Flýtilyklar
95 ár af árangri
Sjálfstæðisflokkurinn stendur á tímamótum í dag þegar 95 ár eru liðin frá stofnun hans sumarið 1929. Allar götur síðan hefur flokkurinn verið burðarás í íslenskum stjórnmálum og sannur drifkraftur framfara í landinu. Fyrir 80 árum náði eitt helsta baráttumál flokksins fram að ganga þegar lýðveldið Ísland var stofnað á Þingvöllum hinn 17. júní 1944.
Saga flokksins er samofin sögu lýðveldisins og þeirrar farsældar og framfara sem við höfum mátt lifa. Á fáeinum áratugum umbreyttist Ísland úr einu fátækasta ríki Vestur-Evrópu, sem þáði þróunaraðstoð, í eitt það ríkasta sem nú lætur gott af sér leiða víða um heim. Dugnaður þjóðarinnar og framsýni hafa þar mest að segja, en það voru ekki síður pólitískar áherslur sem lögðu grunninn.
Nefna má baráttuna um landhelgina, hitaveituvæðinguna, nýtingu fallvatnanna til verðmætasköpunar og stofnaðild okkar að Atlantshafsbandalaginu. Undanfarinn áratug höfum við stóreflt stuðning við rannsóknir og þróun og fyrir vikið orðið til ný stoð útflutnings með nýjum og verðmætum fyrirtækjum, spennandi störfum og tekjum fyrir íslenskt samfélag.
Enginn flokkur í lýðveldissögunni hefur setið jafn oft í ríkisstjórn. Styrkur flokksins á sveitarstjórnarstiginu er sömuleiðis langt framar öðrum. Við höfum aldrei, og munum aldrei, skorast undan ábyrgð – þótt oft kynni að vera auðveldara að sitja á hliðarlínunni.
Við fögnum 95 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins á tímum þar sem velferð á Íslandi er með því besta sem gerist í heiminum. Kaupmáttur, atvinnustig, jafnrétti og lífslíkur eru óvíða meiri. Ungbarnadauði, ójöfnuður og fátækt óvíða minni.
Á þessum tímamótum getum við bæði litið stolt yfir farinn veg og horft bjartsýn til framtíðar. Hér eftir sem hingað til mun Sjálfstæðisflokkurinn standa vaktina í íslenskum stjórnmálum af sömu festu, bjartsýni og trú á íslenskt samfélag. Leiðarljósið er ávallt að standa vörð um einstaklings- og athafnafrelsið, sem er grunnurinn að framúrskarandi lífskjörum okkar.
Ég sendi sjálfstæðisfólki um land allt mínar bestu kveðjur í tilefni dagsins.
Bjarni Benediktsson
formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra
Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. maí 2024.