Stjórnarslit - tækifærin í nýrri pólitískri stöðu

Góðir sjálfstæðismenn, kæru vinir.

Að vel ígrunduðu máli tilkynnti ég í dag að ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna væri komið að leiðarlokum. Eftir samtöl við formenn samstarfsflokka okkar um stöðu ríkisstjórnarinnar er það mitt mat að frekara samstarf muni ekki skila árangri. Á morgun mun ég leggja til við forseta Íslands að þing verði rofið og boðað til alþingiskosninga í lok nóvember.

Ríkisstjórnarstarfið var endurnýjað undir forystu Sjálfstæðisflokksins í vor með skýr markmið og það hefur um margt gengið vel. Verðbólga hefur ekki mælst minni í þrjú ár og vaxtalækkunarferlið er hafið. Með breyttum útlendingalögum og styrkari löggæslu höfum við gjörbreytt stöðunni á landamærum Íslands, þar sem hælisumsóknum hefur fækkað um meira en helming. Í orkumálum hefur mörgum hindrunum verið rutt úr vegi.

Við höfum lagt grunn að góðri stöðu en áframhaldandi árangur er ávallt forsenda ríkisstjórnarsamstarfs af hálfu okkar sjálfstæðismanna. Stöðugleiki er ekki það sama og stöðnun. Það er til lítils að búa við vinnufrið ef vinnan sjálf er ekki til þess fallin að stuðla að frekari framförum. Undanfarið hef ég fundið fyrir áhyggjum ykkar af stöðu mála, of miklum málamiðlunum og takmarkaðri trú á að stefnumál okkar fái frekari framgang í vetur. Þetta ber mér skylda til að taka alvarlega.

Ríkisstjórn verður að geta sammælst um trausta forystu í stærstu málum hvers tíma. Málamiðlanir hafa ávallt verið eðlilegur hluti þess að sitja við stjórnvölinn, enda aldrei einn flokkur farið með stjórn landsins. Á því eru hins vegar mörk í hve miklum mæli má miðla málum.

Ég lít svo á að ég væri að bregðast sjálfum mér, flokksmönnum og landsmönnum öllum með því að þykjast geta áfram leitt ríkisstjórnina og þannig klárað verkefni sem við höfum haft á dagskrá, en ég sé ekki fram á að við náum niðurstöðu um. Þess vegna taldi ég að lokum ekki annan kost í stöðunni en að leggja framhaldið í dóm kjósenda, þar sem við munum tala fyrir þeirri stefnu sem skilað hefur íslensku samfélagi mestum árangri í áranna rás.

Við vitum að tækifærin á Íslandi eru óþrjótandi. Við erum stórhuga, rík af auðlindum, hugmyndum og hæfileikaríku fólki. Það er full ástæða til að horfa björtum augum til komandi ára.

Tryggja þarf áframhaldandi aðhald í ríkisfjármálum til að verðbólga og vextir haldi áfram að lækka. Styrkja þarf landamærin enn frekar. Stórauka þarf græna orkuframleiðslu. Setja þarf skýran ramma um nýjar og vaxandi greinar, þar sem atvinna og afkoma heilu samfélaganna er undir. Við höfum tækifæri til að stórauka verðmætasköpun og hagsæld í landinu, við megum ekki láta þau úr greipum ganga. Auka þarf frelsi fólks í leik og starfi og hverfa frá þeirri hugsanavillu að ríkisstarfsmenn einir geti veitt tiltekna þjónustu eða afgreitt löglegar neysluvörur. Áfram mætti lengi telja.

Kæru samherjar og vinir,

Enginn stjórnmálaflokkur hefur haft meiri áhrif á mótun íslensks samfélags en Sjálfstæðisflokkurinn. Frelsi og ábyrgð einstaklingsins, mannréttindi og jafnræði eru hornsteinar stefnunnar. Barátta fyrir atvinnufrelsi og öflugu velferðarkerfi hefur verið rauður þráður í öllu starfi flokksins.

Á grunni þessara hugsjóna hefur tekist að byggja hér eitt mesta velmegunarríki heims. Það er skylda okkar að byggja áfram á sömu hugsjónum, sömu gildum og stuðla að stórstígum framförum fyrir komandi kynslóðir.

Við skulum þétta raðirnar og blása til sóknar. Framundan er hörð og snörp kosningabarátta. Valkostirnir eru skýrir. Annars vegar vinstri stjórn, stóraukin útgjöld, sóun sameiginlegra fjármuna, hærri skattar og aukin skuldsetning. Hins vegar öflugur Sjálfstæðisflokkur sem getur leitt þjóðina inn í nýja tíma framfara og bættra lífskjara með frelsi einstaklingsins og athafnafrelsi að leiðarljósi.

Leggjumst öll á árarnar og tökum þátt í baráttunni á næstu vikum. Vinnum flokknum og stefnunni fylgi og leggjum grunn að enn betra og öflugra samfélagi.

Með vinda sjálfstæðisstefnunnar í seglum eru möguleikar okkar Íslendinga meiri og betri en flestra annarra þjóða.


Bjarni Benediktsson
forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri | Geislagötu 5 | Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson | XD-AK | XD-Norðaustur