Um verðbólgu og ríkisfjármál

Verðbólga er enn of mikil. Um það verður ekki deilt. Þó það sé lögum samkvæmt í verkahring Seðlabanka Íslands að stuðla að verðstöðugleika leika ríkisfjármál vitanlega stórt hlutverk. Í umræðunni um verðbólguna hefur því þó verið fleygt fram að ríkisfjármálin séu helsti orsakavaldur hennar um þessar mundir og talað um „gegndarlaus ríkisútgjöld“ í því samhengi.

Þeir sem vilja vinna málstaðnum gagn þurfa að byggja staðhæfingar sínar á traustum grunni. Ólíkt þeim sem starfa nú í stjórnarandstöðu hafa greinendur komist að þeirri niðurstöðu að peningastefna og ríkisfjármálastefna hafi að undanförnu gengið í takt í átt að verðstöðugleika.

Í nýju áliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kom fram að aðhaldsstig ríkisfjármála væri hæfilegt og að samhæft aðhald peningastefnu og ríkisfjármálastefnu hefði stuðlað að minnkandi verðbólguþrýstingi. Í Peningamálum Seðlabankans kemur fram að aðhaldsstig ríkisfjármála muni að líkindum aukast um 2% af landsframleiðslu í ár og ½% til viðbótar á næsta ári. Þetta er skýr vitnisburður um markmið og framlag ríkisstjórnarinnar í baráttunni við verðbólgu.

Útgjöld ríkissjóðs

Í heimsfaraldrinum töpuðust 20 þúsund störf, sem var meginástæða mikils halla á ríkissjóði sem fylgdi. Deila má um hvort of langt hafi verið gengið í stuðningsaðgerðum við heimili og fyrirtæki, hjá ríkissjóði jafnt sem Seðlabankanum, og hve mikinn þátt sá stuðningur hefur átt í þenslunni að undanförnu.

Fyrir lá allt frá upphafi að af þeim hlytist fórnarkostnaður, sem m.a. kann að hafa birst í tímabundið aukinni verðbólgu. En ekki er hægt að segja annað en að markmiðinu um kröftuga viðspyrnu efnahagslífsins hafi verið náð, raunar miklu hraðar en nokkur þorði að vona – eins og atvinnustig og hagvöxtur síðustu ára er til vitnis um.

Lítum okkur nær í tíma. Sú óvænta útgjaldaaukning sem hefur átt sér stað að undanförnu er fyrst og fremst tengd aðgerðum vegna eldsumbrota á Reykjanesskaga. Þegar heimabær á fjórða þúsund landsmanna, öflugt samfélag þar sem fólk hefur notið þess að búa, starfa og alast upp, verður fyrir áfalli – þá stendur Ísland allt með bæjarbúum. Við ákváðum frá upphafi að gera meira en minna, tryggja öryggi fólks og fyrirsjáanleika eftir fremsta megni, með trú á samfélagið í Grindavík að leiðarljósi. Sú leið og tilheyrandi útgjöld hefur verið studd einróma á Alþingi.

Þá var ákveðið að ráðast í aðgerðir í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði til að styðja sérstaklega við þá hópa sem verst stæðu vegna verðbólgu og vaxtastigs. Þessar aðgerðir eru tímabundnar og verða fjármagnaðar með forgangsröðun annarra verkefna ríkissjóðs.

Staða ríkisfjármála

Þrátt fyrir áskoranir síðustu ára er óumdeilt að staða ríkissjóðs og íslensks efnahagslífs er góð í sögulegum og alþjóðlegum samanburði. Skuldahlutfall ríkissjóðs er lágt og lánshæfiseinkunn góð. Atvinnustig er hátt og atvinnuþátttaka mikil. Efnahagslífið byggir á sífellt fjölbreyttari stoðum og kaupmáttur launa hefur farið vaxandi.

Engu af því sem hér er skrifað er þó ætlað að færa rök fyrir því að ekki megi ná betri árangri í ríkisfjármálum. Það eru ávallt tækifæri til umbóta. Hlutverk ríkisins er víða of umfangsmikið og stöðugt þarf að leita leiða til hagræðingar og skilvirkari nýtingar á almannafé. Að því hef ég unnið allan minn stjórnmálaferil og er enn að. Stafvæðing stjórnsýslunnar, sameiningar stofnana, stóraukið gagnsæi í ríkifjármálum og álagningu opinberra gjalda, hvatar til að styðja almannaheillastarfsemi án milligöngu ríkisins, lækkun skatta auk afnáms tolla og vörugjalda eru fáein dæmi af mörgum.

Orsakir verðbólgu

Verðbólgan hefur gengið hægar niður en æskilegt er og þar af leiðandi er vaxtastigið hærra en við eigum að sætta okkur við til lengdar. Ekki má þó gleyma þeim árangri sem náðst hefur. Á 18 mánuðum hefur verðbólga minnkað um 4 prósentustig og verðbólga án húsnæðis hefur minnkað um nær 5 prósentur. Nú sem fyrr skiptir þáttur húsnæðisverðs miklu máli fyrir þróun verðbólgunnar. Í mínum huga er forgangsmál að styðja áfram við aukið framboð íbúða. Það eitt dugar þó ekki til, enda leika sveitarfélögin lykilhlutverk við að tryggja nægt framboð lóða.

Huga þarf að fleiri þáttum. Ein afleiðing aukinna efnahagsumsvifa undanfarin ár er sú að laun hafa hækkað verulega og launaskrið (hækkanir umfram kjarasamninga) verið töluvert. Þessu verðum við að ná betri stjórn á, ella er hætta á að við sitjum uppi með of mikla verðbólgu til lengri tíma. Það er útilokað að hér á landi sé hægt að hafa launaþróun í allt öðrum takti en í nágrannalöndum, en á sama tíma sambærilega verðbólgu og vexti.

Að öðru leyti hafa verið skýr merki þess að hægt hafi á efnahagsumsvifum í átt að betra jafnvægi, meðal annars vegna aukins aðhalds ríkisfjármála síðustu misseri.

Það er forgangsmál ríkisstjórnarinnar að styðja við áframhaldandi hjöðnun verðbólgunnar. Hratt batnandi afkoma ríkissjóðs er til vitnis um að það gengur vel og framar væntingum.

Við munum halda áfram á sömu braut, enda eru lægri verðbólga og vextir langstærsta hagsmunamál íslenskra heimila og fyrirtækja í dag.

Bjarni Benediktsson
formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra

Pistillinn birtist á facebook-síðu Bjarna 17. ágúst 2024.


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  | Aðsetur: Kaupangi v/Mýrarveg  |  Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-Ak á facebook