Flýtilyklar
Sigurður Hermannsson látinn
Sigurður Hermannsson, tæknifræðingur og fyrrverandi umdæmisstjóri Isavia á Norðurlandi eystra, varð bráðkvaddur 28. apríl sl. 78 ára að aldri.
Sigurður fæddist á Akureyri 16. ágúst 1945. Foreldrar Sigurðar voru Hermann Vilhjálmsson og Aðalbjörg Sigurðardóttir. Systkini hans eru Hjörtur, Svala, Stefán og Brynjar. Eiginkona Sigurðar var Antonía Marsibil Lýðsdóttir frá Siglunesi við Siglufjörð. Hún fæddist árið 1947 og lést langt um aldur fram árið 2011 eftir erfið veikindi. Foreldrar Antoníu Marsibilar voru Lýður Bogason og Erla Guðlaug Magnúsdóttir.
Sigurður og Antonía giftust árið 1970 og eignuðust tvær dætur, Kristínu skrifstofumann á Akureyri og Erlu Guðlaugu, hjúkrunarfræðing sem búsett er í Stokkhólmi. Maki Erlu er Jakob Yngvason verkfræðingur og eiga þau tvo syni, Sigurð Yngva og Kristófer Anton. Sambýliskona Sigurðar hin seinni ár er Kolbrún Theodórsdóttir. Börn hennar eru Björgvin, Þóra og Harpa Birgisbörn.
Sigurður lærði húsasmíði í Iðnskólanum á Akureyri og að því námi loknu lærði hann tæknifræði í Tækniskólanum í Reykjavík. Megin hluta starfsævinnar vann hann á Verkfræðiskrifstofu Norðurlands sem hann stofnaði ásamt fleirum. Sigurður varð umdæmisstjóri Isavia á Norðurlandi eystra árið 1997 og sinnti því starfi með miklum myndarbrag allt til starfsloka 2012.
Sigurður var mikilvirkur í félagsmálum. Hann sat í nefndum fyrir Sjálfstæðisflokkinn hér á Akureyri um langt skeið og mætti vel á fundi hjá flokknum alla tíð, alveg fram undir það síðasta var hann fastagestur á bæjarmálafundum og talaði um það sem betur mætti fara í samfélaginu út frá áralangri reynslu sinni og þekkingu.
Einnig starfaði Sigurður mikið fyrir Íþróttafélagið Þór, Lionsklúbb Akureyrar, Frímúrararegluna og Félag eldri borgara þar sem hann var formaður um þriggja ára skeið að loknu erilsömu starfi hjá Isavia. Hann var liðtækur veiðimaður og naut þess að veiða lax og rjúpu en á efri árum helgaði hann sig golfinu og naut þess að fara út á völlinn á ljúfum sumardögum.
Útför Sigurðar fer fram frá Akureyrarkirkju þriðjudaginn 7. maí kl. 13.00.
------
Sjálfstæðismenn á Akureyri minnast Sigga Hermanns með þakklæti og virðingu. Hann var mætur og góður félagi í flokksstarfinu okkar, sat í nefndum og glæddi umræðuna á fundunum okkar með skarpri sýn sinni og spurningum sem voru jafnan gagnlegt innlegg um það sem betur mætti fara.
Siggi mætti vel á fundi og lagði þar alltaf mikið til mála með nærveru sinni, svo heilsteyptur og traustur í tali og framkomu. Hann var jafnan fastagestur á bæjarmálafundum og sat sinn síðasta fund stuttu fyrir látið. Blessuð sé minning Sigga.
Við færum fjölskyldu Sigurðar Hermannssonar innilegar samúðarkveðjur.
Stefán Friðrik Stefánsson
ritstjóri Íslendings og formaður Málfundafélagsins Sleipnis