Flýtilyklar
Halldóri Blöndal þakkað
Halldór Blöndal, fyrrverandi forseti Alþingis, ráðherra og alþingismaður, lætur í dag af formennsku í SES – Samtökum eldri sjálfstæðismanna. Halldór hefur gegnt óeigingjörnu sjálfboðastarfi í samtökunum í hartnær 15 ár, en hann tók við formennsku af Salóme Þorkelsdóttur, fyrrverandi forseta Alþingis, 2. desember 2009.
Sjálfstæðisflokkurinn á Halldóri mikið að þakka, en undir forystu hans hafa samtökin staðið fyrir einstaklega öflugu starfi í flokknum. Þannig hafa samtökin staðið fyrir fjölmennum vikulegum fundum í Valhöll um þau mál sem eru efst á baugi hverju sinni. Á sjötta hundrað slíkir fundir hafa verið haldnir undir forystu Halldórs.
Saga Halldórs og Sjálfstæðisflokksins spannar þó mun lengra skeið. Hann sat sinn fyrsta þingflokksfund árið 1960, þá sem þingfréttaritari Morgunblaðsins. Síðar tók hann sæti á Alþingi sem varaþingmaður árið 1971 auk þess sem hann var alþingismaður á árunum 1979-2007 eða samfellt í 28 ár, þar af ráðherra 1991-1999 og forseti Alþingis 1999-2005. Á mánudag sat hann sinn síðasta þingflokksfund sem formaður SES og hefur því setið þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins nær óslitið í 64 ár. Mér er til efs að nokkur hafi setið þingflokksfundi á lengra tímabili.
Halldór hefur allan sinn feril verið vakinn og sofinn yfir framgangi sjálfstæðisstefnunnar. Hann hefur verið einstakur formaður SES, sem er í dag meðal virkustu félagseininga innan flokksins. SES hefur m.a. lagt mikið til landsfunda Sjálfstæðisflokksins með vandaðri málefnavinnu og áherslu á bætt kjör eldri borgara sem hefur skilað sér inn í ályktanir og stefnuáherslur okkar.
Það er ekki sjálfgefið að leiða stór samtök eins og SES í hálfan annan áratug, hvað þá með jafn farsælum hætti og Halldór hefur gert. Fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins og vina hans í forystusveit flokksins hverju sinni, færi ég Halldóri miklar þakkir fyrir hans óeigingjarna og mikilvæga starf í þágu sjálfstæðisstefnunnar og þakka einstaklega gott og farsælt samstarf.
Bjarni Benediktsson
utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins