Flýtilyklar
Óboðleg vinnubrögð
Oddvitar Sjálfstæðisflokksins í 26 sveitarstjórnum:
Undirritaðir oddvitar Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnum fagna því að langtíma kjarasamningar hafi tekist fyrir stærstan hluta launafólks á almennum vinnumarkaði. Markmið kjarasamninga um minni verðbólgu, lægri vexti og stöðugleika eru góð og þau styðjum við.
Eftir gerð kjarasamnings hefur umfjöllun fjölmiðla að mestu snúist um gjaldfrjálsar skólamáltíðir sem komu óvænt í fang aðþrengdra sveitarfélaga. Meginkrafan á sveitarfélög hafði frá upphafi snúið að hóflegum gjaldskrárhækkunum, sem sveitarfélög hugðust öll bregðast við.
Það má ræða hugmyndina um gjaldfrjálsar skólamáltíðir og hvernig eigi að fjármagna þær. Samband íslenskra sveitarfélaga er vettvangur til þess. Fyrir rétt rúmum tveimur vikum, eða 26. febrúar, kynnti formaður Sambandsins fyrst hugmyndir um gjaldfrjálsar skólamáltíðir á fundi tæplega 50 sveitarstjóra, bæjarstjóra og borgarstjóra. Kom það flestum á fundinum í opna skjöldu að sveitarfélögin væru skyndilega orðin lykilbreyta í kjaraviðræðum á almennum vinnumarkaði og með þessum hætti.
Afstaða fulltrúa sveitarfélaga á þeim fundi var mjög skýr, andstaðan var nánast einróma og einskorðaðist ekki bara við Sjálfstæðisflokkinn. Enda lá fyrir að hér væri ráðskast með sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga er snýr að mikilvægri þjónustu, eins og skólamáltíðum.
Brún okkar sveitarstjórnarmanna þyngdist enn þegar í ljós kom að viðræður formannsins við ríkisvaldið hófust í upphafi árs og var framhaldið í lok janúar eða mánuði áður en sveitarstjórnarfólki var kynnt þessi hugmynd.
Þann 1. mars, var annar fundur með borgarstjóra, bæjarstjórum og sveitarstjórum og enn var mikil mótstaða meðal flestra sem tóku til máls. Stjórn sambandsins fundaði í kjölfarið og samþykkti eftirfarandi bókun:
„Stjórn Sambandsins óskar eftir því að ríkisvaldið leiti annarra leiða við að útfæra markmið um gjaldfrjálsar skólamáltíðir en beint í gegnum gjaldskrár sveitarfélaga. Stjórnin er reiðubúin til samtals um málið á breiðum grundvelli með það að leiðarljósi að tryggja barnafjölskyldum kjarabætur og velferð.“
Því var treyst að formaður myndi starfa samkvæmt eindregnum vilja sveitastjórna og bókun stjórnar og myndi upplýsa aðila vinnumarkaðarins og forsætisráðherra um afstöðuna með skýrum hætti. Ljóst er að svo var ekki.
Formaður Sambandsins lét síðan hafa eftir sér í fjölmiðlum að full sátt væri um þessa framkvæmd. Það er rangt.
Í dag hittast sveitarstjórnarfulltrúar af öllu landinu á ársþingi Sambandsins og þar er afar mikilvægt að formaðurinn skýri aðkomu sína að kjarasamningsgerð á almennum markaði.
Almar Guðmundsson - Garðabæ
Anton Kári Halldórsson - Rangárþingi eystra
Ásdís Kristjánsdóttir - Kópavogi
Ásgeir Sveinsson - Mosfellsbæ
Berglind Harpa Svavarsdóttir - Múlaþingi
Björn Haraldur Hilmarsson - Snæfellsbæ
Björn Guðmundur Sæbjörnsson - Vogum
Bragi Bjarnason - Árborg
Einar Jón Pálsson - Suðurnesjabæ
Eyþór Harðarson - Vestmannaeyjum
Friðrik Sigurbjörnsson - Hveragerði
Gauti Árnason - Höfn í Hornafirði
Gísli Sigurðsson - Skagafirði
Gestur Þór Kristjánsson - Ölfusi
Guðmundur Haukur Jakobsson - Húnabyggð
Hafrún Olgeirsdóttir - Norðurþingi
Heimir Örn Árnason - Akureyri
Hildur Björnsdóttir - Reykjavík
Ingvar Pétur Guðbjörnsson - Rangárþingi ytra
Jóhann Birkir Helgason - Ísafjarðarbæ
Jón Bjarnason - Hrunamannahreppi
Margrét Ólöf A Sanders - Reykjanesbæ
Ragnar Sigurðsson - Fjarðabyggð
Rósa Guðbjartsdóttir - Hafnarfirði
Sveinn Hreiðar Jensson - Skaftárhreppi
Þór Sigurgeirsson, Seltjarnarnesi
Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. mars 2024.