verkefni. Við leggjum áherslu á að menningarstarfsemi í sveitarfélaginu verði áfram atvinnuskapandi og fjölbreytt fyrir íbúa og gesti á Akureyri okkar allra.

 

Akureyri okkar allra 

Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri | Geislagötu 5 | Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson | XD-AK | XD-Norðaustur