Flýtilyklar
Guðrún Hafsteinsdóttir kjörin formaður Sjálfstæðisflokksins fyrst kvenna
Guðrún Hafsteinsdóttir hefur verið kjörin formaður Sjálfstæðisflokksins fyrst kvenna. Hún er sú tíunda sem gegnir formannsembætti í Sjálfstæðisflokknum frá stofnun hans 25. maí 1929. Guðrún hafði betur í hnífjafnri kosningu gegn Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur á 45. landsfundi Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll í dag.
Alls greiddu 1.858 landsfundarfulltrúar atkvæði í kosningunni. Guðrún hlaut 931 atkvæði eða 50,11%. Birgir Ármannsson, fundarstjóri landsfundar, kynnti úrslitin og urðu við það mikil fagnaðarlæti í salnum. Áslaug Arna hlaut 912 atkvæði eða 49,09% og fékk hún einnig mikið lófatak frá stappfullri Laugardalshöllinni. Auðir og ógildir seðlar voru fjórir og þá hlutu aðrir fimmtán atkvæði.
Guðrún Hafsteinsdóttir tekur við formennsku af Bjarna Benediktssyni sem leitt hefur Sjálfstæðisflokkinn í 16 ár, frá landsfundi í mars 2009. Guðrún er 55 ára gömul. Hún hefur setið á Alþingi og verið oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi frá árinu 2021. 23 ára gömul tók Guðrún við stjórn fjölskyldufyrirtækisins Kjörís í Hveragerði við fráfall föður síns Hafsteins Kristinssonar 1993. Hún hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa og víða verið valin til forystu í atvinnulífinu og var t.d. formaður Samtaka iðnaðarins.