Flýtilyklar
Meiri árangur með stórsókn og umbreytingu á menntakerfinu
Sjálfstæðisflokkurinn blæs til stórsóknar og umbreytingar á menntakerfinu. Af því tilefni boðaði flokkurinn til opins fundar í Grósku í dag þar sem kynnt var 21 aðgerð til þess að ná meiri árangri í menntakerfinu.
Á fundinum fluttu erindi þau Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri, sem skipar þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
„Við stöndum á tímamótum. Við getum látið reka á reiðanum eða skapað samfélag þar sem hvert barn blómstrar í skóla. Miklu fjármagni er varið í grunnskólakerfið en árangurinn er ekki eftir því. Í samfélagi sem byggir á jöfnum tækifærum er það óviðunandi að stór hluti barna hafi ekki grunnfærni í lesskilningi eftir tíu ára skyldunám. Afleiðingar slaks námsárangurs eru alvarlegar og m.a. þær að börn njóta ekki jafnra tækifæra. Smám saman molnar undan lýðræðinu og samkeppnishæfni okkar Íslendinga dalar - sem rýrir lífsgæði okkar allra.
Þjóðir sem ná árangri í menntamálum búa við bestu lífskjörin - þar viljum við Íslendingar vera og þar getum við verið.“