Ég hef ákveðið að sækjast eftir 1. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í Alþingiskosningum 30. nóvember næstkomandi. Frá því að ég hlaut trúnað ykkar og kjör á Alþingi 2016 hef ég af öllum kröftum verið að vinna að hag kjördæmis okkar og þjóðarinnar allrar.
Áherslur mínar hafa allan þann tíma verið á þau grundvallarmál sem skipta mestu fyrir verðmætasköpun í landinu: Atvinnumál, lífskjör fólks og búsetuskilyrði í Norðausturkjördæmi, samgöngumál, heilbrigðismál, raforkumál, málefni ferðaþjónustunnar, landbúnaðarmál, sjávarútvegsmál, byggðamál, menntun og menningarmál og svo mætti lengi telja.
Jafnframt hef ég haft trúnað Alþingis til að vinna að efnahagsmálum, ríkisfjármálum og utanríkismálum. Ég hef verið virkur í umræðum í öryggis- og varnarmálum og leitt þátttöku Íslands á erlendri grund í þeim efnum.
Samgöngumál hafa verið sérstakt baráttumál enda má segja að ekkert skipti velferð fólks á landsbyggðinni meira máli en góðar og öruggar samgöngur.
Reynsla og þekking er verðmæt í störfum á Alþingi. Með þátttöku minni og tengslum við atvinnulíf, við sveitarstjórnarmál og áralöng reynsla af þingmennsku hef ég öðlast skarpa sýn á þau málefni sem þurfa sérstaka athygli á vettvangi stjórnmála á næstu árum.