Tímamót

Tímamót munu eiga sér stað í sögu Sjálfstæðisflokksins á næsta landsfundi þegar nýr formaður verður kjörinn í stað Bjarna Benediktssonar sem hefur gegnt embættinu lengur en nokkur annar í sögu flokksins að Ólafi Thors undanskildum. Forysta Bjarna og leiðtogahæfileikar hans hafa skipt máli á viðburðaríkum og krefjandi tímum.

Sagan mun dæma stjórnmálaferil og stórar ákvarðanir hans í gegnum árin á annan og dýpri hátt en umræðan er frá degi til dags. Sagan mun sýna hvaða árangri þjónusta hans og skuldbinding í þágu samfélagsins skilaði. Bjarni er hlýr, lífsglaður, greindur, þolinmóður og skynsamur. Hann er ósérhlífinn og mun minna upptekinn af sjálfum sér en margir virðast vera af honum. Ég þakka honum fyrir forystuna, þrautseigjuna, vináttuna og traustið í bráðum 12 ár.

Kjölfesta í íslensku samfélagi

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið kjölfestan í íslensku stjórnmálalífi frá stofnun hans. Hann hefur verið aflvaki framfara og breytinga þegar íslenskt samfélag hefur þurft að losna úr viðjum kyrrstöðu og doða; en hann hefur líka verið áreiðanlegur hornsteinn stöðugleika og yfirvegunar gegn lýðskrumi og ofstopa þegar á því hefur þurft að halda.

Það eru miklir skruðningar í stjórnmálum lýðræðisríkja. Það er efni í lengri skrif en minn fasti dálkur hér leyfir en það er víða sem undirliggjandi óróleiki, upplýsingaóreiða, reiði, hræðsla og skautun birtist okkur. Ég hef orðað þetta oft í ræðu og riti en hraðinn nú er meiri og skrefin stærri. Við skulum ekki halda að sama þróun finni ekki fótfestu á Íslandi en við skulum líka minna okkur á og vita það sem er, að við getum komið í veg fyrir að við förum sömu leið og ýmis ríki eru nú að feta.

Við höfum alla burði til þess með okkar samfélagsgerð, lífsgæði, traust og samheldni. En við þurfum þá öll að vanda okkur; stjórnmálin, almenningur, fjölmiðlar og aðrir áhrifavaldar í umræðunni.

Þar skiptir vitaskuld miklu máli að Sjálfstæðisflokkurinn haldi áfram að hafa nægilegt traust á grundvallargildum og sögu flokksins til þess að halda sínu striki, veita leiðsögn og forystu, en falla ekki í þann pytt að eltast við tímabundnar geðshræringar í von um stundarfylgi. Í þessu tilliti má minnast þess að fráfarandi formaður hefur oft verið gagnrýndur fyrir sína yfirveguðu og hófstilltu nálgun á málefni þar sem upphrópanir og skætingur hefðu kannski skilað tímabundnum ábata í fylgiskönnunum.

Alvöru stjórnarandstaða

Hlutverk Sjálfstæðisflokksins í stjórnarandstöðu verður fyrst og fremst að veita málefnalegt aðhald og jafnframt vinna uppbyggilega að því að efla stuðning við þá víðsýnu og þjóðlegu framfarastefnu sem hefur verið leiðarstef í starfi flokksins frá fyrstu dögum. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki þannig flokkur að hann geti firrt sig ábyrgð í stjórnarandstöðu eða talað af kæruleysi og skætingi.

Við horfum fram á verulega hættu á upplausn og alvarlega þróun í alþjóðamálum þar sem Íslendingar þurfa að vanda sig í hverju skrefi. Þessi atriði eru mínar stærstu áhyggjur gagnvart samfélagi okkar og nærumhverfi. Við slíkar aðstæður ber Sjálfstæðisflokkurinn ábyrgð, hvort sem hann er við stjórnartaumana eða í því hlutverki að veita aðhald og afla skoðunum sínum fylgis fyrir næstu kosningar.

Pólitíkin virðist stundum líkjast helst kappleik eða leikhúsi. Umræða um persónur, leikendur og valdapólitík er gjarnan mun meira áberandi en hin raunverulega ábyrgð sem allir stjórnmálamenn, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, þurfa að axla. Ábyrgðin er að setja ætíð hagsmuni Íslands ofar öllu í ákvörðunum, umfram eigin hagsmuni eða flokks síns.

Stjórnmálaflokkar hafa allir þann tilgang að sameina krafta fólks í þágu þjóðarinnar allrar á grundvelli tiltekinna hugmynda, þeir eru tæki og tól sem er ætlað að þjóna tilgangi, en eru ekki tilgangurinn sjálfur.

Ný forysta og endurnýjun

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að þroskast og þróast í takt við tímann og svara kalli hans. Það eru spennandi tímar fram undan fyrir Sjálfstæðisflokkinn og fólk sem aðhyllist hugmyndafræðina og gildin sem flokkurinn byggir á.

Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn getur ekki búið lengi við þá stöðu að hafa uppi óvissu um forystu. Þess vegna tel ég rétt að landsfundur Sjálfstæðisflokksins verði haldinn um mánaðamótin febrúar/mars eins og búið var að ákveða. Þá mun flokkurinn ákveða hvaða eiginleikar í fari stjórnmálamanns teljast mikilvægastir um þessar mundir til þess að Sjálfstæðisflokkurinn geti sinnt hlutverki sínu á næstu árum – og vaxið, þroskast og dafnað.


Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir
varaformaður Sjálfstæðisflokksins

 

Morgunblaðið, 11. janúar, 2025.


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  | Aðsetur: Kaupangi v/Mýrarveg  |  Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-Ak á facebook