Flýtilyklar
Leggjum grunn að betra Íslandi
Góðan kjördag kæru félagar,
Í þessum mikilvægu kosningum er valið skýrt á milli vinstri stjórnar glundroða og óstjórnar eða stefnufestu Sjálfstæðisflokksins, sem undir merkjum frelsis hefur skilað þjóðinni miklum lífskjörum í áratugi.
Einungis Sjálfstæðisflokkurinn er vörn gegn skattahækkunum vinstri flokkanna og kröfunni um aukin afskipti ríkis og stjórnmála af lífi fólks og fyrirtækja.
Einungis Sjálfstæðisflokkurinn hefur burði til þess að standa vörð um samfélagið okkar, atvinnulífið og velferð þjóðarinnar. Án öflugs atvinnulífs er engin verðmætasköpun sem stendur undir velferð fólks í landinu. Stórhuga bjartsýn þjóð, rík að auðlindum, hugmyndum og hæfileikum á óþrjótandi tækifæri.
Ég þakka öllum fyrir frábæra og jákvæða kosningabaráttu undanfarnar vikur. Mikið hefur þetta verið gaman. Öflug sveit hefur lagt á sig ómælda vinnu í að ná til kjósenda og miðla stefnu Sjálfstæðisflokksins í víðfeðmu kjördæminu. Hvert og eitt ykkar hefur skipt sköpum í þessari vegferð. Ég hef verið stoltur af því að fá að leiða þessa baráttu með ykkur.
Sjálfstæðismenn, hvert einasta atkvæði skiptir máli. Í dag er mikilvægt að tryggja að skilaboðin okkar nái í gegn, að allir stuðningsmenn okkar mæti á kjörstað og að ná þeim sem eru óákveðnir enn þá. Hvert símtal, hvert samtal og hvert bros getur skipt máli. Nýtum okkur samfélagsmiðla til að hvetjum alla að nýta kosningaréttinn og mæta á kjörstað.
Sýnum hvers við erum megnug. Með ómetanlegu framlagi ykkar getum við áfram tryggt sterka stöðu flokksins í Norðausturkjördæmi og lagt grunninn að betra Íslandi.
Með miklu þakklæti og baráttukveðju,
Jens Garðar