Ég heiti Ketill Sigurður Jóelsson, 38 ára gamall, búsettur á Akureyri með kærustunni minni Báru Ósk Einarsdóttur frá Hafnarfirði. Við eigum börn á aldrinum 11 til 21 árs. Ég býð mig fram í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.
Ég er viðskiptafræðingur með meistarapróf í stjórnun og hef víðtæka reynslu af verkefnastjórnun og innleiðingu tækninýjunga. Ég hef starfað hjá Akureyrarbæ síðastliðin 6 ár og séð hversu mikilvæg samvinna Alþingis og sveitarfélaga er. Sveitarfélögin eru í nánum tengslum við íbúa og geta fundið lausnir sem bæta daglegt líf. Lausnamiðuð nálgun er lykillinn að betri lífskjörum.
Ég starfa einnig sjálfstætt í ráðgjöf tengdri fjármálum og sköttum, og er meðstofnandi Leigulausna ehf., sem þjónustar tæplega 50 íbúðir í skammtímaleigu. Þessi verkefni hafa gefið mér dýrmæta reynslu í rekstri.
Ég er stjórnarformaður Moltu ehf. og hef starfað fyrir Sjálfstæðisflokkinn til fjölda ára, setið í Stúdentaráði Háskólans á Akureyri og starfað með Round Table samtökunum. Ég hef alltaf leitast við að láta gott af mér leiða og er tilbúinn að vinna fyrir ykkur.