Flýtilyklar
Aðalfundur kjördæmisráðs haldinn á Húsavík - Þórhallur endurkjörinn formaður
Aðalfundur Kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi var haldinn í Golfskálanum á Húsavík laugardaginn 15. febrúar sl. Á fundinum var samþykkt lagabreytingatillaga stjórnar, t.d. um fækkun varastjórnarmanna úr 15 í 8.
Þórhallur Harðarson var endurkjörinn formaður kjördæmisráðs. Í stjórn voru einnig kjörin: Almar Marinósson, Benedikt Snær Magnússon, Dýrunn Pála Skaftadóttir, Guðgeir Fannar Margeirsson, Guðný Margrét Hjaltadóttir, Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir, Jakob Sigurðsson, Jósavin Heiðmann Arason, Karl Indriðason, Oddný Björk Daníelsdóttir, Stefán Friðrik Stefánsson, Valdemar Karl Kristinsson og Þórunn Sif Harðardóttir.
Anton Berg Sævarsson var kjörinn formaður KUSNA - Kjördæmissamtaka ungra sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi á aðalfundi KUSNA að loknum aðalfundi kjördæmisráðs. Formaður KUSNA á sjálfkrafa sæti í aðalstjórn kjördæmisráðs og varaformaður KUSNA er varamaður hans í stjórninni.
Í varastjórn voru kjörin: María H. Marinósdóttir, Vilmundur Aðalsteinn Árnason, Davíð Þór Sigurðarson, Hjalti Gunnarsson, Daníel Sigurður Eðvaldsson, Jóhann Gunnar Kristjánsson og Eðvarð Þór Eðvarðsson.
Hilmar Gunnlaugsson og Helena Eydís Ingólfsdóttir gáfu ekki kost á sér til endurkjörs í stjórn kjördæmisráðsins. Hilmar hefur verið varaformaður kjördæmisráðsins síðastliðin fjögur ár.
Þórhallur Jónsson var kjörinn í miðstjórn af hálfu kjördæmisráðsins og varamaður hans var kjörinn Almar Marinósson.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir, frambjóðendur til formennsku í Sjálfstæðisflokknum, voru gestir fundarins og kynntu framboð sín og áherslur í flokksstarfinu nái þær kjöri til formennsku. Gerður var góður rómur að máli þeirra enda töluðu þær vel um hvor aðra og mikilvægi samstöðu í flokknum í stjórnarandstöðu svo nýta megi tækifærin til að efla flokkinn áleiðis inn í næstu þingkosningar og fram á veginn til nýrra og mikilvægra áskorana til að styrkja flokkskjarnann.
Alþingismenn Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, Jens Garðar Helgason og Njáll Trausti Friðbertsson, fluttu einnig ræður og fóru yfir pólitísku stöðuna, auk Vilhjálms Árnasonar, alþingismanns og ritara Sjálfstæðisflokksins, og Diljár Mistar Einarsdóttur, alþingismanns, sem einnig voru gestir fundarins auk formannsframbjóðendanna.
Um kvöldið var fordrykkur og kvöldverðarhóf sem Jón Helgi Björnsson, fyrrum bæjarfulltrúi í Norðurþingi, veislustýrði og þar var góð stemmning, mikið hlegið og skemmt sér vel.
Myndir frá kjördæmisþinginu á Húsavík