Lög fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri

1. grein
Sjálfstæðisfélögin á Akureyri sem viðurkennd hafa verið af miðstjórn Sjálfstæðisflokksins mynda með sér ráð er nefnist: Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna á Akureyri. Fulltrúaráðið starfar eftir skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins.

2. grein
Fulltrúaráðið og stjórn þess er tengiliður milli sjálfstæðisfélaganna á Akureyri, vettvangur til að samhæfa starf þeirra eftir því sem tök eru á og stjórna sameiginlegum málum þeirra. Ráðinu ber að gangast fyrir fundum og ráðstefnum um starf og stefnu Sjálfstæðisflokksins og efna til þeirra aðgerða sem nauðsyn krefur til eflingar almennu flokksstarfi á Akureyri. Jafnframt stýrir fulltrúaráðið og stjórn þess undirbúningi fyrir bæjarstjórnarkosningar, ákveður framboð flokksins og vinnur að sem mestri kjörsókn stuðningsmanna hans.

3. grein
Í fulltrúaráðinu eiga sæti fulltrúar sem kjörnir eru í ráðið á aðalfundum sjálfstæðisfélaganna á Akureyri. Fulltrúaráðið skal skipað það mörgum einstaklingum að svari til eins fulltrúa fyrir hverja 100 íbúa bæjarfélagsins þó aldrei fleiri en 180 að viðbættum formönnum allra sjálfstæðisfélaganna.

Sjálfkjörnir í fulltrúaráðið eru bæjarfulltrúar og jafnmargir varamenn þeirra ásamt stjórnum allra sjálfstæðisfélaganna. Einnig eru sjálfkjörnir alþingismenn og þeir flokksráðs- og miðstjórnarmenn sem kosnir eru á aðalfundi kjördæmisráðs og lögheimili eiga í sveitarfélaginu. Stjórn fulltrúaráðsins tekur á hverju ári ákvörðun um skiptingu fulltrúaráðsmanna milli félaga miðað við félagatölu hverju sinni.

4. 
grein
Meðlimir fulltrúaráðsins skulu eiga lögheimili á Akureyri og vera félagar í sjálfstæðisfélagi á sama stað. Fulltrúarnir vinna að þeim verkefnum í þágu Sjálfstæðisflokksins sem stjórn fulltrúaráðsins og stjórnir sjálfstæðisfélaga óska eftir hverju sinni. 

Málefni fulltrúaráðs og stjórnar þess eru trúnaðarmál og hafa fulltrúarnir þagnarskyldu varðandi þau. Ársreikningar síðasta starfsárs skulu liggja frammi á aðalfundi fulltrúaráðsins en að öðru leyti er aðgangur að skjölum ráðsins einungis heimill með samþykki stjórnar.

5. grein
Aðalfundur kýs fjóra menn í stjórn og þar af er formaður sem skal kjörinn sérstaklega. Auk þess skal kjósa fjóra til vara. Komi fram fleiri framboð en kjósa á um skal viðhafa leynilega atkvæðagreiðslu. Kjörseðill er gildur ef á honum eru jafnmörg nöfn og þeirra sæta sem kjósa skal um. Einnig eiga sæti í stjórn fulltrúaráðsins formenn allra sjálfstæðisfélaga er ráðið mynda og eru varaformenn þeirra jafnframt varamenn. 

Stjórn ráðsins boðar til fundar svo oft sem þurfa þykir. Einnig geta 20 fulltrúar eða fleiri krafist skriflega fundar um ákveðið málefni og er þá stjórninni skylt að boða til fundar innan viku. Ný stjórn tekur við störfum að loknum aðalfundi.

6. 
grein
Aðalfund skal halda fyrir lok febrúar ár hvert og á dagskrá skal vera:

1. Skýrsla stjórnar
2. Reikningsskil
3. Kjör stjórnar
4. Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga
5. Kjör fulltrúa í kjördæmisráð
6. Lagabreytingar
7. Önnur mál

Stjórn fulltrúaráðs boðar til aðalfundar með minnst 2 vikna fyrirvara og skal boðun send þeim sem rétt eiga til setu á fundinum, sbr. 2. gr. laga þessara. Auk þess skal boða til fundarins með auglýsingum á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, islendingur.is.

Að loknum aðalfundi skal stjórn fulltrúaráðs senda miðstjórn flokksins og stjórn kjördæmisráðs skýrslu um störf ráðsins á árinu.

7. grein
Stjórn fulltrúaráðs leggur fyrir ráðið tillögu um aðferð við val á framboðslista fyrir bæjarstjórnarkosningar. Skal til þess fundar boðað á tryggilegan hátt með auglýsingu þar sem fundarefni kemur skýrt fram. Tvo þriðju hluta greiddra atkvæða þarf til að tillaga um uppstillingu eða röðun nái fram að ganga en einfaldan meirihluta ef um prófkjör er að ræða.

8. grein
Kjörnefnd sér um framkvæmd prófkjörs, uppstillingu eða röðun á lista í samræmi við ákvörðun fulltrúaráðs og skipulagsreglur Sjálfstæðisflokksins. Við prófkjör vinnur kjörnefnd eftir prófkjörsreglum flokksins.

9. grein
Kjörnefnd er þannig skipuð að hvert aðildarfélag tilnefnir einn aðalmann og einn varamann. Fulltrúaráð kýs fjóra aðalmenn og varamann fyrir hvern þeirra. Kjörnefnd skiptir með sér verkum. Gefi kjörnefndarmaður kost á sér í prófkjör eða taki sæti á framboðslista skal hann víkja úr nefndinni og varamaður taka sæti hans. 

Ef bæði aðal- og varamaður eru vanhæfir til setu í kjörnefnd eða forfallast á annan hátt er stjórn viðkomandi félags eða eftir atvikum stjórn fulltrúaráðs heimilt að tilnefna mann í þeirra stað. Störf kjörnefndar eru trúnaðarmál.

10. grein
Fulltrúaráð skal á aðalfundi kjósa fulltrúa í kjördæmisráð, einn fulltrúa fyrir hverja 10 fulltrúaráðsmeðlimi eða brot úr þeirri tölu. Formaður fulltrúaráðs er sjálfkjörinn í kjördæmisráð. Stjórn fulltrúaráðs skiptir fulltrúum milli félaga samkvæmt skipulagsreglum flokksins.

11. 
grein
Fulltrúaráð kýs fulltrúa sína á landsfund Sjálfstæðisflokksins samkvæmt skipulagsreglum hans.  Kosning landsfundarfulltrúa skal fara fram á almennum fulltrúaráðsfundum og skal kosninga getið í fundarboði. Kosningarétt og kjörgengi hafa einungis fullgildir félagsmenn.

12. grein
Lögum má einungis breyta á aðalfundi með samþykki 2/3 greiddra atkvæða. Lagabreytingartillögur skulu hafa borist stjórn fulltrúaráðs, með skriflegum hætti í síðasta lagi í lok janúar ár hvert þannig að unnt verði að gera grein fyrir þeim í fundarboði aðalfundar.

13. grein
Lög þessi öðlast þegar gildi.


Þannig samþykkt á aðalfundi þann 28. febrúar 2019

Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri | Geislagötu 5 | Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson | XD-AK | XD-Norðaustur