Tilefni til að afnema ríkiseinokun

Í vikunni ræddum við á Alþingi frumvarp mennta- og barnamálaráðherra um hina nýju stofnun, Mennta- og skólaþjónustustofu, og niðurlagningu Menntamálastofnunar.

Samkvæmt frumvarpinu tekur ný Mennta- og skólaþjónustustofa við ýmsum verkefnum Menntamálastofnunar og mun þar með fara með útgáfu námsgagna. Þrátt fyrir ýmsar breytingar á lögum um námsgögn og útfærslur á þeim ríkisstofnunum sem halda utan um útgáfu námsgagna hefur fyrirkomulag námsgagnaútgáfu haldist nánast óbreytt frá árinu 1980.

Framkvæmdin breytist ekki hvort sem heitið er Námsgagnastofnun, Menntamálastofnun eða nú nýjast Mennta- og skólaþjónustustofa. Þó hafa vissulega komið á þessum tíma mikilvægar viðbætur, eins og námsgagnasjóður og þróunarsjóður námsgagna. Í framkvæmd afhendir stofnunin námsgögn, sem hún semur og annast útgáfu á, til grunnskólanna endurgjaldslaust. Skólarnir nýta ekki takmarkaða fjármuni sína til kaupa á námsgögnum á frjálsum markaði þegar ríkið afhendir þau endurgjaldslaust.

Hornsteinn í bókaútgáfu

Alþjóðlegur samanburður á námsgagnaútgáfu sýnir að við erum langt frá því að vera sambærileg nágrannalöndum okkar. Þar er útgáfa námsgagna hornsteinn í rekstri bókaútgefenda og skiptir sköpum fyrir bókamarkaðinn í heild. Á Íslandi er sagan önnur og eiga bókaútgefendur lítið færi á því að komast inn á markaðinn.

Íslenskir bókaútgefendur hafa lýst sig reiðubúna að koma inn á þennan markað á grunnskólastigi en eru flestir nú þegar að gefa út námsgögn á framhaldsskólastigi. Þeim rökum um smæð markaðarins, sem hið opinbera notar óspart gegn aukinni aðkomu almennra bókaútgefenda að námsgagnaútgáfu, svara íslenskir bókaútgefendur þannig að lýsa ítrekað yfir áhuga á að koma að útgáfu námsgagna á grunnskólastigi. Það er tímabært að við á Alþingi hlustum eftir því og bregðumst við.

Skyldu bókaútgefendur ekki vilja fara í útgáfu á gögnum í þeim námsgreinum sem fáir nemendur læra er okkur einfalt að setja þá reglu að sú ríkisstofnun sem heldur utan um námsgagnaframboð á öllum skólastigum skuli einnig sjá til þess að námsefni sé fyrir hendi í öllum námsgreinum og að gæði námsefnis séu tryggð.

Standa gæði náms í stað?

Reglulega berast fréttir af hrakandi námsfærni barna í íslensku samfélagi. Eðlilegt er að spyrja sig hvort tenging sé á milli þess og þess fyrirkomulags sem er á útgáfu námsgagna. Eins er eðlilegt að velta fyrir sér hvort ríkið haldi aftur af framförum í stafrænni byltingu í námsgagnagerð.

Fjölgun nemenda með annað móðurmál en íslensku

Nemendum sem hafa erlent tungumál að móðurmáli hefur fjölgað ár frá ári. Haustið 2022 höfðu 6.570 grunnskólanemendur annað tungumál en íslensku að móðurmáli, eða 13,9% nemenda, sem er fjölgun um 760 nemendur frá árinu áður.

Námsgögn endurspegla ekki þann fjölda barna sem eru með annað móðurmál en íslensku. Það er ólíðandi að ekki sé brugðist við og að kennarar séu að eyða dýrmætum tíma sínum í að útbúa gögnin sjálfir. Núverandi fyrirkomulag er of seinvirkt.

Afnemum ríkiseinokun

Grunnskólakennarar gera kröfu um meiri fjölbreytni í vali á námsgögnum en hafa í raun afar takmarkað val um önnur gögn en þau sem ríkisstofnunin hefur á boðstólum, en stofnunin hefur veitt skólunum færi á að nýta hluta fjárveitingar sinnar til kaupa á öðru námsefni en því sem stofnunin framleiðir í gegnum námsgagnasjóð. En sá hluti er afar lítill.

Nú er verið að gera veigamiklar breytingar á þeirri stofnun sem fer með útgáfu námsgagna og er tækifærið því til breytinga á útgáfustarfseminni núna, ekki þegar lengra er liðið og ný stofnun farin að vinna eftir sömu forskrift og áður.

Afnemum einokun ríkisins á útgáfu námsgagna, menntun barnanna okkar til heilla.


Berglind Ósk Guðmundsdóttir

alþingismaður


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  | Aðsetur: Kaupangi v/Mýrarveg  |  Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-Ak á facebook