Kæru samflokksmenn og konur
Ég heiti Telma Ósk Þórhallsdóttir og ég sækist eftir 3.-5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Ég er 19 ára og frá Akureyri, þar ég hef búið undanfarin 10 ár ásamt fjölskyldu minni en fyrir það var ég búsett á Egilsstöðum.
Ég er í öðru ári í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík og sit þar sem ritari í /sys/tra, hagsmunafélagi kvenna og kvára, og í stúdentaráði NeuroTechEU. Áður var ég virk í félagslífinu í Menntaskólanum á Akureyri þar sem ég var markaðsstýra Hugins og ritari málfundarfélagsins.
Þrátt fyrir ungan aldur hef ég reynslu af stjórnsýslu. Ég sat í Ungmennaráði Akureyrarbæjar á árunum 2019-2024, og var áheyrnarfulltrúi þeirra í fræðslu- og lýðheilsuráði. Þar lagði ég fram tillögur til bæjarstjórnar, skrifaði greinar og skipulagði viðburði. Þá hef ég sinnt erlendum verkefnum, til dæmis tekið þátt í Nordic Baltic Youth Summit og European Student Assembly þar sem ég lagði fram tillögur sem verða lagðar fyrir Evrópuþingið.
Innan flokksins hef ég verið virkur þátttakandi, meðal annars sem ritari, varaformaður og nú formaður Varðar og ritari í fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna á Akureyri. Ég brenn fyrir málefnum barna og ungmenna, nútímavæðingu samfélagsins, samgöngumál í kjördæminu og þróun menntakerfisins og bætingu heilbrigðiskerfisins.