Frestum ekki framtíðinni

Eðlilega velta margir því fyrir sér hvernig forysta Sjálfstæðisflokksins verður skipuð nú þegar Bjarni Benediktsson hefur tilkynnt að hann sækist ekki eftir endurkjöri sem formaður á komandi landsfundi. Og það er óneitanlega skemmtilegur samkvæmisleikur fyrir okkur öll að velta upp nöfnum og máta fólk við ákveðin hlutverk í öflugasta stjórnmálaflokki landsins.

Þessi miklu tímamót í Sjálfstæðisflokknum verða hins vegar að snúast um meira en persónur og leikendur. Þau þurfa að snúast um framtíð flokksins, þær áskoranir sem eru fram undan, hvernig flokkurinn ætlar að berjast fyrir hugsjónum og tryggja framgang þeirra. Hvernig Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að rækta sambandið við fólkið í landinu og móta og slípa stefnu með skýra framtíðarsýn. Í stuttu máli, þá standa sjálfstæðismenn frammi fyrir því að ákveða framtíð flokksins og hvernig þeir geta sjálfir tekið þátt í því að móta þá framtíð.

Öllum má vera ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn þarf að endurheimta trúverðugleika og verða aftur það forystuafl sem hann hefur alla tíð verið í íslensku samfélagi. Sú hagsæld sem við njótum nú byggist fyrst og síðast á þeim ákvörðunum sem forystumenn og kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa tekið í gegnum tíðina. Ákvarðanir sem byggðust á skýrri sýn, metnaðarfullum markmiðum, trúverðugleika og trúnni á hugmyndafræðina um minna ríkisvald og aukið frelsi einstaklingsins. Þetta er kjarni málsins og þetta er það sem starf Sjálfstæðisflokksins á að snúast um.

Draga má upp ýmsar samlíkingar af þeirri stöðu sem Sjálfstæðisflokkurinn er í um þessar mundir. Einhverjir segja að hann þurfi að endurnýja eða endurhugsa vörumerki sitt, uppfæra hugbúnaðinn, stíga inn í framtíðina, huga að kynslóðaskiptum og þannig mætti áfram telja.

Við sem höfum skipað okkur undir merki Sjálfstæðisflokksins höfum verið óhrædd við að mæta nýjum tímum, eiga hreinskiptin skoðanaskipti um menn og málefni. Og við vitum að stjórnmálaflokkur er mannanna verk, myndaður um sameiginlegar hugsjónir og stefnu.

Stjórnmálaflokkur „er ekki til fyrir sjálfan sig og ef hann höfðar ekki til fólksins í landinu á hann engan tilverurétt“, sagði Davíð Oddsson, þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, í viðtali við Morgunblaðið 25. maí 2004 í tilefni af 75 ára afmæli flokksins.

Nú styttist í að við sjálfstæðismenn komum saman til landsfundar, til að skipa til verka og móta stefnu til framtíðar. Tilvera Sjálfstæðisflokksins byggist á grundvallarstefi hans um frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar og nú ríður á að við blásum nýjum glæðum í þær klassísku hugmyndir. Sláum ekki framtíðinni á frest. Tökum höndum saman og vinnum farsællega að þeim kynslóðaskiptum sem nauðsynleg eru til að flokkurinn verði á ný öflugasta stjórnmálaafl landsins.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
alþingismaður


Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. janúar 2025


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  | Aðsetur: Kaupangi v/Mýrarveg  |  Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-Ak á facebook