Valgerður Gunnarsdóttir (2. sæti)

Valgerður Gunnarsdóttir, skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík, stjórnarmaður í RARIK og fyrrverandi alþingismaður, sækist eftir 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi alþingiskosningum. Valgerður hefur víðtæka reynslu á sviði stjórnsýslu og menntamála, auk sterkra tengsla við atvinnulíf á svæðinu.

"Ég er tilbúin að leggja mitt af mörkum til að efla og berjast fyrir bættum innviðum í mínu víðferma kjördæmi, atvinnulífi, menntunarmöguleikum, og ekki síst lífsgæðum eldra fólks" segir Valgerður.

"Verkefnin sem fram undan eru, eru að ná tökum á verðbólgunni og því háa vaxtastigi sem við höfum mátt lifa við síðustu misseri. Sækja þarf fram í uppbyggingu innviða, samgöngu-, raforku- og fjarskiptakerfum og tryggja þannig undirstöðu fyrir aukna verðmætasköpun" Með tveggja áratuga reynslu sem skólameistari og þátttakandi í stjórnmálum hef ég skýra sýn á hvernig við getum styrkt menntakerfið, sérstaklega iðn- og verknám, og skapað fleiri tækifæri fyrir ungt fólk í heimabyggð."

Valgerður sat á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 2013-2017 og hafði áður verið virkur þátttakandi í sveitarstjórnarmálum, m.a. sem forseti bæjarstjórnar Húsavíkur. Hún hefur lengi barist fyrir aukinni samvinnu menntakerfis og atvinnulífs til að tryggja hagkvæma menntun sem nýtist á vinnumarkaði. Valgerður var skólameistari Framhaldsskólans á Laugum frá árunum 1999 til 2013 og tók við stjórn Framhaldsskólans á Húsavík eftir að hún lét af þingmennsku árið 2017.

"Norðausturkjördæmi þarf öfluga fulltrúa sem þekkja svæðið vel og eru tilbúnir í þau verk sem þarf að vinna og hugsa í framtíðarlausnum," segir Valgerður Gunnarsdóttir.

Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  | Aðsetur: Kaupangi v/Mýrarveg  |  Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-Ak á facebook