Jón Þór Kristjánsson (3. sæti)

Ég heiti Jón Þór Kristjánsson, 33 ára Akureyringur, og gef kost á mér í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Ég starfa sem forstöðumaður þjónustu og þróunar hjá Akureyrarbæ og ber meðal annars ábyrgð á þjónustuferlum, stafrænni þróun og stjórnsýslu sveitarfélagsins og vinn náið með bæjarráði og bæjarstjórn.

Ég hef starfað hjá Akureyrarbæ undanfarin fimm ár, en starfaði áður á vettvangi fjölmiðla, sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu, dagskrárgerðarmaður á N4 og frétta- og dagskrárgerðarmaður hjá RÚV.

Ég er stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands með meistaragráðu í opinberri stefnumótun frá Edinborgarháskóla. Auk þess hef ég sótt viðbótarmenntun, m.a. við Harvard Kennedy School og sinnt kennslu í breytingastjórnun í opinberri stjórnsýslu við HÍ.

Ég er kvæntur Andreu Númadóttur. Eigum við samtals þrjú börn og það fjórða á leiðinni.

Með framboðinu langar mig að láta gott af mér leiða í þágu okkar frábæra samfélags. Stóra verkefnið er að lyfta upp þeim gildum sem Sjálfstæðisflokkurinn byggir á og afla flokknum stóraukins fylgis í okkar kjördæmi. Mér þykir vænt um kjördæmið okkar sem hefur að geyma öflug samfélög og framúrskarandi fyrirtæki. Á Norður- og Austurlandi verða til gríðarleg verðmæti og mikilvægt framlag til þjóðfélagsins í heild sem er nauðsynlegt að hlúa að.

Ég trúi því að frelsi og svigrúm fólks til athafna, atvinnu og verðmætasköpunar sé grunnurinn að öflugu velferðarkerfi. Ég brenn fyrir málefnum ungra fjölskyldna, en auk þess hef ég mikinn áhuga á heilbrigðismálum og samgöngumálum sem eru að mínu mati þau mál sem skipta okkar kjördæmi hvað mestu máli.

Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri | Geislagötu 5 | Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson | XD-AK | XD-Norðaustur