Við áramót

Nú við áramót er við hæfi að líta yfir farinn veg og þau verkefni sem unnið hefur verið að og lokið hefur verið á árinu sem nú er senn á enda. Það voru ófá verkefni sem voru afar krefjandi en samstarfið hefur verið  gott bæði við kjörna fulltrúa sem og starfsmenn Akureyrarbæjar.

En mikilvægast af öllu er að eiga góð samtöl við bæjarbúa og fá fram skoðanir þeirra á hinum ýmsu málum. Það var m.a. gert með opnum íbúafundum sem haldnir voru í hverfum bæjarins sem og kynningarfundum vegna ákveðinna skipulagsmála. 

Í lok ársins þá opnuðu kirkjutröppurnar við hátíðlega athöfn og óhætt er að segja það margir hafa beðið óþreyjufullir eftir opnun þeirra. Kirkjutröppurnar eru stór hluti af bæjarmynd Akureyrar og Akureyrarkirkja eitt helsta kennileiti bæjarins. Ég þakka bæjarbúum biðlundina og þrátt fyrir ófyrirséðar hindranir sem tafið hafa verkið frá upphaflegri áætlun þá er óhætt að segja að útkoman sé glæsileg. 

Hópur eldri borgara er stækkandi hópur í sveitarfélaginu og mikilvægt er að þjónusta sveitarfélagsins sé í samræmi við það. Nú er ekkert því til fyrirstöðu að vinna við lífsgæðakjarna hjá Þursaholti fari af stað á næsta ári og munum við í meirihlutanum leggja mikla áherslu á að þessi vinna fari af stað hjá ríkinu strax á nýju ári. Einnig er afar mikilvægt að undirbúningsvinna við seinni heilsugæslustöðina klárist sem fyrst.  

Á fræðslu- og lýðheilsusviði ber helst að nefna að góð reynsla hefur verið af símafríi í grunnskólum Akureyrarbæjar síðan símasáttmáli var innleiddur í upphafi skólaársins. Ég sem formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs verð að hrósa skólastjórnendum, kennurum, nemendum, starfsfólki grunnskólanna og síðast en ekki síst foreldrum grunnskólabarna fyrir góða samvinnu í þessu verkefni sem hefur gengið vonum framar. 

Í nóvember á þessu ári var gerð rannsókn sem óháðir rannsóknaraðilar, Anna Elísa Hreiðarsdóttir, lektor við HA, og Svava Björg Mörk, lektor við HÍ, framkvæmdu á starfsumhverfi leikskóla hjá Akureyrarbæ eftir gjaldskrárbreytingar. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að gjaldfrjáls leikskóli hefur reynst áhrifarík leið til að draga úr álagi í leikskólum, á skólastjórnendur og starfsfólk og hefur jákvæð áhrif á börnin. En í rannsókninni kemur fram að rúmlega 80% stjórnenda og yfir 74% starfsfólks upplifa breytingarnar jákvæðar.

Þetta styrkir þá trú að við höfum verið að gera afar vel með þessum breytingum á gjaldskrám leikskóla í sveitarfélaginu. Einnig var sú ákvörðun tekin að hafa leikskólagjöld tekjutengd en með því erum við að grípa enn fleiri sem eiga í erfiðleikum með að greiða full leikskólagjöld. En þetta er eins og margt annað í sífelldri endurskoðun og munum við taka þetta mál upp á næsta ári og skoða galla og kosti. 

Akureyrarbær er heilsueflandi samfélag. Meginmarkmiðið með Heilsueflandi samfélagi er að heilsa og líðan allra íbúa sé í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum og þannig skapað umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. 

Með þetta til hliðsjónar þá höfum lagt mikla áherslu á að bæta aðstöðu og möguleika við heilsueflingu bæði fyrir börn og fullorðna. Eitt af mörgum verkefnum á nýju ári er ,,hreyfikort“ fyrir eldri borgara. En með kortinu þá fá 67 ára og eldri aðgang að Sundlaug Akureyrar, Hlíðarfjalli, Skautahöll Akureyrar og öllum dagskrá liðum virkra efri ára fyrir afar vægt gjald. Mikil ánægja hefur verið með lýðheilsukortið og vonum við að þetta muni einnig heppnast vel. 

Ný inniaðstaða hjá Golfklúbbi Akureyrar var formlega opnuð núna í desember en aðstaðan hefur því tekið stakkaskiptum í ár en bygging inniaðstöðunnar gekk mjög vel. Framkvæmdir við grunninn hófust í september 2023 eða fyrir rétt rúmu ári.  Rétt rúmlega tólf mánuðum síðar var aðstaðan tekin í notkun, golfhermar og pútt aðstaða. Vel gert GA og ástæða til þess að óska þeim til hamingju með frábært mannvirki sem verður eflaust afar vel nýtt allan ársins hring bæði fyrir börn og fullorðna. 

Framundan er að venju viðburðaríkt ár en verkefni sveitarfélagsins á hinum ýmsu sviðum eru eins og ávallt afar mörg.   

Á næstu árum mun vinna halda áfram við fjölda verkefna t.d. byggingu nýs Hagaleikskóla, næstu áfangar gagngerra endurbóta á Glerárskóla, nýr þjónustukjarni í Hafnarstræti, kostnaðarhlutdeild í stækkun á VMA, ný vélageymsla í Hlíðarfjalli, endurbætur á innilaug Sundlaugar Akureyrar og útisvæði hjá Glerárlaug, framkvæmdir við félagsaðstöðu og stúku á KA-svæði og gervigras völlur við íþróttasvæði Þórs verður lagður í vor. 

Nú í byrjun desember var fjárhagsáætlun til næstu ára lögð fram og samþykkt í bæjarstjórn. Ég er afar stoltur af þeirri vinnu sem hefur farið fram við gerð hennar. Þetta er vel unnin og skýr fjárhagsætlun sem sýnir glögglega fram á traustan fjárhag bæjarins.  

Það er ástæða til bjartsýni, okkar kraftmikla samfélag er byggt á traustum grunni og því engin ástæða til annars en að horfa björtum augum á verkefni næstu ára. Með ótal mörgum samtölum við bæjarbúa og starfsmenn Akureyrarbæjar finnum við að íbúar Akureyrarbæjar eru almennt ánægðir með áherslur meirihlutans og munum við halda áfram að gera okkar allra besta á árinu 2025.

Annars óska ég íbúum Akureyrarbæjar, starfsfólki og bæjarstjórn farsældar á komandi ári með þökk fyrir ánægjulega samfylgd og samstarf á árinu 2024. 


Heimir Örn Árnason
oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, formaður bæjarráðs og formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  | Aðsetur: Kaupangi v/Mýrarveg  |  Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-Ak á facebook