Varaþingmenn Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

Berglind Harpa Svavarsdóttir
Berglind Harpa er fædd í Reykjavík 28. nóvember 1975 og uppalin í Hveragerði. Berglind lauk BS gráðu í Hjúkrunarfræði frá HÍ 2003 og meistaragráðu í heilbrigðisvísindum með áherslu á stjórnun innan heilbrigðisþjónustunnar frá Háskólanum á Akureyri 2017.

Berglind flutti austur á land 2003 með fjölskyldu sinni og starfaði með barneignarhléum sem hjúkrunarfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands til 2017. Það ár tók hún við sem forstöðumaður í dagþjónustu eldri borgara  á Egilsstöðum ásamt því að byrja samhliða sinn feril í stjórnmálum.

Berglind settist í bæjarstjórn á Fljótsdalshéraði 2018 ásamt því að  sinna samhliða formennsku í Fræðslunefnd.  Við sameiningu sveitarfélaga í Múlaþing 2020 sinnti hún formennsku í byggðaráði og einnig formennsku í Heimastjórn á Seyðisfirði. 

Berglind er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi, sinnir formennsku í Byggðaráði ásamt því að sinna formennsku í Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi og Austurbrú. Einnig sinnti hún varaformennsku í svæðisráði Vatnajökulsþjóðgarðs á Austurlandi 2021-2022. 

Berglind Harpa hefur verið varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi frá haustinu 2021 og hefur sest nokkrum sinnum inn á Alþingi á þeim tíma, þar af samfellt frá september til desember 2023.

Eiginmaður Berglindar Hörpu er Berg Valdimar Sigurjónsson tannlæknir og saman eiga þau þrjá syni; Sigurjón Svavar, Atla Pál og Tómas Andra. 
 


 

Ragnar Sigurðsson
Ragnar er fæddur í Hafnarfirði 8. desember 1980. Ragnar er uppalinn Hafnfirðingur og tók þar sín fyrstu spor í stjórnmálum. Hann flutti norður til Akureyrar árið 2005 og hóf nám í lögfræði við Háskólann á Akureyri þaðan sem hann útskrifaðist 2010. Hann er einnig með MLM gráðu í forystu og stjórnun. 

Ragnar flutti með fjölskyldu austur á Reyðarfjörð árið 2010 þegar hann tók við ritstjórn Austurgluggans. Síðar meir var Ragnar sjálfstætt starfandi almannatengill hjá fyrirtæki sínu Raust og var framkvæmdastjóri hjúkrunarheimila Fjarðabyggðar 2016-2021. 

Ragnar hefur verið virkur í starfi flokksins um langa tíð. Fyrst sem stjórnarmaður og síðar formaður Stefnis, félags ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði 2000-2002 og var formaður Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri 2006-2008. Ragnar hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, t.d. setið í miðstjórn flokksins 2011-2014 og aftur frá 2017. Ragnar sat í stjórn kjördæmisráðs 2011-2023 og var formaður kjördæmisráðs 2011-2014. 

Ragnar hefur setið í stjórnum félaga og samtaka; t.d. í s
tjórn körfuknattleiksdeildar Hauka 2000-2002, gæðaráði Háskólans á Akureyri 2007-2008, formaður FSHA (félags stúdenta við Háskólann á Akureyri) 2008-2010, stjórn LÍH (landssamtökum íslenskra háskólanema) 2008-2010, sem varaformaður og gjaldkeri Góðvina Háskólans á Akureyri 2010-2011, formaður körfuknattleiksdeildar Fjarðabyggðar frá 2017, í stjórn Vísindagarða og í stjórn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu 2020-2021. 

Frá árinu 2014 hefur Ragnar verið í bæjarmálunum í Fjarðabyggð, sem aðal- og varafulltrúi í bæjarstjórn og er oddviti Sjálfstæðisflokksins í sveitarfélaginu frá 2020. Hann hefur gegnt formennsku í sveitarstjórnarráði Sjálfstæðisflokksins frá 2022. Ragnar hefur verið varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi frá haustinu 2021.

Eiginkona Ragnars er Þórunn Hyrna Víkingsdóttir og þau eiga saman þrjú börn; Bergþór Flóka, Steingrím Þorra og Sigríði Iðu.  
 


 

Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri | Geislagötu 5 | Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson | XD-AK | XD-Norðaustur