Jens Garðar er 47 ára gamall, fæddur og uppalinn á Eskifirði. Hann útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1996, stundaði nám við viðskiptafræði í Háskóla Íslands frá 1997 til 2000 og hefur MBA gráðu frá Norwegian School of Economics. Jens Garðar er búsettur á Eskifirði og á þrjú börn. Eiginkona hans er Kristín Lilja Eyglóardóttir heilaskurðlæknir.
Jens Garðar hefur lengi starfað í forystu sjávarútvegsins og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á sveitarstjórnarstigi. Hann var formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á árunum 2014 – 2020, varaformaður Samtaka atvinnulífsins 2017- 2020 og formaður bæjarráðs í Fjarðabyggð tvo kjörtímabil. „Í störfum mínum í atvinnulífi og stjórnmálum hef ég unnið náið með fólki og veit hversu mikilvægt það er að hlusta á raddir allra og byggja brýr milli ólíkra sjónarmiða,“ segir hann.
„Hugmyndaauðgi, kjarkur og þor einstaklingsins er, og hefur verið, drifkraftur hagsældar Íslendinga. Það er hlutverk ríkisvaldsins að skapa umhverfi sem hvetur, en ekki letur, áframhaldandi fjárfestingar og framþróun,“ segir Jens Garðar.
„Í þessu starfi vil ég leiða Sjálfstæðisflokkinn í Norðausturkjördæmi. Rödd athafnafrelsis þarf að heyrast betur. Forsenda uppbyggingar öflugs velferðarkerfis er meiri verðmætasköpun. Frjálst fólk framleiðir meira.“