NATÓ í 75 ár - erindið aldrei brýnna

Í dag eru 75 ár síðan Bjarni Bene­dikts­son und­ir­ritaði Atlants­hafs­sátt­mál­ann fyr­ir Íslands hönd þann 4. apríl 1949. Ísland var meðal tólf stofn­ríkja banda­lags­ins, en á þeim tíma voru hörm­ung­ar seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar enn í fersku minni og vax­andi spennu farið að gæta milli lýðræðis­ríkja í vestri og alræðis­ríkja und­ir ægi­valdi Sov­ét­ríkj­anna í austri. Mark­miðið var skýrt; að standa vörð um frið, frelsi og far­sæld á Norður-Atlants­hafs­svæðinu.

Í ræðu sinni við und­ir­rit­un­ina í Washingt­on lagði Bjarni áherslu á að með stofnaðild okk­ar skyldi það koma ótví­rætt fram að við til­heyrðum, og vild­um til­heyra, því sam­fé­lagi frjálsra þjóða sem þar var form­lega stofnað. Aðild­in var um­deild og þurfti bæði fram­sýni og djörf­ung til að taka af skarið. Hún hef­ur hins veg­ar reynst eitt­hvert mesta gæfu­spor okk­ar Íslend­inga í ör­ygg­is­mál­um og fáir eft­ir sem ef­ast um það í dag. Banda­lagið hef­ur eflst og vaxið alla tíð síðan og myndað hryggj­ar­stykkið í ör­ygg­is- og varn­ar­sam­vinnu vest­rænna lýðræðis­ríkja.

Norður­lönd­in sam­einuð

Aðeins tæp­ur mánuður er síðan fáni Svíþjóðar var dreg­inn að húni við höfuðstöðvarn­ar í Brus­sel, en at­höfn­in markaði sögu­leg tíma­mót fyr­ir Svíþjóð, banda­lagið og Norður­lönd­in öll. Finn­ar og Sví­ar hafa þannig snúið baki við rót­gró­inni stefnu um að standa utan varn­ar­banda­laga og gengið til liðs við okk­ur Íslend­inga, Dani og Norðmenn. Norður­lönd­in hafa stór­aukið sam­vinnu á sviði varn­ar­mála und­an­farið og við get­um nú þróað sam­starf okk­ar áfram á vett­vangi banda­lags­ins.

Sam­starf vina- og banda­lagsþjóða hef­ur sjald­an verið mik­il­væg­ara en um þess­ar mund­ir. Inn­rás Rúss­lands í Úkraínu er al­var­leg­asta ör­ygg­is­ógn Evr­ópu frá lok­um seinni heims­styrj­ald­ar. Inn­rás­in er bein at­laga að kerfi sem bygg­ist á virðingu fyr­ir alþjóðalög­um og friðhelgi landa­mæra, sem við Íslend­ing­ar bein­lín­is byggj­um full­veldi okk­ar á. Til að verj­ast slíkri inn­rás dug­ar ekki aðeins stuðning­ur í orði, hlý föt eða lækn­inga­tæki. Það þarf sömu­leiðis vopn, skot­færi og loft­varn­ir. Áfram­hald­andi ein­arður stuðning­ur við Úkraínu og efl­ing okk­ar eig­in varn­ar­getu eru al­gjör grund­vall­ar­atriði á kom­andi miss­er­um.

Leggj­um okk­ar af mörk­um

Allt frá ólög­legri inn­limun Rúss­lands á Krímskaga árið 2014 hafa banda­lags­rík­in unnið mark­visst að því að efla fæl­ing­ar- og varn­ar­getu til að tryggja ör­yggi eig­in borg­ara. Á það jafnt við gagn­vart hefðbundn­um hernaðarógn­um og marg­vís­leg­um fjölþátta­ógn­um. Rík­in hafa skuld­bundið sig til að auka bæði fram­lög til varn­ar­mála og þátt­töku í sam­eig­in­leg­um verk­efn­um.

Ísland mun ekki skor­ast und­an því að leggja sitt af mörk­um. Und­an­far­in ár höf­um við aukið fjár­veit­ing­ar til ör­ygg­is- og varn­ar­mála jafnt og þétt, og ég legg áherslu á að við höld­um áfram á þeirri braut af full­um þunga. Þýðing­ar­mesta fram­lag Íslands hef­ur helg­ast af legu lands­ins í miðju Norður-Atlants­hafi. Þannig styðjum við eft­ir­lit og viðbúnað banda­lags­ins með rekstri rat­sjár­kerfa og annarra varn­ar­innviða, auk gisti­ríkjaþjón­ustu fyr­ir liðsafla banda­lags­ríkja á ör­ygg­is­svæðinu í Kefla­vík – meðal ann­ars í tengsl­um við loft­rým­is­gæslu og varn­aræf­ing­ar. Þá hafa Íslend­ing­ar farið til borg­ara­legra starfa í tengsl­um við verk­efni banda­lags­ins og í höfuðstöðvum þess og her­stjórn­um.

Við höf­um sömu­leiðis tekið að okk­ur þjálf­un úkraínskra sjó­liðsfor­ingja, stutt við inn­kaup Tékk­lands á skot­fær­um fyr­ir Úkraínu og ráðist í ýmis verk­efni í krafti smæðar­inn­ar – þ. á m. her­gagna­flutn­inga og fær­an­legt neyðar­sjúkra­hús.

Sama hætt­an ógn­ar okk­ur öll­um

Á næstu árum þurf­um við Íslend­ing­ar að vera und­ir það búin að tak­ast á hend­ur aukn­ar skuld­bind­ing­ar inn­an Atlants­hafs­banda­lags­ins. Við mun­um halda áfram að byggja upp inn­lenda þekk­ingu og getu á sviði ör­ygg­is- og varn­ar­mála og leggja okk­ar af mörk­um til varn­ar­sam­starfs­ins af full­um krafti.

„Sama hætt­an ógn­ar okk­ur öll­um í þeim heimi sem við lif­um, þar sem fjar­lægðirn­ar eru horfn­ar, er það áreiðan­legt að annaðhvort njóta all­ir friðar – eða eng­inn.“

Þessi orð ut­an­rík­is­ráðherr­ans í Washingt­on vorið 1949 eiga jafn vel við í dag og þá, og er­indi banda­lags­ins hef­ur aldrei verið brýnna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. apríl 2024.


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  | Aðsetur: Kaupangi v/Mýrarveg  |  Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-Ak á facebook