Við áramót

Ágætu Sjálfstæðismenn og allir landsmenn

Við áramót er venja að minnast atburða liðins árs ásamt því að velta upp möguleikum á komandi árum. Það eru aldeilis spennandi tímar framundan í bæjarpólítíkinni á Akureyri.

Við erum afskaplega stolt af því að Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri sé hluti af meirihluta samstarfi í fyrsta skipti síðan árið 2006. Á Akureyri er flokkurinn okkar með einvala lið af reynslumiklu fólki í bland við einstaklinga sem eru að taka sín fyrstu skref í pólítík.

Það er óhætt að segja að þetta ár hefur verið risastórt fyrir mig sem oddviti á Akureyri í stærsta stjórnmálaflokki á landinu. Árið byrjaði með prófkjöri í maí þar sem baráttan var málefnaleg og kröftug. Í kjölfarið var settur saman listi með 22 öflugum einstaklingum, körlum og konum víða að úr samfélaginu.

Í sveitarstjórnarkosningum í maí vorum við hársbreidd frá því að ná okkar markmiðum þ.e.a.s. að ná þremur mönnum inn í bæjarstjórn en því miður þá vantaði okkur 65 atkvæði þar upp á.

Með ótal mörgum samtölum við bæjarbúa og starfsmenn Akureyrarbæjar finnum við að fólk er almennt ánægt með áherslur meirihlutans og ég efast ekki um að með góðri og metnaðarfullri vinnu munum við skila góðu verki sem meirihluti á þessum fjórum árum.

Í haust var einnig haldið landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga og fékk ég þann heiður að vera þingforseti á þessari glæsilegu samkomu sem fór fram í Hofi á Akureyri. Stuttu síðar var síðan fjármálaráðstefna Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem eitt aðal málið var meiri aðkoma ríkisins að málaflokki fatlaðs fólks og er það málefni komið í ágætis farveg með góðu samtali við þingmenn.

Að lokum þá má ekki gleyma frábærum landsfundi okkar Sjálfstæðismanna sem haldinn var í Laugardalshöll þann 4.-6. nóvember sl. Það er óhætt að segja að landsfundur hafi svo sannarlega staðið undir væntingum og öll samtölin við sveitarstjórnarfólk, þingmenn og hinn almenna Sjálfstæðismann eru ógleymanleg.

Ég ber oft pólítík saman við íþróttir þar sem sjálfboðaliðinn er einn mikilvægasti leikmaður liðsins. Á Akureyri er fólk sem fórnar gríðarlega miklum tíma fyrir Sjálfstæðisflokkinn og án þeirra væri flokkurinn ekki á þeim stað sem hann er í dag.

Að lokum vil ég þakka öllum fyrir ánægjulegt og gott samstarf með bestu óskum um gleðiríkt og ánægjulegt nýtt ár.

 

Kær kveðja,

Heimir Örn Árnason
forseti bæjarstjórnar og formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  | Aðsetur: Kaupangi v/Mýrarveg  |  Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-Ak á facebook