Alþingismenn Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

Njáll Trausti Friðbertsson  alþingismaður
Njáll Trausti er fæddur í Reykjavík 31. desember 1969 og uppalinn á Seltjarnarnesi. Hann útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík 1990 og útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri 2004. Veturinn 1987-1988 var Njáll skiptinemi í Delaware í Bandaríkjunum.

Njáll Trausti hefur starfað í flugturninum á Akureyri sem flugumferðarstjóri frá árinu 1991. Hann stóð ásamt fleirum að stofnun Hjartans í Vatnsmýri, sem safnaði 70.000 undirskriftum til stuðnings Reykjavíkurflugvelli, árið 2013 og er annar formanna þess.

Njáll Trausti var bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri 2014-2017 og varabæjarfulltrúi 2010-2014. Njáll Trausti sat í framkvæmdaráði Akureyrarbæjar 2010-2017 og í stjórn Norðurorku 2011-2017. Njáll Trausti var formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar og varaformaður fulltrúaráðs 2012-2014. Hann sat í umhverfis- og samgöngunefnd Sjálfstæðisflokksins, kjörinn á landsfundi, 2012-2018.

Njáll Trausti hefur setið á Alþingi frá árinu 2016. Hann er formaður fjárlaganefndar frá 2024, formaður Íslandsdeildar Nató-þingsins frá 2017 og hefur setið í umhverfis- og samgöngunefnd frá 2021.

Hann sat í utanríkismálanefnd 2020-2023 (varaformaður lengst af þeim tíma), í fjárlaganefnd 2017-2020 og aftur frá 2023 (varaformaður 2023-2024 og varamaður í nefndinni 2020-2023), í atvinnuveganefnd 2017-2021, í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, í Íslandsdeild vestnorræna ráðsins og Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál 2017. 

Á þingferli sínum hefur Njáll Trausti leitt starfshóp um skosku leiðina í innanlandsfluginu og alþjóðaflugvallakerfið, verið varaformaður vísinda- og tækninefndar Nató-þingsins og setið t.d. í starfshóp um orkustefnu, Norðurslóðastefnu og framtíðarnefnd forsætisráðherra.

Njáll hefur tekið virkan þátt í félagsstörfum og meðal annars verið formaður Góðvina Háskólans á Akureyri. Njáll hefur verið virkur þátttakandi í starfi Round Table um árabil og sinnt þar ýmsum trúnaðarstörfum og t.d. verið landsforseti Round Table á Íslandi.


Njáll Trausti er kvæntur Guðrúnu Gyðu Hauksdóttur, hjúkrunarfræðingi, og eiga þau tvo syni; Stefán Trausta og Patrek Atla, og eitt barnabarn; Elenu.

 


 

Berglind Ósk Guðmundsdóttir  alþingismaður
Berglind Ósk er fædd í Reykjavík 7. júlí 1993 og uppalin þar. Berglind Ósk útskrifaðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum Hraðbraut 2011 og útskrifaðist með BA gráðu í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri 2016 og meistaragráðu í lögfræði í júní 2018. Berglind Ósk hefur verið héraðsdómslögmaður frá árinu 2021.

Á milli stúdentsprófs og háskóla starfaði Berglind Ósk sem yfirmaður í eldhúsi og síðan framleiðslustarfsmaður í álverinu á Reyðarfirði. Samhliða námi starfaði Berglind á sambýli fyrir fatlaða og eitt sumar sem bókari hjá Norðlenska. Berglind tók að sér aðstoðarkennslu í háskólanum og kenndi hluta úr námskeiði á haustönn 2017. Að útskrift lokinni starfaði hún á lögfræðistofunni Lögmenn Norðurlandi og var lögfræðingur rektorsstofu Háskólans á Akureyri 2019-2021.

Þegar Berglind hóf nám við Háskólann á Akureyri tók hún strax mikinn þátt í félagslífi skólans og hagsmunabaráttu nemenda. Meðal annars hefur hún setið í stjórn Félagsstofnunar stúdenta á Akureyri á árunum 2014-2018, verið formaður Þemis, félags laganema, varaformaður Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri og setið í háskólaráði Háskólans á Akureyri 2014-2018.

Berglind Ósk hefur setið á Alþingi frá árinu 2021. 
Berglind Ósk situr í allsherjar- og menntamálanefnd, stjórnskipunar- og eftirlits­nefnd, framtíðarnefnd og Íslandsdeild þing­manna­ráðstefnunnar um norðurskautsmál. Hún sat í atvinnuveganefnd 2021-2024 og um skeið 2. varaformaður í nefndinni. 

Hún var varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri 2018-2021, sat í frístundaráði Akureyrarbæjar 2018-2020, í stjórn Akureyrarstofu og formaður Fallorku 2020-2021. Berglind sat í stjórn Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna 2015-2016 og frá 2018, Sjálfstæðisfélags Akureyrar frá 2019, Landssambands sjálfstæðiskvenna 2018-2021 og í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna 2019-2021. Hún hefur setið í stjórn Góðvina Háskólans á Akureyri frá 2018, þar af sem formaður frá 2021.


Maki Berglindar Óskar er Daníel Matthíasson. Hún á tvö börn, Emilíu Margréti og Anton Dreka.


 

Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  | Aðsetur: Kaupangi v/Mýrarveg  |  Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-Ak á facebook