Sterkari sveitir eru allra hagur

Reglu­lega kem­ur upp umræða um jarðir, jarðaviðskipti og kyn­slóðaskipti í land­búnaði. Í rit­inu Rækt­um Ísland, skýrslu Björns Bjarna­son­ar og Hlé­dís­ar Sveins­dótt­ur, eru efn­inu gerð verðug skil. Þá hafa þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins ít­rekað flutt frum­vörp um ýms­ar aðgerðir til að auðvelda ættliðaskipti á bújörðum.

Full­veldið er í húfi

Of lít­il umræða hef­ur verið um skýrslu um jarðir, sem stýri­hóp­ur á veg­um Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra skilaði 2021. Skýrsl­an tek­ur á mik­il­vægu úr­lausn­ar­efni þar sem mikið verk er enn óunnið til að lög, regl­ur og stjórn­sýsla falli að nú­tím­an­um og breytt­um aðstæðum og viðhorf­um til lands og þeirra gæða sem í því fel­ast. Þegar skýrsl­an er rýnd vek­ur at­hygli að virðing fyr­ir eign­ar­rétti bænda og viðhorf til jarðaviðskipta eru vanþróuð hér á landi.

Í skýrsl­unni seg­ir: „Alþjóðleg reynsla hef­ur sýnt að rík ástæða er til að gjalda var­hug við mik­illi samþjöpp­un eign­ar­halds á landi. Land er enda und­ir­staða full­veld­is ríkja og telst það til grund­vall­ar­gæða hvers sam­fé­lags. Íslenskt land er sér­stak­lega verðmætt enda geym­ir það víðast hvar gnægð af þjóðfé­lags­lega mik­il­væg­um nátt­úru­auðlind­um und­ir og á yf­ir­borði jarðar, þar á meðal jarðhita-, vatns- og veiðirétt­ind­um.

Eru þá ótal­in þau miklu sam­fé­lags­legu og menn­ing­ar­legu verðmæti sem fel­ast í nátt­úru lands­ins og nátt­úru- og menn­ing­ar­minj­um ým­iss kon­ar. Viðhlít­andi aðgang­ur að landi er einnig for­senda upp­bygg­ing­ar og nýliðunar í land­búnaði og nauðsyn­leg­ur þátt­ur í viðhaldi og þróun byggðar.“

Mót­um nýja lög­gjöf

Af þess­um texta í skýrsl­unni sést að full þörf er fyr­ir mun ít­ar­legra sam­tal og vinnu við mót­un lög­gjaf­ar um jarðir á Íslandi, fyr­ir því vilj­um við standa.

Ekki verður um það deilt að sam­fé­lags­breyt­ing og auk­in ásókn í búj­arðir hef­ur ekki verið til að bæta hag bænda. Ótal dæmi eru um að „nýir“ jarðeig­end­ur hafi auðgað og styrkt sveit­ir, þótt hin hliðin þekk­ist líka.

Þá skal ekki gleymt að ljós­leiðara­væðing dreif­býl­is og átak í lagn­ingu á þriggja fasa raf­magni hef­ur styrkt bú­setu og verðmæta­sköp­un í sveit­um. Þessi verk­efni hef­ur Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn leitt.

Kyn­slóðaskipti

Nýliðun í land­búnaði kem­ur okk­ur öll­um við og ís­lenska þjóðin, í breyttri heims­mynd, verður að horf­ast í augu við að sjálft full­veldið er í húfi, hvernig ís­lensk­um land­búnaði vegn­ar. Grund­vall­ar­atriði er að af­koma bænda verði traust. Ung­um bænd­um þurfa að standa til boða, eins og öðrum lands­mönn­um, al­menn­ar aðgerðir í hús­næðismál­um. Má þar nefna stofn­fram­lög og/​eða hlut­deild­ar­lán til kaupa á íbúðar­hús­næði.

Einnig þarf með mark­viss­um hætti að beita skatt­kerf­inu, svo eldri kyn­slóð bænda hafi hag af því að verða hluti af lausn­inni með því að viður­kenna að sölu­verð búa og jarða er sér­eign­ar­sparnaður þeirra. Áhuga vant­ar ekki hjá ungu fólki að hasla sér völl í land­búnaði.

tæki­færi

Í áður­nefndri skýrslu er einnig m.a. um­fjöll­un um breyt­ing­ar og meðferð á heim­ild­um til að fara um land bænda. Má þar strax koma auga á löngu tíma­bæra breyt­ingu á samn­ing­um við bænd­ur um línu­lagn­ir, sem krefst þess að farið sé um lönd bænda, þannig að leigu­tekj­ur renni til jarðanna/​bænda.

Eng­inn vafi er á að eign­ar­hald bænda sjálfra á bújörðum sín­um trygg­ir hag þeirra og þjóðfé­lags­ins best. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur, vill og mun standa áfram að fram­förum í ís­lensk­um land­búnaði og sveit­um.

Björn Bjarki Þorsteinsson er sveitarstjóri og skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

Njáll Trausti Friðbertsson er alþingismaður og skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

Vilhjálmur Árnason er ritari Sjálfstæðisflokksins, alþingismaður og skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. nóvember 2024.


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  | Aðsetur: Kaupangi v/Mýrarveg  |  Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-Ak á facebook