Flýtilyklar
Líforkuver á Dysnesi
Það er ástæða til að fagna því að skriður sé kominn á innviðauppbyggingu förgunar aukaafurða dýra á Íslandi. Söfnun- og ráðstöfun dýraleifa í efsta áhættuflokki og opinbert eftirlit hefur í áraraðir verið ófullnægjandi. Þarna liggja mikilvægir hagsmunir undir varðandi matvælaöryggi, varnir gegn dýrasjúkdómum og umhverfisvernd.
Að baki liggja viðskiptahagsmunir enda hefur söfnunarkerfi dýraleifa og ráðstöfun þeirra gengið á skjön við alþjóðlegar skuldbindingar gagnvart EES-samningnum sem er grundvallarstoð fyrir viðskipti með sjávarafurðir og önnur matvæli. Söfnunarkerfi dýrahræja og sláturúrgangs er undirstaða þess að uppfylla skuldbindingar Íslands um tilhlýðilega meðhöndlun og vinnslu aukaafurða dýra og tryggja öryggi manna og dýra hvað varðar smitsjúkdómavarnir.
Frumkvæði stjórnvalda
Aukaafurðir dýra eru sá hluti sem ekki er nýttur til matvælaframleiðslu. Slíkar afurðir falla til við veiðar, slátrun, frumframleiðslu matvæla sem og aðra matvælaframleiðslu, í náttúrunni, á sveitabæjum, í sjávarútvegi, við slátrun og vinnslu á mjólkurafurðum. Fólki og dýrum í nánd getur stafað áhætta af aukaafurðum, sem unnt væri að minnka með viðeigandi meðhöndlun.
Ríkið hefur haft frumkvæði að einu landsbundnu söfnunarkerfi fyrir dýrahræ og sláturúrgang, líkt og tíðkast í nágrannalöndum. Verkefnið fellur að hluta innan lögbundins hlutverks sveitarfélaga varðandi meðhöndlun úrgangs.
Sérstaklega mikilvægt er að koma á útfærslu á söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu í „áhættuflokki eitt“, og tryggja viðeigandi úrvinnslu eða förgun. Efninu verði fundinn farvegur með vinnslu þess á Dysnesi í Eyjafirði.
Verkefni líforkuvers
Félaginu Líforkuver ehf. hefur verið fengið það hlutverk að vinna tillögu að útfærslu samræmds söfnunarkerfis dýraleifa í áhættuflokki eitt á landsvísu. Að auki vinnur félagið að undirbúningi innviðauppbyggingar á Dysnesi svo hægt sé að vinna efnið með ábyrgum hætti. Það er í eigu umhverfis- orku og loftslagsráðuneytisins, Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, Akureyrarbæjar, Hörgársveitar og Kjarnafæðis/Norðlenska. Félagið hefur leitað innlendrar og alþjóðlegrar ráðgjafar til að meta hvaða kröfum þyrfti að mæta hér á landi og hver kostnaðurinn yrði.
Samvinna á Dysnesi
Það er ljóst að ríkisvaldið þarf að tryggja fjármögnun söfnunarkerfis dýraleifa á landsvísu í áhættuflokki eitt. Vegna kostnaðar verður einungis ein slík úrvinnsla reist á Íslandi. Það skyldi vera á Dysnesi í Eyjafirði. Að þessu verkefni verða margir að koma eigi vel að vera. Sveitarfélög, afurðastöðvar og atvinnurekendur í landbúnaði þurfa hér að taka virkan þátt.
Ástæða er að fylgjast með uppgangi félagsins Líforkuvers við Dysnes. Undir liggja miklir hagsmunir matvælaiðnaðar auk þess sem verkefnið er í anda nýrra tíma umhverfisverndar.
Gengi verkefnið eftir yrði það mikil lyftistöng fyrir mikla uppbyggingu hafnarinnviða sem stefnt er að á Dysnesi. Því metnaðarfulla verkefni væri loks hrint af stað. Það væri vel fyrir athafnalíf byggðar við Eyjafjörð. Það yrði gæfuspor fyrir Ísland.
Njáll Trausti Friðbertsson
oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjðrdæmi