Séreignarsparnaðarleið Sjálfstæðisflokksins

Ég man vel eft­ir kosn­inga­bar­átt­unni fyr­ir alþing­is­kosn­ing­ar árið 2013. Ég var þá í 9. sæti á lista Sjálf­stæðis­flokks­ins í NA-kjör­dæmi en tók virk­an þátt. Í fe­brú­ar þetta sama ár hafði 41. lands­fund­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins verið hald­inn, þar sem m.a. var ályktað um nýja leið til að lækka skuld­ir heim­il­anna:

„Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn vill beita nýrri leið með því að veita sér­stak­an skatta­afslátt vegna af­borg­ana af lán­um til eig­in íbúðar­kaupa og nýta skatt­kerfið til að lækka hús­næðislán heim­il­anna. Nú er skatta­afslátt­ur veitt­ur til að leggja fyr­ir í sér­eign­ar­sparnað. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn vill að ein­stak­ling­ar hafi val um að greiða frek­ar inn á hús­næðislán­in sín og njóta þessa sama af­slátt­ar og lækka þannig höfuðstól lán­anna og framtíðar­vaxta­kostnað heim­il­anna.“

Mik­il­vægt skref fyr­ir heim­il­in

Þetta var eitt af stóru mál­un­um í kosn­inga­bar­átt­unni. Mál sem á ræt­ur sín­ar að rekja til lands­fund­ar þar sem á annað þúsund sjálf­stæðis­menn komu sam­an til þess að móta kosn­inga­stefnu, eft­ir kjör­tíma­bil í minni­hluta. Þetta atriði úr stefn­unni rataði inn í stjórn­arsátt­mála og var frum­varp fjár­málaráðherra um sér­eign­ar­sparnað og ráðstöf­un hans til greiðslu hús­næðislána og hús­næðis­sparnaðar samþykkt á Alþingi í maí 2014. Það voru mik­il­væg skref í átt að því að stuðla að fjár­hags­legri vel­ferð ís­lenskra heim­ila. Þetta úrræði var tíma­bundið og hannað til að létta á skulda­byrði heim­ila og auðvelda ungu fólki að eign­ast íbúðar­hús­næði. Í októ­ber 2016 var frum­varp fjár­málaráðherra um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð samþykkt og fyrra úrræðið fram­lengt. Á fyrsta kjör­tíma­bil­inu eft­ir vinstri stjórn­ina tryggði Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn að þessi hug­mynd yrði að veru­leika. Úrræðið hef­ur verið fram­lengt hingað til en nú birt­ist það okk­ur í fjár­laga­frum­varp­inu að ekki standi til að fram­lengja það á ný. Það eru von­brigði og ég mun beita mér fyr­ir því að þessi lausn okk­ar sjálf­stæðismanna renni ekki sitt skeið.

Skyn­sam­leg leið

Í ræðu minni við fyrstu umræðu fjár­laga sagði ég:

„Herra for­seti. Mig lang­ar einnig að ræða hér annað mál sem stend­ur mér nærri. Það er sér­eign­ar­sparnaðarleiðin svo­kallaða þar sem við leyf­um fólki að nota sér­eign­ar­sparnaðinn sinn til að greiða niður hús­næðislán. Það er oft talað um að hafa ekki öll egg­in sín í sömu körfu. Að lok­inni starfsævi er mik­il­vægt að eiga ekki bara líf­eyr­is­sparnað. Það er gott að eiga sitt hús­næði. Það er enn þá betra ef maður hef­ur einnig fjár­fest í hluta- eða skulda­bréf­um og er þannig með þrjár körf­ur. Það er skyn­sam­legt að leyfa fólki að nýta sér­eign­ar­sparnaðinn áfram til að borga inn á hús­næðislán­in. Við höf­um fyrstu fast­eign sem eng­in áform eru um að breyta en þeir sem hafa fengið að nýta þessa leið und­an­farið ættu að fá a.m.k. tíu ár líkt og þeir sem kaupa fyrstu fast­eign. Við get­um einnig rætt að lengja í báðum úrræðum en ég tel ekki skyn­sam­legt að láta úrræðið renna sitt skeið.“

Úrræðið hef­ur hjálpað fólki að greiða lægri vexti, létt á skulda­byrði heim­ila og aukið eigna­mynd­un. Þetta var sér­stak­lega mik­il­vægt á ár­un­um eft­ir hrun en er enn mik­il­vægt í dag. Sam­hliða þessu verður auðvitað, fyr­ir nýja kaup­end­ur, að tryggja aukið fram­boð því oft er sagt að úrræðið sé eft­ir­spurn­ar­hvetj­andi. Það er rétt fyr­ir þann hóp sem ekki á fast­eign, en þeir sem eiga nú þegar fast­eign og nýta sér úrræðið skapa ekki eft­ir­spurn­aráhrif. Sá hóp­ur bæt­ir eig­in skulda­stöðu og stuðlar að betri skulda­stöðu heim­il­anna – sem er í sögu­legu lág­marki. Í þess­ari umræðu má ekki gleym­ast að tæp 80% fjöl­skyldna á Íslandi búa í eig­in hús­næði skv. Hag­stof­unni.

Sér­eign­ar­sparnaðarleiðin á að lifa

Ég mun sem formaður fjár­laga­nefnd­ar beita mér fyr­ir því að sér­eign­ar­sparnaðarleiðin verði áfram, í nú­ver­andi mynd eða breyttri mynd. Ég nefndi í ræðu minni að mér þyki að all­ir eigi a.m.k. að fá tíu ár. Einnig væri vert að skoða hvort tím­inn mætti vera lengri, þó að skatta­afslátt­ur­inn yrði bund­inn við tíu ár. Úrræðið var vel ígrundað og hef­ur verið gagn­legt fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag. Það er ekki sniðugt að hætta því sem virk­ar vel fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag og styrk­ir enn frek­ar fjár­hags­legt sjálf­stæði borg­ar­anna.

Njáll Trausti Friðbertsson
oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og formaður fjárlaganefndar


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri | Geislagötu 5 | Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson | XD-AK | XD-Norðaustur