Hver á að borga - er það ég?

Hvers vegna á að taka gjald fyrir að leggja bifreið í miðbæ Akureyrar? Af hverju er það ekki bara frítt? Hvers vegna er verið að fara að stýra stæðisnotkun með gjaldskyldu?

Á Akureyri er notast við bílastæðaklukkur og þar af leiðandi greiða notendur ekki fyrir stæði. Þegar þær voru innleiddar á sínum tíma voru þær ágætis hugmynd en þá voru íbúar og gestir bæjarins talsvert færri. Þær virkuðu vel fyrir marga íbúa sem nýttu sér klukkustæði nema helst ef þeir þurftu að fara til læknis á Heilsugæsluna, bregða sér í hádegismat á einn af fjölmörgum veitingastöðum miðbæjarins eða skella sér í strípur á næstu hárgreiðslustofu en allt getur þetta tekið vel yfir klukkutíma. Afleiðingar þess eru sekt upp á 3.000,- krónur í stað þess að greiða u.þ.b. 300 krónur fyrir bílastæði í tvo klukkutíma.



Þetta felur í sér gremju gesta bæjarins sem eru jú í venjulegu árferði þeir sem nýta stæðin næst miðbænum hvað mest. Að fara burt frá Akureyri með sekt í vasanum er neikvæð upplifun og þeir sem lenda í slíku eru margfalt líklegri til að deila upplifun sinni heldur en aðrir. Því skiptir þetta virkilega miklu máli í markaðsetningu á bænum sem þjónustu, orlofs og ferðamannabæ. 

Gestir sem sækja bæinn heim eru vanir að nota snjallforrit og gjaldstaura til að borga fyrir bílastæði og telja það vera sjálfsagt mál. Það gerum við líka þegar við heimsækjum t.d. höfuðborgina og látum ekki eftir okkur svo hvers vegna ættum við að gera það þegar við heimsækjum miðbæinn okkar?



Ég hef ekki tölu á þeim skiptum sem ég hef fengið fólk í mína verslun ráðþrota yfir því hvernig það á að haga sér með sektir eftir klukkan 16 á daginn og hef ég stundum tekið það að mér að borga fyrir fólkið sektina daginn eftir vegna þess að það er á leið úr bænum. Ef það gerir mig vanhæfan í þessu máli eins og Oddur Helgi heldur fram á Facebook þá verður það að vera hans skoðun en þvert á móti tel ég mig vera hæfastan til að meta ánægju gesta bæjarins með þetta kerfi því það erum við afgreiðslufólk í verslunum og þjónustufyrirtækjum við Skipagötu sem fáum yfir okkur fyrirspurnirnar og skammirnar varðandi notkun og sektir.

Ég held að Oddur Helgi væri ekki glaður ef að hans starfsfólk væri truflað 10-20 sinnum á dag við sína vinnu til að útskýra bílastæðamál, hvern ætti hann að skrifa þann tíma á? Eins og ég segi, þetta var í lagi fyrir 10 árum en nú er öldin önnur og gestum hefur fjölgað verulega sem betur fer fyrir okkar góða bæ.



Nýtt miðbæjarskipulag 

Það hafa verið uppi hugmyndir um að byggja bílastæðahús í miðbænum til að nýta landsvæði betur og byggja á lóðum þar sem eru í dag bílastæði. Slíkt bílastæðahús fyrir 200 bíla gæti kostað allt að milljarð og öllum ætti að vera það ljóst að ekki er hægt að skella þeim kostnaði á útsvarsgreiðendur heldur verður slíkt að standa undir sér og greiðast af notendum.

Á Akureyri er frítt í strætó fyrir alla. Kostnaðurinn við að reka strætókerfið er 230 milljónir á ári eða um 12.000,- kr. á hvern íbúa hvort sem þeir nýta sér þjónustuna eða ekki. Ég tel að það væri nær að veita börnum, nemum, öryrkjum og öldruðum frí afnot en að aðrir greiði fyrir sínar ferðir. 


Þórhallur Jónsson
bæjarfulltrúi og formaður skipulagsráðs


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  | Aðsetur: Kaupangi v/Mýrarveg  |  Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-Ak á facebook