Flýtilyklar
NATÓ í 75 ár - erindið aldrei brýnna
Í dag eru 75 ár síðan Bjarni Benediktsson undirritaði Atlantshafssáttmálann fyrir Íslands hönd þann 4. apríl 1949. Ísland var meðal tólf stofnríkja bandalagsins, en á þeim tíma voru hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar enn í fersku minni og vaxandi spennu farið að gæta milli lýðræðisríkja í vestri og alræðisríkja undir ægivaldi Sovétríkjanna í austri. Markmiðið var skýrt; að standa vörð um frið, frelsi og farsæld á Norður-Atlantshafssvæðinu.
Í ræðu sinni við undirritunina í Washington lagði Bjarni áherslu á að með stofnaðild okkar skyldi það koma ótvírætt fram að við tilheyrðum, og vildum tilheyra, því samfélagi frjálsra þjóða sem þar var formlega stofnað. Aðildin var umdeild og þurfti bæði framsýni og djörfung til að taka af skarið. Hún hefur hins vegar reynst eitthvert mesta gæfuspor okkar Íslendinga í öryggismálum og fáir eftir sem efast um það í dag. Bandalagið hefur eflst og vaxið alla tíð síðan og myndað hryggjarstykkið í öryggis- og varnarsamvinnu vestrænna lýðræðisríkja.
Norðurlöndin sameinuð
Aðeins tæpur mánuður er síðan fáni Svíþjóðar var dreginn að húni við höfuðstöðvarnar í Brussel, en athöfnin markaði söguleg tímamót fyrir Svíþjóð, bandalagið og Norðurlöndin öll. Finnar og Svíar hafa þannig snúið baki við rótgróinni stefnu um að standa utan varnarbandalaga og gengið til liðs við okkur Íslendinga, Dani og Norðmenn. Norðurlöndin hafa stóraukið samvinnu á sviði varnarmála undanfarið og við getum nú þróað samstarf okkar áfram á vettvangi bandalagsins.
Samstarf vina- og bandalagsþjóða hefur sjaldan verið mikilvægara en um þessar mundir. Innrás Rússlands í Úkraínu er alvarlegasta öryggisógn Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Innrásin er bein atlaga að kerfi sem byggist á virðingu fyrir alþjóðalögum og friðhelgi landamæra, sem við Íslendingar beinlínis byggjum fullveldi okkar á. Til að verjast slíkri innrás dugar ekki aðeins stuðningur í orði, hlý föt eða lækningatæki. Það þarf sömuleiðis vopn, skotfæri og loftvarnir. Áframhaldandi einarður stuðningur við Úkraínu og efling okkar eigin varnargetu eru algjör grundvallaratriði á komandi misserum.
Leggjum okkar af mörkum
Allt frá ólöglegri innlimun Rússlands á Krímskaga árið 2014 hafa bandalagsríkin unnið markvisst að því að efla fælingar- og varnargetu til að tryggja öryggi eigin borgara. Á það jafnt við gagnvart hefðbundnum hernaðarógnum og margvíslegum fjölþáttaógnum. Ríkin hafa skuldbundið sig til að auka bæði framlög til varnarmála og þátttöku í sameiginlegum verkefnum.
Ísland mun ekki skorast undan því að leggja sitt af mörkum. Undanfarin ár höfum við aukið fjárveitingar til öryggis- og varnarmála jafnt og þétt, og ég legg áherslu á að við höldum áfram á þeirri braut af fullum þunga. Þýðingarmesta framlag Íslands hefur helgast af legu landsins í miðju Norður-Atlantshafi. Þannig styðjum við eftirlit og viðbúnað bandalagsins með rekstri ratsjárkerfa og annarra varnarinnviða, auk gistiríkjaþjónustu fyrir liðsafla bandalagsríkja á öryggissvæðinu í Keflavík – meðal annars í tengslum við loftrýmisgæslu og varnaræfingar. Þá hafa Íslendingar farið til borgaralegra starfa í tengslum við verkefni bandalagsins og í höfuðstöðvum þess og herstjórnum.
Við höfum sömuleiðis tekið að okkur þjálfun úkraínskra sjóliðsforingja, stutt við innkaup Tékklands á skotfærum fyrir Úkraínu og ráðist í ýmis verkefni í krafti smæðarinnar – þ. á m. hergagnaflutninga og færanlegt neyðarsjúkrahús.
Sama hættan ógnar okkur öllum
Á næstu árum þurfum við Íslendingar að vera undir það búin að takast á hendur auknar skuldbindingar innan Atlantshafsbandalagsins. Við munum halda áfram að byggja upp innlenda þekkingu og getu á sviði öryggis- og varnarmála og leggja okkar af mörkum til varnarsamstarfsins af fullum krafti.
„Sama hættan ógnar okkur öllum í þeim heimi sem við lifum, þar sem fjarlægðirnar eru horfnar, er það áreiðanlegt að annaðhvort njóta allir friðar – eða enginn.“
Þessi orð utanríkisráðherrans í Washington vorið 1949 eiga jafn vel við í dag og þá, og erindi bandalagsins hefur aldrei verið brýnna.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. apríl 2024.