Flýtilyklar
Til fundar við fólk um land allt
Í dag heldur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins til fundar við landsmenn. Fimmta árið í röð fer þingflokkurinn í hringferð og hittir fólk í sinni heimabyggð, á stórum jafnt sem smáum fundum á vinnustöðum, félagsheimilum og í heimahúsum um land allt.
Við erum afar stolt af þessu framtaki. Enginn annar þingflokkur getur státað af því að fara í heild sinni til fundar við fólkið í landinu, ekki bara fyrir kosningar – heldur ár hvert. Flokkurinn sýnir það í verki að hann hefur allt frá stofnun verið flokkur allrar þjóðarinnar, allra stétta og allra landshluta og þannig verður hann áfram.
Hringferðirnar eru gefandi fyrir þingmenn og starfsfólk flokksins og hópnum vel tekið hvar sem hann kemur. Það er enda ómetanlegt að eiga beint og milliliðalaust samtal við fólk í sinni heimabyggð og skilja þannig hvað brennur á íbúum á hverjum stað. Með þessu náum við jafnframt enn betri tengslum við sveitarstjórnarfólk og trúnaðarmenn flokksins vítt og breitt um landið. Við þingmenn og ráðherrar erum í vinnu fyrir landsmenn, ekki öfugt, og okkur gengur best að rækja það starf þegar við heyrum beint frá fólki hvað skiptir það mestu máli. Það skiptir ekki síst máli nú á tímum stöðugt hraðari samskipta, að setjast niður með kaffibolla og ræða við fólk, augliti til auglitis
Í fyrstu lotu hringferðar næstu vikuna hefjum við ferðalagið í Reykjavík, heimsækjum Vesturland og keyrum svo hringveginn norður og austur fyrir í einni lotu. Í apríl höldum við svo í seinni lotuna, þar sem við heimsækjum Vestfirði, Vestmannaeyjar og höfuðborgarsvæðið.
Við hlökkum til ferðarinnar fram undan og vonum að sem flestir sjái sér fært að koma til móts við okkur einhvers staðar á leiðinni, en dagskrá ferðarinnar má nálgast á xd.is. Þannig styrkjum við tengslin og bætum um leið störf okkar sem kjörin höfum verið til starfa á Alþingi í þágu sjálfstæðisstefnunnar.
Sjáumst í hringferð Sjálfstæðisflokksins.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. febrúar 2023.