Berglind Harpa Svavarsdóttir heiti ég, er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi og formaður Byggðaráðs Múlaþings. Einnig sinni ég formennsku í Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi ásamt því að hafa stigið sex sinnum á Alþingi sem varaþingmaður frá síðustu Alþingiskosningum.
Á mínum pólitíska vettvangi hef ég byggt upp víðtæka reynslu og sækist nú eftir stuðningi í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningarnar.
Mitt höfuðmarkmið er að vera sterk rödd okkar kjördæmis með góðum samskiptum við bæði kjósendur, sveitarstjórnir og atvinnulífið í heild sinni.
Mikilvægt er að koma krafti í uppbyggingu samgangna í okkar kjördæmi sem setið hefur á hakanum þrátt fyrir áherslu kjósenda. Stuðla verður áfram að lækkun verðbólgu, einföldun á regluverki í stjórnsýslunni, raforkuöryggi með aukinni orkuframleiðslu og áherslu á jafnara raforkuverð milli þéttbýlis og dreifbýlis.
Framkvæmd greiningar á efnahagsumsvifum Norðausturkjördæmis ætti að framkvæma með sama hætti og Samband sveitarfélaga á Austurlandi gerði. Niðurstöður Analytica sýna þar að um fjórðungur af vöruútflutningstekjum landsins kemur frá Austurlandi, um 240 milljarðar frá aðeins 2,9% íbúa þessa lands.
Heildarniðurstöður greiningu á efnahagsumsvifum Norðausturkjördæmis munu sýna mikilvægi kjördæmisins varðandi öflugt atvinnulíf og verðmætasköpun sem er lykilforsenda hvers samfélags og grunnur að því að ríkissjóður geti staðið undir velferðarkerfi okkar með myndarlegum hætti.