Berglind Harpa Svavarsdóttir
Berglind Harpa er fædd í Reykjavík 28. nóvember 1975 og uppalin í Hveragerði. Berglind lauk BS gráðu í Hjúkrunarfræði frá HÍ 2003 og meistaragráðu í heilbrigðisvísindum með áherslu á stjórnun innan heilbrigðisþjónustunnar frá Háskólanum á Akureyri 2017.
Berglind flutti austur á land 2003 með fjölskyldu sinni og starfaði með barneignarhléum sem hjúkrunarfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands til 2017. Það ár tók hún við sem forstöðumaður í dagþjónustu eldri borgara á Egilsstöðum ásamt því að byrja samhliða sinn feril í stjórnmálum.
Berglind settist í bæjarstjórn á Fljótsdalshéraði 2018 ásamt því að sinna samhliða formennsku í Fræðslunefnd. Við sameiningu sveitarfélaga í Múlaþing 2020 sinnti hún formennsku í byggðaráði og einnig formennsku í Heimastjórn á Seyðisfirði.
Berglind er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi, sinnir formennsku í Byggðaráði ásamt því að sinna formennsku í Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi og Austurbrú. Einnig sinnti hún varaformennsku í svæðisráði Vatnajökulsþjóðgarðs á Austurlandi 2021-2022.
Berglind Harpa hefur verið varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi frá haustinu 2021 og hefur sest nokkrum sinnum inn á Alþingi á þeim tíma, þar af samfellt frá september til desember 2023.
Eiginmaður Berglindar Hörpu er Berg Valdimar Sigurjónsson tannlæknir og saman eiga þau þrjá syni; Sigurjón Svavar, Atla Pál og Tómas Andra.
Jón Þór Kristjánsson
Jón Þór er fæddur á Akureyri 3. júlí 1991. Hann er stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands með meistaragráðu í opinberri stefnumótun frá Edinborgarháskóla. Auk þess hefur Jón Þór sótt viðbótarmenntun, m.a. við Harvard Kennedy School og sinnt kennslu í breytingastjórnun í opinberri stjórnsýslu við HÍ.
Jón Þór hefur starfað hjá Akureyrarbæ frá árinu 2019; fyrst sem verkefnastjóri upplýsingamiðlunar hjá Akureyrarstofu en síðan sem forstöðumaður þjónustu og þróunar þar sem hann ber meðal annars ábyrgð á þjónustuferlum, stafrænni þróun og stjórnsýslu sveitarfélagsins og vinnur náið með bæjarráði og bæjarstjórn.
Áður starfaði Jón Þór á vettvangi fjölmiðla, sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu, dagskrárgerðarmaður á N4 og frétta- og dagskrárgerðarmaður hjá RÚV.
Jón Þór hefur verið varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi frá alþingiskosningum í nóvember 2024 og formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar frá árinu 2025.
Eiginkona Jóns Þórs er Andrea Númadóttir. Þau eiga samtals þrjú börn og það fjórða á leiðinni.